Guðrún Hildur Finnsdóttir fæddist í Reykjavík 8. júlí 1948. Hún lést á Droplaugarstöðum í Reykjavík 12. mars 2025.

Foreldrar hennar voru Finnur Hafsteinn Guðmundsson húsasmíðameistari í Hafnarfirði, f. 20. júlí 1926, d. 6. ágúst 1997, og Sigríður (Sísí) Ingimundardóttir húsmóðir, f. 24. júní 1926, d. 14. apríl 1987. Bræður Hildar eru Gunnar rafvirki, f. 8. maí 1950, d. 9. ágúst 2010, sem var kvæntur Sigríði Elísabetu Halldórsdóttur, f. 3. október 1954, d. 25. nóvember 2004, þeirra dætur eru Eva Hlín, f. 25. september 1976, og Marta, f. 26. júlí 1985, og Eiríkur Brynjólfur, f. 27. janúar 1957, matreiðslumaður, kvæntur Hafdísi Þorvaldsdóttur sjúkraliða, f. 11. júní 1957, þeirra sonur er Finnur Freyr, f. 11. apríl 1982.

13. júlí 1968 giftist Hildur Gunnari Gunnarssyni, f. 14. júlí 1947, blaðamanni og rithöfundi. Foreldrar hans voru Guðjón Gunnarsson, f. 13. janúar 1924, d. 23. júlí 2016, og Ester Jónsdóttir, f. 20. ágúst 1923, d. 5. maí 1994. Sonur þeirra er Dagur, ljósmyndari og leiðsögumaður, f. 19. maí 1967. Kona hans er Gunnþórunn Guðmundsdóttir bókmenntafræðingur, f. 21. apríl 1968, þeirra sonur er Flóki menntaskólanemi, f. 5. mars 2006.

Hildur ólst upp í Hafnarfirði, lauk landsprófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík og svo kennaraprófi frá Kennaraskólanum árið 1968. Fjölskyldan bjó í Svíþjóð um nokkurra ára skeið og þar lauk hún prófi í málvísindum frá Stokkhólmsháskóla 1980. Hún nam síðar bókmenntir og sænsku við Háskóla Íslands. Hún starfaði sem prófarkalesari við ýmis dagblöð, þar á meðal Þjóðviljann, Tímann, Morgunblaðið og Helgarpóstinn, og fyrir fjölmargar bókaútgáfur og rithöfunda í marga áratugi. Þó nokkur sumur var hún leiðsögumaður fyrir íslenska ferðamenn á Spáni og þá var hún flugfreyja um tíma. Hún starfaði sem kennari meðal annars við Þelamerkurskóla, barnaskólann í Brautarholti á Skeiðum og í Námsflokkum Reykjavíkur. Á seinni árum kenndi hún einkum íslensku sem annað mál, til að byrja með hjá Námsflokkunum og svo síðar í málaskólanum Mími og í einkatímum.

Útför Hildar verður gerð frá Dómkirkjunni í dag, 20. mars 2025, klukkan 13.

Í henni Hildi Finns, tengdamóður minni, leyndust margir heimar. Hún var vestfirsk aftur í ættir, Hafnfirðingur að uppeldi, miðbæjardama að eigin vali, en í henni var líka svolítið af Stokkhólmi, og síðast en ekki síst voru Spánverjar nokkuð vissir um að hún væri Baski. Hún var veisluglöð og glaðlynd, en gat á stundum verið einræn og eins og úr takti við umhverfi sitt.

Vestfirskan birtist á ýmsan hátt, hún hafði til dæmis dálæti á vondum íslenskum mat og sendi okkur Degi eitt sinn þorramat til London þar sem með fylgdi súrsaður selshreifi. Hann dvaldi nokkuð lengi í ísskápshurðinni þangað til meðleigjandi okkar spurði af hverju við geymdum vinnuvettlinga í ísskápnum. Þessi vestfirski matarsmekkur fylgdi henni því að þótt hún væri hrifin af ýmsum framandi mat – tapasréttir Spánar hentuðu t.d. þessari matgrönnu konu ákaflega vel – þá hafði hún óbeit á grænmeti og datt ekki í hug að setja salat inn fyrir sínar varir.

