Bjarni Már Magnússon
Á undanförnum árum hefur íslenskt efnahagslíf þróast í átt að hátækni og þekkingariðnaði. Fjöldi fyrirtækja hefur haslað sér völl á sviði hugbúnaðar, gagnagreiningar og hátækniframleiðslu eina og þekkt er. Mikilvægt er að nýta þessa þróun til að efla tæknigeirann í öryggis- og varnarmálum. Með markvissri stefnu og fjárfestingu gæti Ísland orðið virkari þátttakandi í varnartækni, aukið getu sína til að bregðast við öryggisógnum og skapað efnahagsleg verðmæti fyrir íslenskt samfélag.
Nýsköpun og rannsóknir
Til að byggja upp öflugan varnariðnað þarf Ísland að leggja áherslu á rannsóknir og þróun (R&D) með tvíþættum tilgangi (dual use). Með því að fjárfesta í hátækni og nýsköpun gæti íslenskur iðnaður þróað sérhæfðar lausnir fyrir eigin öryggisþarfir og skapað útflutningsverðmæti. Sérstaka áherslu mætti leggja á svið eins og netöryggi, gervigreindargreiningu og þróun sjálfvirkra eftirlitskerfa, þar sem íslensk fyrirtæki hafa þegar sýnt góðan árangur.
Að leggja áherslu á tvíþætta tækni er lykilatriði. Slík tækni er grunnstoð í erlendum þróunaráætlunum fyrir varnartækni, þar sem rannsóknum er aðeins veitt fjármagn ef þær hafa skýr hagnýt áhrif bæði í viðskiptalegum og varnartengdum tilgangi. Fjárfesting í tvíþættri tækni hefur reynst afar árangursrík í Svíþjóð, þar sem hún skapar viðskiptalegt virði fyrir bæði innlenda og erlenda iðnaðarhagsmuni á sama tíma og hún leggur grunn að innlendum varnarviðbúnaði til framtíðar.
Háskólar og rannsóknarstofnanir gegna lykilhlutverki í þessari þróun með því að auka menntun og samstarf við fyrirtæki á sviði varnartækni. Erlend ríki nýta háskóla sína og hugveitur til að byggja upp nýsköpun í varnartækni og þjálfa framtíðarvinnuafl á því sviði. Ísland er aftarlega á merinni þegar kemur að þessum málum, sem getur hamlað getu landsins til að byggja upp eigin varnargetu og leitt til ofuráherslu á innflutta tækni. Til að bæta sig í þessum málaflokki gæti Ísland nýtt sér samstarf við bandamenn, til dæmis með þátttöku í alþjóðlegum samvinnu- og rannsóknarverkefnum sem styðja þróun varnartækni.
Netöryggi og rafrænn hernaður
Ein helsta áskorunin á sviði öryggismála er netöryggi og rafræn ógn. Með því að efla enn frekar innlenda getu á sviði netöryggis og rafræns varnarbúnaðar gæti landið bæði varið innviði sína og orðið mikilvægur samstarfsaðili í alþjóðlegu öryggissamstarfi.
Sóknar- og varnargeta í netheimum verður sífellt mikilvægari, og það er hagkvæmt fyrir Ísland að byggja upp frekari þekkingu á þessu sviði. Slík sérþekking er verðmæt innanlands fyrir einkageirann en einnig fyrir innviði ríkisins. Markviss fjárfesting í rannsóknum og þróun á sviði netöryggis mun ekki aðeins efla getu landsins til að verja sig heldur einnig skapa efnahagslegan ávinning, eins og sjá má af íslenskum netöryggisfyrirtækjum sem hafa verið keypt af erlendum aðilum.
Auk netvarna þarf Ísland að styrkja varnir sínar gegn rafrænum hernaði, sem felur í sér varnir gegn árásum á rafræn samskiptakerfi, staðsetningartækni og gagnainnviði. Ógnir af þessum toga hafa aukist í kringum Ísland, sérstaklega á hafinu, vegna aðgerða Rússlands á norðurslóðum. Án fjárfestingar í varnarbúnaði gegn rafrænum hernaði og sóknargetu á þessu sviði verður Ísland áfram berskjaldað fyrir truflunum á samskiptum sem gætu skaðað hagkerfið.
Hátæknilausnir í flug- og hafvöktun
Íslensk fyrirtæki hafa þegar náð góðum árangri á sviði flugtækni og þróunar ómannaðra loftfara (dróna). Með markvissri fjárfestingu gæti þessi geiri vaxið hraðar og þjónað bæði borgaralegum og hernaðarlegum tilgangi. Drónar og sjálfvirk eftirlitskerfi nýtast við landamæragæslu, öryggisaðgerðir á hafinu og vöktun ógnana á norðurslóðum. Sama á við um þróun hátæknibúnaðar fyrir farartæki á sjó, þar á meðal minni kafbáta og fjarskiptatækni fyrir vöktun á hafi úti. Auk þess sem íslensk fyrirtæki hafa lengi haft gott orðspor við vopnaflutninga. Með því að efla innlenda framleiðslugetu gæti Ísland tryggt aðgang að nauðsynlegri tækni fyrir eftirlit og varnartengd verkefni án þess að vera algjörlega háð innflutningi.
Ábyrgð í varnarsamstarfi
Með því að auka fjárfestingu í varnartækni gæti Ísland ekki aðeins tryggt eigið öryggi betur heldur einnig sýnt ábyrgð í varnarsamstarfi við bandalagsríki sín. Þrátt fyrir að Ísland hafi ekki þróað hefðbundinn hernaðarmátt gæti landið orðið mikilvægari samstarfsaðili í varnarmálum með því að sérhæfa sig í hátæknilausnum sem stuðla að sameiginlegri öryggisuppbyggingu.
Að styrkja varnartækni á Íslandi snýst um að nýta þau tækifæri sem nútímatækni býður upp á til að efla innviði, skapa ný störf og auka efnahagslegt sjálfstæði. Með þátttöku í þróun varnartækni sýnir Ísland einnig vilja sinn til að axla ábyrgð sem fullgildur samstarfsaðili í alþjóðlegu varnarsamstarfi. Hátæknilegur varnargeiri veitir Íslandi mikilvægt áhrifavald og eykur sjálfstæði þess í samskiptum við alþjóðlega samstarfsaðila. Nú er kominn tími til að horfa til framtíðar og hefja markvissa uppbyggingu á þessu mikilvæga sviði.
Höfundur er prófessor við lagadeild Háskólans á Bifröst.