Snagar Gunnar og Brynhildur ásamt ótrúlega fjölbreyttum snögum á sýningunni í Hakk Gallery.
Snagar Gunnar og Brynhildur ásamt ótrúlega fjölbreyttum snögum á sýningunni í Hakk Gallery. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Við buðum fjölbreyttum hópi hönnuða, listamanna, arkitekta og handverksfólks að gera veggsnaga, og útkoman er eins fjölbreytt og þátttakendurnir, bæði í efni og formi. Þátttakendur eru rúmlega þrjátíu, bæði innlendir og erlendir, með margs konar bakgrunn og reynslu, nýútskrifaðir sem og landskunnir

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Við buðum fjölbreyttum hópi hönnuða, listamanna, arkitekta og handverksfólks að gera veggsnaga, og útkoman er eins fjölbreytt og þátttakendurnir, bæði í efni og formi. Þátttakendur eru rúmlega þrjátíu, bæði innlendir og erlendir, með margs konar bakgrunn og reynslu, nýútskrifaðir sem og landskunnir. Inntak sýningarinnar er spurningin: Hvað er snagi?“ segja þau Brynhildur Pálsdóttir og Gunnar Pétursson, um sýninguna Snagar-Hooked, sem nú stendur yfir í Hakk Gallery við Óðinsgötu í Reykjavík, en þau tvö stofnuðu galleríið sl. haust og þar er áhersla á hönnun, handverk og arkitektúr.

„Þessi fyrsta sýning okkar er ákveðið endurlit til ársins 1996, þegar samskonar sýning var opnuð í Gallerí Greip á Hverfisgötu, en Tinna Gunnarsdóttir hönnuður stofnaði það hönnunargallerí þegar hún var nýkomin heim úr námi. Þá voru mjög fáir hönnuðir hér, en við viljum heiðra þessa sögu og það sem hefur verið gert. Við fengum nokkra sem tóku þátt í sýningunni í Gallerí Greip fyrir 29 árum, til að taka þátt í sýningunni núna og þau sýna bæði snaga frá þeirri sýningu og nýja snaga,“ segja þau Gunnar og Brynhildur og bæta við að sýningin núna fjalli sem fyrr um þennan nauðsynlega nytjahlut, snaga, sem er alls staðar í kringum okkur, einfaldur en líka flókinn.

„Snagi er ótrúlega áhugaverður hlutur og væntanlega ekki til menningarheimur sem ekki er með snaga í einhverri mynd, enda þurfum við snaga fyrir hluti, flíkur, áhöld og fleira. Við tökum snögum sem sjálfsögðum hlut, en það er svo gaman að hugsa upp á nýtt um eitthvað svona sjálfsagt og setja það á stall, því þá kemur eitthvað áhugavert út úr því. Margir hafa sagt að sumir þessir snagar á sýningunni séu eins og litlir skúlptúrar eða skartgripir á vegg. Með sýningunni erum við að vekja athygli á því að hversdagslegur og sjálfsagður nytjahlutur getur á sama tíma verið geggjað listaverk með fagurfræðilegt gildi sem setur svip á heimili, eða hvar sem hann er uppi á vegg. Á sýningunni hangir ekkert á snögunum, en það er áhugavert að hugsa um þá með eitthvað hangandi á sér, því þá breytast þeir.“

Vöntunin var gargandi

Brynhildur er vöruhönnuður en Gunnar er myndlistarmaður, og þau segja að hugmyndin um að stofna gallerí hafi kviknað í mörgum samtölum þeirra á milli um hversu mikið vantaði alvöru hönnunargallerí á Íslandi.