Þegar hún heimsótti okkur Dag til Spánar, þá var eins og hún rynni saman við umhverfið. Hún virtist hafa tekið lit í flugvélinni á leiðinni, þar sem hún valsaði um í fallegum hörfötum, gjarnan með netta basttösku á arminum sem stundum geymdi ekkert annað en sólgleraugu (og kannski sígaretturnar), talandi sína fögru spænsku við heimamenn og segjandi þeim sögur frá Hafnarfirði.

Þannig var hún þessi skemmtilega blanda af heimskonu og Hafnfirðingi, málamanneskja sem ekki einungis kunni mörg tungumál heldur var sérlega flink að kenna fólki íslensku. Skipti þá ekki máli hver átti í hlut; rússneskir málvísindamenn eða taílenskar nunnur. Allt varð ljóst fyrir nemendunum þegar Hildur útskýrði.

Hún var grönn og nett, kvik í hreyfingum, skrafhreifin eins og allir þekkja sem kynntust henni. Oft voru sögurnar sem hún sagði víðfeðmar og af því að hún var bæði persónufróð og með stálminni þá gátu ranghalar sagnanna orðið svo langir að hlustandinn átti fullt í fangi með að ná áttum.

Alla þekkti hún og alla gat hún tengt saman heimshorna á milli. Skagfirskur bóndi fékk vinnumann sem hann vissi ekki að hann vantaði og þýskar stúlkur voru komnar í þriggja daga hestaferð áður en þær vissu af. Ekki síst reyndist hún þeim sem hún kenndi íslensku vel, þá virkjaði hún sitt tengslanet fyrir þau sem ekkert höfðu. Lund hennar gat þó verið erfið og stundum var það þannig að hún átti auðveldara með samskipti við þau sem stóðu fjær en þau sem stóðu næst.

Fyrir um sex árum færði heilabilun hana burt úr okkar heimi í annan. Skammtímaminnið bilaði, en ennþá eimdi eftir af mörgum hennar eiginleikum, ekki síst smekkvísinni sem aldrei hvarf. Ef ég heimsótti hana í fallegri, helst litfagurri, flík fékk ég ávallt hrós fyrir. Þetta greip athygli hennar og gladdi hana um stund. Gunnar eiginmaður hennar hefur staðið óbilandi við hlið hennar í gegnum þessa erfiðleika og reynt að tryggja að hún fengi þá bestu umönnun sem völ var á. Lífsgæðin voru þverrandi síðustu misserin og nú fær hún sína hvíld.

Blessuð sé minning Hildar Finns.

Gunnþórunn
Guðmundsdóttir.

Blessunin hún Hildur mín. Hún kom með Gunnari bróður heim til okkar á Dunhagann á sjöunda áratugnum og ég man hvað ég var feimin við hana. Þessi fallega unga kona með djúpu augun sín og skemmtilega viðmótið. Hún var opinská og frjálsleg og gat spjallað við okkur um alla heima og geima. Ég dáðist að henni. Þau Gunnar giftu sig í Neskirkju sólríkan sumardag í júlí og voru svo falleg saman, Hildur með blómin í hárinu og í hvíta kjólnum. Þau stofnuðu heimili og bjuggu meðal annars á Kleppsveginum og í Karfavoginum.

Ljósið þeirra hann Dagur kom í heiminn og ég passaði oft þennan fallega dreng. Það var alltaf gaman að heimsækja þau á heimilið fullt af listaverkum og bókum. Svo fluttu þau í Hafnarfjörð en þar hafði Hildur einmitt alist upp í Ásbúðartröðinni á mannmörgu heimili ásamt foreldrum sínum þeim Sísí og Finni, bræðrum sínum Gunnari, sem nú er látinn, Eiríki og móðurforeldrum sínum Ingimundi og Mörtu. Hildi þótti vænt um sitt fólk og varð tíðrætt um afa sinn og ömmu.

Við bjuggum um skeið samtímis í Stokkhólmi og þaðan á ég yndislegar minningar með Hildi og fjölskyldu. Hún var um tíma dagmamma fyrir íslensk börn í hverfinu og Starri sonur okkar Sigurðar var meðal þeirra. Á hverju sumri fóru þau Gunnar til Spánar að vinna í ferðamannabransanum og Hildur heillaðist af landinu, lærði spænsku og kunni hana reiprennandi.

