Smárinn KR-ingurinn Þórir Guðmundur Þorbjarnarson reynir að stöðva Stjörnumanninn Orra Gunnarsson í bikarslagnum í gær.
Smárinn KR-ingurinn Þórir Guðmundur Þorbjarnarson reynir að stöðva Stjörnumanninn Orra Gunnarsson í bikarslagnum í gær. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
KR, sigursælasta félagið í sögu bikarkeppni karla í körfuknattleik, er komið í úrslitaleik keppninnar í fyrsta skipti í sjö ár eftir sigur á Stjörnunni í undanúrslitum í Smáranum í Kópavogi í gær, 94:91

Bikarinn

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

KR, sigursælasta félagið í sögu bikarkeppni karla í körfuknattleik, er komið í úrslitaleik keppninnar í fyrsta skipti í sjö ár eftir sigur á Stjörnunni í undanúrslitum í Smáranum í Kópavogi í gær, 94:91.

KR hefur orðið bikarmeistari tólf sinnum, frá og með sigrinum í fyrstu bikarkeppninni árið 1970, og samtals leikið til úrslita í 21 skipti. KR-ingar unnu bikarinn síðast árið 2017 og töpuðu síðan úrslitaleik gegn Tindastóli ári síðar.

Leikurinn var hnífjafn frá byrjun, Stjarnan komst snemma sjö stigum yfir en KR jafnaði og náði forystunni seint í fyrri hálfleik. Stjarnan átti lokaorðið og var yfir í hálfleik, 53:52.

Jafnræðið hélt áfram og KR var yfir eftir þriðja leikhluta, 73:72. Spennan hélst áfram fram á lokasekúndurnar þegar KR komst í 94:91 og Stjarnan tók leikhlé þegar 3,6 sekúndur voru eftir en náði ekki nógu góðu skoti í lokin.

Þorvaldur Orri Árnason skoraði 22 stig fyrir KR, Nimrod Hillard 19 og Linards Jaunzems 16.

Jase Febres skoraði 26 stig fyrir Stjörnuna og tók 13 fráköst. Ægir Þór Steinarsson skoraði 18 stig og átti 10 stoðsendingar og Hilmar Smári Henningsson skoraði 17.

Keflavík eða Valur

Seinni undanúrslitaleikurinn á milli Keflavíkur og Vals hófst klukkan 20 í Smáranum í gærkvöld en þá var Morgunblaðið farið í prentun. Allt um leikinn má finna á körfuboltavef mbl.is, mbl.is/sport/korfubolti.

Úrslitaleikur karla í bikarkeppninni fer fram klukkan 16.30 á laugardaginn í Smáranum en á undan, eða klukkan 13.30, mætast Njarðvík og Grindavík í bikarúrslitaleik kvenna.

Höf.: Víðir Sigurðsson