Ragnhildur Alda Vilhjálmdsdóttir
Ragnhildur Alda Vilhjálmdsdóttir
Meirihlutinn í borgarstjórn felldi á þriðjudag tillögu Ragnhildar Öldu Vilhjálmsdóttur borgarfulltrúa um að leigjendur hjá Félagsbústöðum fengju rétt til að kaupa íbúðirnar sem þeir búa í. Ragnhildur sagði við Morgunblaðið fyrir…

Óskar Bergsson

oskar@mbl.is

Meirihlutinn í borgarstjórn felldi á þriðjudag tillögu Ragnhildar Öldu Vilhjálmsdóttur borgarfulltrúa um að leigjendur hjá Félagsbústöðum fengju rétt til að kaupa íbúðirnar sem þeir búa í.

Ragnhildur sagði við Morgunblaðið fyrir borgarstjórnarfundinn að hún væri bjartsýn á að tillagan fengist samþykkt þar sem hún leysti bæði vanda Félagsbústaða og ekki síður þeirra sem leigja þar og eru fastir á leigumarkaði.

Kerfið heldur þeim föstum

„Ég vonaðist til að meirihlutinn sæi ljósið og samþykkti tillöguna. Í dag er engin leið fyrir leigjendur Félagsbústaða til að eignast íbúðirnar sínar. Kerfið heldur þeim föstum í langtímaleigu á meðan þeir sem komast inn á fasteignamarkaðinn geta byggt upp eigið fé. Þetta þýðir að eignamyndun verður einungis forréttindi þeirra sem hafa aðgang að eignamarkaði, en þeir sem þurfa á félagslegu húsnæði að halda eru lokaðir inni í kerfi þar sem eignastaða þeirra batnar aldrei.“

Hún segir að með þessu úrræði gætu leigjendur Félagsbústaða eignast fasteignir sínar, Félagsbústaðir gætu losað fjármagn til nýrra kaupa og Reykjavíkurborg gæti létt á fjárhagsáhyggjum sínum án þess að hækka leigu eða skera niður þjónustu.

Leið til að komast út úr kerfinu

„Við viljum gera fólki á leigumarkaði kleift að eignast íbúðirnar sem það býr í og teljum rétt að styðjast við þau kerfi sem eru nýtt erlendis til hliðsjónar og koma á fyrirkomulagi sem hentar hér á landi. Með þessu gefst leigjendum Félagsbústaða raunverulegt tækifæri til að komast út úr kerfinu og eignast sitt eigið heimili.“

Hún segir nýja meirihlutanum hafa orðið tíðrætt um Félagsbústaði og innan meirihlutans megi finna borgarfulltrúa sem eru ýmist hlynntir hugmyndinni eða mótfallnir henni.

„Þeir sem eru mótfallnir ráða greinilega ferðinni.“

Höf.: Óskar Bergsson