Við Hildur unnum saman í Blaðaprenti rétt í byrjun áttunda áratugarins, þar voru dagblöðin prentuð og við vorum blaða- og prentsvertufíklar. Hildur las prófarkir fyrir Tímann og kom mér í vinnu þar. Hún kenndi mér að virða íslenskt mál en hún var íslenskuunnandi af lífi og sál og besti prófarkalesari landsins. Las bækur yfir fyrir margan rithöfundinn og henni var sannarlega treystandi til þess. Síðustu árin hefur hún Hildur mín verið veik og horfin okkur á margan hátt en alltaf hef ég getað spurt hana um rétt málfar og stafsetningu, þar skeikaði henni ekki. Nýlega sagði ég henni að mig langaði að læra spænsku. „Viltu ekki kenna mér?“ spurði ég. „Gyða mín, þú ert orðin of sein,“ sagði hún þá.

Ég sakna Hildar mikið en allar minningarnar lifa með mér, ég er svo þakklát fyrir þær. Innilegar samúðarkveðjur sendum við Sigurður til fjölskyldunnar.

Gyða Gunnarsdóttir.

Nú hefur hún Hildur kvatt þessa jarðvist. Hún var með svört tindrandi augu, skarpa andlitsdrætti sem vísuðu til annarra heima en Íslands, dökk á húð og hár. Hún var falleg kona. Hún hafði óvenjulega frásagnargáfu og fléttaði marglaga sögur sínar þannig að ég var löngu búin að missa þráðinn áður en sögunni lauk, en aldrei fataðist henni flugið og alltaf fléttaði hún frásögnina listilega saman í lokin. Ég fylltist alltaf aðdáun og lotningu þegar hún lauk sögu hér við eldhúsborðið hjá okkur Óla. Hún kom óvænt eins og vindurinn og hvarf jafnskjótt, kom svo kannski löngu seinna, alltaf með sömu frásagnargleðina og örlætið á sjálfa sig. Ég átti líka í vinnusambandi við hana. Hún prófarkalas fyrir mig ársskýrslur, en ekki reyndist auðvelt að fá hana til að senda reikning fyrir vinnunni, sem leiddi til þess að ég gat ekki nýtt krafta hennar áfram, en betri prófarkalesara var ekki hægt að finna. Hún kvaddi ytri heiminn löngu áður en lífi hennar lauk og ég fór því miður ekki til fundar við hana, eins og alltaf stóð þó til, fyrr en fyrir stuttu. Þá lá hún og svaf svo vært, alltaf jafn falleg. Ég vildi ekki trufla hana – og nú hefur hún kvatt. Ég þakka fyrir stundirnar sem hún gaf af örlæti hjartans, og veit að ég tala þar fyrir munn okkar Óla beggja. Blessuð sé minning hennar. Hún auðgaði umhverfi sitt og gaf lífinu lit. Takk Hildur og far vel.

Sigríður Jónsdóttir.

Hildur er fallin frá, sú fyrsta úr hópnum sem við stofnuðum fyrir hartnær sextíu árum, þegar við hófum nám í Kennaraskóla Íslands. Það er margs að minnast. Hugurinn fer aftur til haustsins 1964. Þá hittumst við fyrst. Á þeim árum var öldin önnur og stúlkur héldu sig til hlés og létu lítið á sér bera. En ein okkar var opin, kát og ófeimin að ræða við kennarana, þar var Hildur Finns mætt til leiks, sterkgreind og glaðvær kvennaskólastúlka. Við urðum fljótlega góðar vinkonur og saman stofnuðum við saumaklúbb ásamt þremur öðrum. Hildur var glöð í góðra vina hópi og hafði frá mörgu að segja. Hún var líka sigld þar sem foreldrar hennar bjuggu í Noregi á þessum tíma en hún bjó hjá afa sínum og ömmu í Hafnarfirði, en sigldi síðan með Gullfossi til Noregs eftir vorprófin. Hún hafði meira að segja farið með þeim til Mallorka, lengra varð ekki komist í ævintýramennskunni í okkar augum á þessum árum. Já það var ævintýraljómi yfir þessari skólasystur okkar. Og svo var hún suðræn í útliti. Líf hennar varð líka öðruvísi og ævintýralegra en okkar hinna. Hún fluttist til Svíþjóðar í nokkur ár með manni sínum Gunnari Gunnarssyni og einkasyni Degi fljótlega eftir Kennaraskólann og saman unnu þau sem fararstjórar á Spáni í mörg sumur. Hildur lærði spænsku og kenndi hana um árabil við málaskóla þegar heim var komið. Hún var einnig prófarkalesari hjá dagblöðunum og þýddi skáldsögur af mikilli snilld.

