Fáséður fróðleikur úr mikilli fjarlægð

Margur fylgdist með því, eins og spennumynd væri á skerminum, þegar geimfarar voru sóttir í „geimstöð“.

Þótt slíkir atburðir séu ekki sama nýnæmi og áður var, þá var sitthvað sem gerði þetta atvik einstakt í sinni röð.

Sagan var þessi. Tveir bandarískir geimfarar, karl og kona, sem sótt voru og urðu samferða tveimur öðrum til jarðar, höfðu dvalið í geimnum í tæpt ár. En það sem gerði þetta mál einkennilegt var það að á því hafði verið byggt að þessir tveir geimfarar yrðu aðeins tvær vikur í geimstöðinni og sinntu sínum verkefnum.

En hvernig í ósköpunum stóð á því að tveggja vikna dvöl breyttist úr þeim skamma tíma yfir í tæpt ár?

Meginástæðan fyrir því að áætlun hélst svo illa var að flaugar fyrirtækisins, sem samið hafði verið við um að sækja geimfarana (flaugar frá Boeing), voru fjarri því að vera tilbúnar í þetta vandmeðfarna verkefni þegar til átti að taka. Var heimförinni því seinkað hvað eftir annað og því borið við, hvað eftir annað, að flaugarnar, sem samið hafði verið um, væru alls ekki tiltækar þótt heimför geimfaranna hefði verið marglofað.

Þá bauðst Elon Musk, sem réð fyrir slíkum tólum, að láta sækja þessa geimfara sem sviknir höfðu verið svo lengi um heimför til jarðar. Þáverandi forseti Bandaríkjanna, Joe Biden, hafnaði boðinu, og voru uppi fullyrðingar og getgátur um að umsvif þessa snillings þættu of mikil, þótt fáir efuðust um að hann myndi vera færari en flestir til að standa við verkefnið. En þótt Biden forseti gæfi ekki fullkomnar skýringar, þá töldu margir að það sem stæði helst í honum væri að Elon Musk var sagður öflugur stuðningsmaður Donalds Trumps, helsta keppinautar Bidens, en hafði fjórum árum fyrr stutt Biden. Enda kom á daginn að Musk varð ólaunaður víkingur í herbúðum Trumps og dugði honum vel. En þótt nefnt væri að Musk sinnti verkefnum sínum af ákafa og launalaust var því ótt og títt haldið í fréttum, og er reyndar enn, að óþarft væri að „vorkenna“ Musk fyrir launaleysið, því að þar færi „ríkasti maður landsins“.

En lánleysi Bidens var mikið síðasta árið sem forseti því að sá aðili, sem hann hafði látið semja við, var ítrekað fjarri því að standa við sín plön um að sækja geimfarana úr geimnum.

Þegar Trump hafði unnið frægan sigur lét hann hins vegar fela Elon Musk að bjarga geimförunum til jarðar á ný. Það gerði fyrirtæki Musks með glæsibrag sl. þriðjudag og sagt var í lýsingu frá því hvernig það mál þróaðist, og að það hefði verið gert af slíku öryggi að einungis hefði skakkað einni mínútu á planinu og veruleikanum, sem sótti geimfarana í geimstöðina og flutti þá heim.

En það sem mest var talað um í fréttalýsingum, og kom sjálfsagt áhugasömum áhorfendum á óvart, var að geimfararnir, sem áttu að vera tvær vikur í geimnum en urðu 10 mánuði, gátu fundið rækilega fyrir því.

Fylgdu af því fréttir, sem komu sjálfsagt mörgum áhorfendum heima fyrir töluvert á óvart. Því að bent var rækilega á að svo löng vera í geimnum gæti haft margvísleg neikvæð áhrif á heilsu geimfaranna.

Þar réði mestu „þyngdarleysið“. Þannig að áhorfendur skyldu ekki láta koma sér á óvart hvaða lið tæki á móti geimförunum þegar þeir væru færðir úr geimfarinu og yfir í björgunarskipið sem hífði það og setti á þilfar sitt.

Í móttökunni voru það einkum læknar og aðstoðarmenn þeirra sem tóku á móti geimförunum. Bent var á að geimfarar, sem væru svo lengi í þyngdarleysi, yrðu að fara að með mikilli gát. Slík dvöl gat haft mikil áhrif á bein þeirra og styrk, sjónina og allmörg fleiri atriði, sem komu á óvart.

Þess vegna höfðu iðulega borist myndir úr geimnum, sem sýndu geimfarana við æfingar, og meðal slíkra var að þeir voru látnir hlaupa á bretti a.m.k. tvo tíma á dag og voru þeir þá bundnir niður svo að þyngdarleysið og hlaupin kæmu þeim ekki í koll og gerðu þeim skaða, sem annars var veruleg hætta á, og þannig mætti áfram telja.