[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eitt helsta umræðuefni heimsmálanna þessi dægrin eru sú hugmynd Donalds J. Trumps Bandaríkjaforseta að Kanada verði 51. ríki Bandaríkjanna. Hefur hann ekki látið þar við sitja heldur einnig talað fyrir því að Grænland tilheyri Bandaríkjunum

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Eitt helsta umræðuefni heimsmálanna þessi dægrin eru sú hugmynd Donalds J. Trumps Bandaríkjaforseta að Kanada verði 51. ríki Bandaríkjanna. Hefur hann ekki látið þar við sitja heldur einnig talað fyrir því að Grænland tilheyri Bandaríkjunum.

Trump hefur sagt þetta svo oft og við svo mörg tilefni að ástæða er til að taka þetta til skoðunar. Enn fremur hefur utanríkisráðherra hans, Marco Rubio, höggvið í sama knérunn. Ekki þarf að hafa mörg orð um að þessi áform hafa mætt gríðarlegri andstöðu en mikið hefur verið fjallað um þá hlið málsins.

Alls 19,5 milljónir ferkílómetra

Með þetta í huga er hér sýnt hvernig sameinað land Bandaríkjanna og Kanada liti út á heimskortinu. Sameinuð yrðu löndin tvö um 19,5 milljónir ferkílómetra, eða stærri en Rússland sem er nú stærsta land heims. Með Grænlandi yrðu Bandaríkin og Kanada tæplega 22 milljónir ferkílómetra en Grænland er sem kunnugt er stærsta eyja heims og til dæmis 21 sinni stærra að flatarmáli en Ísland.

Kanada er fámennt land ef tekið er mið af stærð þess. Bandaríkin og Kanada yrðu samtals með um 375 milljónir íbúa eða með um 100 milljónum fleiri íbúa en Indónesía, sem er nú fjórða fjölmennasta ríki heims. Sameiningin við Kanada breytir því ekki stöðu Bandaríkjanna sem þriðja fjölmennasta ríkis heims, langt á eftir Kína og Indlandi sem hafa alls um 2,9 milljarða íbúa.

Myndi tryggja forystusætið

Þyngra vegur fyrir Bandaríkin að með því að sameinast Kanada myndu þau styrkja stöðu sína sem stærsta hagkerfi heims. Kínverska hagkerfið er nú það stærsta í heimi út frá jafnvirðisgildi (PPP) og því er spáð að það verði innan fárra ára stærsta hagkerfi heims á almennan mælikvarða. Það yrði mikið sálrænt áfall fyrir Bandaríkjamenn, sem hafa verið mesta efnahagsveldi heims síðan veldissól breska heimsveldisins hneig til viðar.

Hagkerfið á Grænlandi er svo smátt að það hefur hverfandi áhrif á þennan samanburð. Hins vegar er þar að finna svo verðmætar auðlindir í jörðu að vinnsla þeirra gæti haft margveldisáhrif í hagkerfi Bandaríkjanna.

Næsta nágrenni við Ísland

Trump og Rubio virðast ekki hafa talað fyrir því að Grænland verði 52. ríki Bandaríkjanna heldur fremur einhvers konar yfirráðasvæði Bandaríkjanna.

Með því yrði Ísland í næsta nágrenni við þennan risa. Það gæti haft margvíslegar afleiðingar í för með sér. Til dæmis þá að bandaríkjadalur verði notaður í næsta nágrenni við Ísland, ef svo fer að Grænlendingar taki upp dollarann í stað dönsku krónunnar.

Rök Trumps fyrir sameiningu Bandaríkjanna og Kanada virðast einkum þau að manngerð lína skilji ríkin tvö sem tilheyri sama landsvæðinu. Því sé sú aðgreining í raun óþörf og eðlilegra að sameina ríkin.

Hvað varðar Grænland hefur Trump einkum vísað til varnarmála. Með því að taka yfir Grænland verði auðveldara fyrir Bandaríkin að tryggja eigin varnir og bandamanna sinna.

Vilja Rússa og Kína burt

Má í því efni rifja upp grein í síðasta laugardagsblaði Morgunblaðsins þar sem fjallað var um sjónarmið Cörlu Sands, sendiherra Bandaríkjanna í Danmörku 2017-2021, í Grænlandsmálinu. Nánar tiltekið það sjónarmið hennar að Bandaríkjastjórn vilji fæla Kínverja og Rússa frá Grænlandi.

Sands hélt á sínum tíma fyrirlestur um þessi mál hjá Hudson China Center og vakti þá athygli á því hvernig heimskortið lítur út ef norðurpóllinn er hafður í miðjunni. Sýndi hún síðan hversu lítinn viðbúnað Bandaríkjaher hefur á svæðinu í samanburði við Rússa. Þá benti hún á að Rússar hefðu miklu fleiri ísbrjóta en Bandaríkin.

Með því að sameinast Kanada og taka yfir Grænland myndi varnarlína Bandaríkjanna færast nær Rússlandi. Sömuleiðis yrðu Bandaríkin mun nær Íslandi eins og sést svo vel á grafinu hér fyrir ofan.

Bandaríkin voru stækkuð í áföngum

Er Polk fyrirmynd Trumps?

Bandaríkin stækkuðu í áföngum. Meðal annars keypti Thomas Jefferson forseti mikið landflæmi af Frökkum sem nú myndar stóran hluta af miðhluta Bandaríkjanna. Nokkrum áratugum síðar stækkaði James K. Polk forseti landið alla leið að Kyrrahafi. Á þetta sinn þátt í því að Polk hefur verið talinn í hópi merkari Bandaríkjaforseta.

Sú söguskoðun birtist meðal annars í nýlegri bók um forseta Bandaríkjanna, Confronting the Presidents eftir Bill O'Reilly og Martin Dugard. O'Reilly hefur mikið unnið með Trump og skrifaði meðal annars bók um forsetann. Þá efndu þeir í sameiningu til fjölsóttra fyrirlestra árið 2021 um fyrra kjörtímabil Trumps. Því má spyrja sig hvort Trump hafi lesið Confronting the Presidents og sjái sig nú í hlutverki Polks sem forseta sem stækkar Bandaríkin enn meira.

Polk er ekki meðal þekktustu forseta Bandaríkjanna og andlit hans er ekki á Rushmore-fjalli. En hann hafði mikil áhrif á sögu landsins.

Höf.: Baldur Arnarson