Frásagnargleði og ritlist voru Hildi töm. Hún var einkar góð í íslensku og gott að leita til hennar með texta sem þurfti að lesa yfir. Og það voru margir sem til hennar leituðu, bæði kunnugir og ókunnugir. Hún taldi það skyldu sína að leiðbeina og hjálpa fólki við texta, oft án þess að vilja nokkra greiðslu fyrir.

Greiðasemi Hildar við aðra náði langt út fyrir prófarkalestur. Eitt sinn var saumaklúbbssonur einn heima að þvo upp með eldhúsið fullt af óhreinu leirtaui meðan foreldrarnir dvöldu erlendis. Þá hringdi Hildur og þegar hún heyrði um ástandið bauðst hún strax til að koma og aðstoða hann. Drengurinn afþakkaði en nefndi að næsta ár myndi hann kaupa pappadiska. Hildur svaraði að bragði: „Þú ert snillingur!“

Saumaklúbburinn átti margar góðar stundir saman, stundum í ferðum með fjölskyldum sínum og alltaf var Hildur hrókur alls fagnaðar.

Já hún þekkti marga og talaði mikið og var skemmtilega orðheppin og fyndin þar sem hún lék sér með tungumálið. Hvorki talaði hún um sjálfa sig né viðraði áhyggjur sínar og líðan en undir bjó ofurviðkvæm sál, sem ekkert aumt mátti sjá og hjarta hennar sló með lítilmagnanum. Það getur verið erfitt að átta sig á þegar fer að halla undan fæti og þannig var það með Hildi. Við stóðum á hliðarlínunni og sáum heilsu hennar hraka þar til hún var brostin. Hildur dvaldi á hjúkrunarheimili síðustu ár sín.

Í dag hugsum við til Hildar með þakklæti fyrir liðnu samverustundirnar og sendum Gunnari, Degi, Flóka, Gunnþórunni og öðrum aðstandendum ljúfustu samúðarkveðjur.

Hvíli Hildur Finns í friði.

Fyrir hönd klúbbsins,

Anna Sigríður Einarsdóttir.

Á myndlistaropnun í kringum 2007 kynnti sig fyrir mér kona með glettnislegt blik í auga og sagðist vera prófarkalesari hjá Viðskiptablaðinu. Í þá daga var Viðskiptablaðið skemmtilegt blað enda hrun í uppsiglingu. Hún sagðist hafa gaman af að prófarkalesa pistla sem ég skrifaði fyrir blaðið og kom með snjalla athugasemd við einn þeirra og uppbyggilega gagnrýni á annan. Hún hafði lifandi áhuga á textanum og afslappaðan eldmóð fyrir efninu. Með okkur myndaðist kunningsskapur og eftir þetta vorum við í milliliðalausum samskiptum í kringum pistlaskil. Eftir því sem á leið urðu afskipti hennar meiri og meiri. Það kom fyrir að ég lét eitthvað meingallað gossa í tímaþröng og vissi að Hildur myndi bjarga því, enda var hún fljót að hugsa og skildi það sem ég hefði átt að segja. Eftir hrun var niðurskurður hjá blaðinu og reynslumesta fólkið missti vinnuna og þar með Hildur. Stuttu síðar hafði hún samband við mig og sagði að nýjasti pistill minn væri sá sísti hingað til og bauðst til að lesa yfir fyrir mig áður en ég sendi pistlana í prófarkalestur. Hún væri atvinnulaus og þyrfti að halda sig við efnið. Ég þáði það og samstarfið hélt áfram. Hún stórbætti pistlana, hjálpaði mér að orða hlutina, bjó til frábærar fyrirsagnir og var góður íslenskukennari. Við drukkum saman kaffi og reyktum sígarettur og hún kallaði Hrafnhildi dóttur mína hálfnöfnu, talaði viðstöðulaust og stundum í gátum. Hún var lifandi og skemmtileg og það er gaman að hafa kynnst henni.