„Gallerí þar sem hægt er að sýna og miðla vörum og hlutum sem eru kannski bara tilraunir, prótótýpur, efnispælingar og líka á mörkum myndlistar og hönnunar, allskonar áhugaverðir hlutir. Við stofnuðum þetta gallerí vegna gargandi vöntunar á slíku. Myndlistarheimurinn á sín gallerí, listasöfn og hátíðir, en þessi kimi átti sér engan sérstakan samastað. Við viljum gefa fólki tækifæri til að sýna hvað það er að gera, því þegar fólk hefur lokið námi og fer að starfa við sitt fag þá taka praktísk verkefni við, en það vantar vettvang þar sem fólk fær að gera tilraunir og leika sér. Setja fram hugmyndir. Við erum vissulega með Hönnunarmars á vorin hér á Íslandi, sem er frábær og mikilvæg hátíð hönnunar, en svo er eins og mjög lítið gerist í heilt ár. Þess vegna fannst okkur mikilvægt að stofna gallerí sem er opið allt árið, með mörgum sýningum, svo það myndist einhverskonar stöðugleiki. Við vorum úti í Stokkhólmi um daginn og það var sláandi að sjá samanburðinn, hversu stutt við erum komin hér heima, bæði varðandi framboð af stöðum til að sýna hönnun og verslanir sem selja hönnunarvörur og handverk. Okkur fannst við því verða að stofna gallerí og við erum þakklát fyrir styrk sem við fengum úr Hönnunarsjóði Íslands sem gerði okkur kleift að fara af stað og opna Hakk Gallery. Okkur langar að hefja upp þessa vinnu sem hönnuðir vinna, því venjulega sér fólk tilbúna afurð úti í búð, sem hefur farið í gegnum langt ferli áður en hún fór til framleiðslu í verksmiðju. Að baki tilbúinnar vöru liggja oft hundrað prótótýpur, ótal tilraunir með efni og fleira.“

Hin hreina sköpun

Þeim finnst báðum að leggja ætti niður flokkun á listsköpun, í myndlist, hönnun eða annað, það sé hamlandi.

„Við viljum frekar horfa á hlutina, hina hreinu sköpun, og þá skiptir engu máli hvort skapandinn þar að baki sé flokkaður sem myndlistarmaður, hönnuður, eða eitthvað annað. Til dæmis er Logi Pedro einn af þátttakendum á sýningunni núna og flestir flokka hann sem tónlistarmann, en hann er ekki síður frábær hönnuður sem gerir mjög metnaðarfulla hluti. Hann er fyrst og fremst skapandi listamaður,“ segja þau og bæta við að snagasýningin sé gerð með stuðningi frá Handverki & hönnun.

„Okkur finnist mjög mikilvægt að vera líka með erlenda þátttakendur á sýningunni, þar er hollenskur snagi, sænskir snagar og þýskir. Tveir af erlendu þátttakendunum verða með einkasýningar seinna á árinu hjá okkur, David Taylor ætlar að vera með sýningu á Hönnunarmars og þá fær hann allt rýmið undir sín verk. Hin þýska Johanna Seelemann, sem er reyndar með annan fótinn hér á landi, hún verður með gler-tilraunasýningu undir lok sumars hjá okkur. Einnig er ótrúlega gaman fyrir okkur að geta flaggað gamla snaganum frá Stúdíó Granda, frá upprunalegu snagasýningunni 1996, en sá snagi er í raun hálfgerð prótótýpa fyrir þá snaga sem seinna voru settir upp á kaffihúsinu í Listasafni Reykjavíkur Hafnarhúsi. Nýi snaginn sem þau hjá Stúdíó Granda bjuggu til fyrir sýninguna núna, hann er spýta með stórum nöglum, sem er vísun í verkstaði, til dæmis þegar verið er að byggja hús, þá er hráefni sem notað er í húsbygginguna notað til að búa til tímabundna snaga. Þeim er bara riggað upp.“

Þau segja alltaf eitthvað spennandi að gerast hjá íslenskum hönnuðum, enda sífellt fleiri að mennta sig í hönnun.

„Okkur finnst gaman að bæði Listaháskólinn og Myndlistaskólinn í Reykjavík hafa sent nemendahópa til okkar hingað í Hakk Gallery, enda er það órjúfanlegur þáttur í því að vaxa og læra sem listamaður, að fara reglulega á einhverja staði og sjá hvað er í vinnslu.“

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir