Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Ríflega 100 kíló voru í pottum í Varmárskóla í Mosfellsbæ í hádeginu á þriðjudaginn þegar þar var borinn fram grjónagrautur. Fast er á matseðli skólans að þar sé strangheiðarlegur vellingur að minnsta kosti einu sinni í mánuði. Raunar er þetta eftirlæti meðal nemenda skólans. „Hér gildir einföld uppskrift af því að það stendur alltaf fyrir sínu. Ég gæti haft þetta á borðum tvisvar í viku og flestum börnunum þætti slíkt fínt,” segir Böðvar Sigurvin Björnsson matreiðslumeistari skólans.
Herramannsmatur!
Starfsfólkið í mötuneyti Varmárskóla var venju samkvæmt komið snemma til vinnu á þriðjudag og byrjaði þá að finna til allt sem þurfti í graut dagsins. Grjónin eru grunnur: 25 kíló úr stórum sekk sem soðin voru í vatni. Tilbúin voru grjónin færð í annan pott og látin þar malla í 50 lítrum af mjólk. Svo var bætt við salti, vanillu og rúsínum. Undir hádegi var farið að krauma í pottunum. Nemendur voru líka ljómandi kátir þegar þeir komu í matsalinn og fengu þar þennan spónamat með slátri og ávöxtum.
Frægt er að fyrir 40 árum þegar þrengingar voru í efnahagsmálum á Íslandi sögðu forystumenn verkalýðshreyfingar að fátækt fólk yrði að gera sér graut að góðu. Herjað var á Steingrím Hermannsson þáverandi forsætisráðherra vegna þessa. „Mér finnst grjónagrautur góður,“ svaraði ráðherrann og sló vopnin úr höndum andstæðinga sinna. Æ síðan hefur Steingrímur með rúsínum, eins og komist er að orði, þótt algjör herramannsmatur!
Matarlegt uppeldi
„Matarmenningin hér í Varmárskóla hefur breyst talsvert frá því ríki og sveitarfélög gerðu skólamáltíðir gjaldfrjálsar,“ segir Böðvar. Hann telur þetta raunar geta átt við í fleiri skólum og slíkt sé gott mál.
„Meðan foreldrar borguðu fyrir hádegismat barnanna þurfti alltaf að hafa í huga að verið væri að selja þjónustu. Því varð matseðillinn að taka mið af vinsældum. Þá var oftar verið með föstudagsmat, eins og pítsur, hamborgara, kjúkling og lasagna. Nú er þetta sjaldnar á borðum því nú koma einfaldlega nemendur í mat, endurgjaldslaust. Áhersla á hollustu, fjölbreytta og næringarríka fæðu, kemur sterkar inn en áður. Þetta má kalla matarlegt uppeldi. Þá geta börnin líka komið hingað og fengið ávöxt og skyrdós ef þannig stendur á. Við finnum að þegar börnin eru södd dregur úr núningi í samskiptum; svo miklu ræður næring um andlega líðan.“
Eldri vilja einfalt
Böðvar er nú á sínum öðrum vetri í Varmárskóla. Áður kokkaði hann í þjónustueldhúsi Reykjavíkurborgar við Vitatorg þar sem eldra fólk er stór hluti matargesta. Það fólk er áfram um að fá einfaldan mat, til dæmis soðinn fisk og lambakjöt, og slíkt var því oft á borðum.
„Á Vitatorgi slógum við einu sinni í mexíkanskar tortillur, sem fékk engar sérstakar undirtektir í fyrstu. Í annað sinn mættu fleiri og hljómgrunnur varð enn betri í þriðja skiptið,“ segir Böðvar og hlær.
Frítt spil á fimmta degi
Reglan í Varmárskóla er sú að þar skuli vera fiskur í matinn tvisvar í viku og kjöt jafn oft. Á fimmta degi er frítt spil, samanber grjónagrauturinn.
„Á mánudaginn var ég með soðna ýsu með kartöflum, rófum, rúgbrauði og smjöri. Þetta er sígilt. Á fimmtudögum er hér stundum steiktur fiskur, til dæmis í orly. Þessi einfaldleiki virkar og reynslan segir að sé matur flókinn falli hann síður í kramið hjá börnunum. Fullorðnir þurfa fjölbreyttari mat,“ segir Böðvar.
Grunnur er lagður með skólamáltíðum
Í síðustu viku kynnti Landlæknir nýjar áherslur um mataræði, hvatningu sem fer fram samkvæmt bestu vísindalegu rannsóknum og þekkingu í þróun. Nú er fólk hvatt til að borða meira af grænmeti og einnig ávexti og ber, baunir, linsur, hnetur, fræ og heilkornavörur. Einnig fisk en að mjólkurvara sé í hófi. Mælt er með lítilli neyslu á rauðu kjöti og unnum kjötvörum. Sömuleiðis forðist fólk mikinn viðbættan sykur, mettaða fitu og salt. Með því að fylgja ráðleggingum þessum sé auðveldara að tryggja að líkaminn fái þau næringarefni sem hann þarf til að halda góðri heilsu og vellíðan
„Þessar áherslur eru í anda þess sem ég hef starfað. Fólk verður æ meðvitaðra um hollustu. Offita er vandamál margra og eins sykursýki 2; nokkuð sem best verður bætt úr með skynsamlegu mataræði og hófsemd til viðbótar við daglega hreyfingu. Þetta er einfalt og grunnur er lagður með næringarríkum skólamáltíðum,“ segir Böðvar að síðustu.