Rúningur Daníel Atli Stefánsson rúningsmaður að rýja veturgamlan hrút í Þingeyjarsýslu sem virtist sáttur við klippinguna, enda Daníel vanur.
Rúningur Daníel Atli Stefánsson rúningsmaður að rýja veturgamlan hrút í Þingeyjarsýslu sem virtist sáttur við klippinguna, enda Daníel vanur. — Morgunblaðið/Atli Vigfússon
„Þetta er alltaf törn og ég er að rýja 3-4 þúsund fjár á þessum mánuði sem þetta tekur. Mér hefur alltaf fundist þetta gaman og það er ákveðinn sjarmi yfir rúningnum. Maður hittir marga og spjallar um búskap sem er skemmtilegt

Atli Vigfússon

Laxamýri

„Þetta er alltaf törn og ég er að rýja 3-4 þúsund fjár á þessum mánuði sem þetta tekur. Mér hefur alltaf fundist þetta gaman og það er ákveðinn sjarmi yfir rúningnum. Maður hittir marga og spjallar um búskap sem er skemmtilegt. Félagslega er þetta frábært.“

Þetta segir Daníel Atli Stefánsson sem vinnur sem verktaki við að rýja sauðfé í Suður-Þingeyjarsýslu og mest í Aðaldal. „Ég var ekki hár í loftinu þegar ég vildi fara að prófa að nota klippurnar hjá pabba sem kenndi mér ákveðin grunnhandtök ásamt eldri bróður mínum. 18 ára var ég orðinn
nokkuð fær þannig að upp úr því gat ég farið að rýja hjá öðrum bændum.“

Jafnvígur á báðar hendur

Daníel Atli er alinn upp í Klifshaga í Öxarfirði en býr nú í Hrísteigi í Reykjahverfi. Hann er bæði búfræðingur og smiður og vinnur jöfnum höndum með búfé og byggingar. Hann fór á námskeið í rúningi þegar hann var á Hvanneyri. Sú aðferð sem þar er kennd er mjög lík þeirri sem notuð er í öðrum löndum eins og Bretlandi og Nýja-Sjálandi enda þar mjög margt sauðfé.

Það hefur hins vegar vakið athygli hversu fljótur Daníel Atli er að rýja og segir hann að það sé æfingin sem skapi meistarann. Hann hefur einbeitt sér að því að þjálfa upp hraðann og það hefur tekist því hann rýr 60-180 kindur á dag, mjög auðveldlega. Þá notar hann báðar hendur við rúninginn sem er aðeins öðruvísi aðferð. Það vinnulag kunna ekki allir því flestir læra að nota bara aðra höndina.

Törnin í rúningnum getur verið erfið og auðvitað er hann stundum þreyttur á kvöldin. Hins vegar notar hann rólu til þess að létta sér starfið auk þess sem hann er í sérstöku belti til þess að hlífa bakinu. Fyrir nokkuð mörgum árum varð hann fyrir slysi og hryggbrotnaði og þess vegna er allur varinn góður.

Lyktin af vorinu heillar hann

Daníel Atli segir áhuga sinn á kindum hafa vaknað strax upp úr fermingu. Hann hefur mikið pælt og prófað í ræktun sauðfjár og það finnst honum gaman. Nýlega fékk hann sér tæki til þess að fósturtelja í ám og er þetta annað árið sem hann er að afla sér reynslu í því að fósturskoða hjá öðrum bændum.

Veðrið hefur verið gott undanfarið og Daníel Atli segir að engir skaflar hafi orðið á vegi sínum heim á bæi í rúningnum núna eins og stundum er. Hann segir að fólk eigi skilið að fá góða tíð eftir harða árið fyrra. Hann hlakkar til vorsins þegar fer að fjölga í fjárhúsum og lyktin af vorinu heillar hann.

Höf.: Atli Vigfússon