Ásmundur Ásmundsson.

Hildur Finnsdóttir var leiftrandi manneskja. Hún var mamma Dags vinar míns en ég var heimagangur hjá fjölskyldu hans af og til á níunda og tíunda áratugnum.

Þetta var fyrir tíma farsíma svo stundum var Dagur ekki heima þegar maður bankaði upp á. Alltaf var manni samt boðið inn, hvort ég vildi ekki bara hinkra eftir honum, hún þyrfti reyndar að fara bráðum en þér er bara velkomið að vera, viltu kaffi?

Og það var alltaf tími fyrir spjall. Það var varla til það hugðarefni menntaskólastráka sem hún þekkti ekki til og hún var ein af þessum mömmum sem hafa einlægan áhuga á að heyra hvað ungmennin eru að hugsa. Ekki til að leiðrétta fulleinfaldar skoðanir heldur eins og til að átta sig á hvar maður væri staddur í heimi hugmynda og skoðana.

Hún gat hlustað og horft á mann með sínum dökku, skörpu augum, hallað aðeins undir flatt og sagt svo eitthvað eins og „já, svo þú sérð þetta svona!“ og fundist það í alvöru áhugavert. Svo gat komið blik í auga og eitthvað í ætt við „þú ert svo ungur að þú manst auðvitað ekki eftir …“ og bætt við einhverju sem teiknaði upp annað sjónarhorn. Ekki til að skáka og máta mann, heldur bara til að leyfa manni að skoða.

Hún var líka óhrædd við að segja sína skoðun þótt hún væri þvert á okkar. Frönsk kvikmynd sem við ungu mennirnir vorum hugfangnir af, Betty Blue, fjallaði um ólgandi ástar- og tilfinningalíf hinnar skapheitu og fögru Betty. Henni fannst lítið til koma, þetta væri upphafin ljósblá mynd, sérhönnuð fyrir unglinga. Maður mótmælti auðvitað harðlega en fann samt að þetta var neyðarlega satt.

Hildur var hjálpsamari en flestir og átti gríðarlegan fjölda vina og kunningja. Það var sama hvert verkefnið var; ef Hildur gat ekki bent á lausn á því sjálf þekkti hún yfirleitt einhvern sem gat það.

Hildur var líka sagnakona og húmoristi. Sumar sögurnar voru stuttar og lýstu skondnum atvikum eða sérkennilegum persónum. Aðrar voru lengri og kröfðust þess að maður héldi einbeitingu á meðan hún lagði grunn að persónum og leikendum að hætti Íslendingasagna. Ef maður náði að halda þræði á meðan hún byggði upp þennan breiða grunn sögunnar gat það veitt mikla ánægju síðar þegar persónur eða atvik sem lýst var í upphafi reyndust leika mikilvægt hlutverk síðar. Væru sögur hlaup væri Hildur bæði meistari í spretthlaupi og löngum víðavangshlaupum þar sem markmiðið er frekar að njóta leiðarinnar en að komast hratt í mark.

Þegar ég lít til baka og hugsa „já, svo þú sérð þetta svona!“ sé ég leiftrandi konu umkringda vinum sem hún hefur eignast í gegnum lífið með hjálpsemi sinni og einlægum áhuga á fólki. Ég sé líka mömmu sem elskar strákinn sinn, tekur öllum hans vinum opnum örmum og vill skilja hvað gengur á í þeirra kolli.

Mig dreymdi Hildi um daginn, sem var óvenjulegt því vegna veikinda hennar hef ég ekki hitt hana lengi. Hún var í miklu stuði, var að undirbúa ferðalag og hlakkaði til.

Ég óska henni góðrar ferðar og ævintýra á leiðinni sem ég hlakka til að heyra hana segja frá þegar við hittumst næst.

Dofri Hermannsson.