Eyjólfur Ármannsson
Eyjólfur Ármannsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðskiptablaðið er að vonum áfram um frjálsræði í viðskiptum, svo hrafnarnir Huginn & Muninn fjalla um áform Eyjólfs Ármannssonar innviðaráðherra í mótun íslensks samfélags og samgangna. Eyjólfur hyggst „breyta leigubílalögum aftur yfir í…

Viðskiptablaðið er að vonum áfram um frjálsræði í viðskiptum, svo hrafnarnir Huginn & Muninn fjalla um áform Eyjólfs Ármannssonar innviðaráðherra í mótun íslensks samfélags og samgangna. Eyjólfur hyggst „breyta leigubílalögum aftur yfir í fyrra horf og verður þannig skref, sem stigið var í átt til aukins frelsis á leigubílamarkaði, stigið til baka.

Líkt og Viðskiptaráð bendir á í umsögn sinni myndu fyrirhugaðar breytingar fela í sér afturför á leigubílamarkaði. Meðal annars á að taka upp gamaldags stöðvarskyldu á ný sem líkt og ráðið bendir á leiðir til hærra verðs og lakari þjónustu fyrir neytendur.“

Hrafnarnir telja að Eyjólfur hafi látið undan „þrýstingi hagsmunaafla sem bera síður en svo hag neytenda fyrir brjósti.“ Þá segja þeir að ef fram haldi sem horfi megi ætla að Inga Sæland muni láta draum formanns Leigjendasamtakanna um „leiguþak rætast með tilheyrandi hörmungum fyrir íslenskan leigumarkað“.

Kannski, en fyrir Eyjólfi eru leigubílar annað og meira en farartæki, eins og hann greindi frá í grein hér í blaðinu á mánudag: „Traust og skilvirk leigubílaþjónusta er þannig mikilvæg forsenda aukinna lífsgæða og öruggara samfélags fyrir okkur öll.“ Munið það börnin góð, leigubílar eru lykillinn að lífshamingjunni.