Mannvirkin Einföld líkanmynd úr matsáætlun framkvæmdaraðila sem sýnir mögulegan stað fyrir bryggju, viðlegukant og brimvarnargarð.
Mannvirkin Einföld líkanmynd úr matsáætlun framkvæmdaraðila sem sýnir mögulegan stað fyrir bryggju, viðlegukant og brimvarnargarð. — Teikning/Efla og EP Power Minerals Iceland ehf.
Fyrirtækið EP Power Mineral Iceland ehf. hyggst gera tveggja kílómetra langa bryggju við Alviðruhamra á austanverðum Mýrdalssandi vegna útflutnings á vikri úr námum við Hafursey. Jafnframt er fyrirhugað að utan við bryggjuna, sem á að ná út á 20…

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Fyrirtækið EP Power Mineral Iceland ehf. hyggst gera tveggja kílómetra langa bryggju við Alviðruhamra á austanverðum Mýrdalssandi vegna útflutnings á vikri úr námum við Hafursey. Jafnframt er fyrirhugað að utan við bryggjuna, sem á að ná út á 20 metra dýpi, verði gerður um eins km langur brimvarnargarður, sem verði á 16 til 20 metra dýpi til að skýla fyrir öldugangi en svæðið er fyrir opnu hafi. Þarf um þrjár milljónir rúmmetra af efni í gerð hans.

Fyrirtækið hefur lagt fram matsáætlun með verklýsingu til kynningar vegna umhverfismats, sem unnin er af Eflu. EP Power Minerals hefur haft í undirbúningi efnistöku vikurs á Háöldu austan Hafurseyjar til útflutnings en nota á efnið til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda við sementsframleiðslu á meginlandi Evrópu. Upphaflega stóð til að flytja efnið eftir þjóðvegum á Suðurlandi til Þorlákshafnar en vegna mikillar gagnrýni var horfið frá því. Kannaðir voru aðrir möguleikar á svæðinu og sýna rannsóknir að raunhæfur möguleiki sé á að byggja upp og reka viðlegukant við Alviðruhamra nær efnistökusvæðinu. Bent er á að með styttri flutningsleið og sérhannaðri bryggju verði hægt að auka vinnslugetuna umtalsvert og flytja út allt að fimm milljónir tonna árlega, jafnvel meira.

Svæðið sem um ræðir er um tólf km vestan við ósa Kúðafljóts og suðvestan við Álftaver. Gert er ráð fyrir langri og mjórri rörabryggju sem nái um tvo km út í sjó og um 200 metra langri viðlegu við enda hennar. Með þessu á að nást gott dýpi fyrir stór flutningaskip, þar sem viðlegan er komin út fyrir svæði sandburðar.

Flytja þarf efnið úr námunni á Háöldu allt að 18 km langa leið yfir sandinn og eru tveir kostir taldir koma til greina, annars vegar að flytja efnið með vörubílum eða hins vegar með færibandi. Efnisflutningarnir eiga ekki að fara um neina þjóðvegi og er gert ráð fyrir að gerð verði undirgöng undir þjóðveg eitt. Gæti magnið sem flutt er daglega verið á bilinu 13 til 20 þúsund tonn.

Verði fyrir valinu að flytja efnið með bílum kemur til greina að nota yfir 50 metra langar svokallaðar vagnlestir sem geta borið um 450 tonn í einni ferð eða nota 10-12 sérstaka námavörubíla. Verði vagnlestir fyrir valinu gætu 3-4 vagnlestir séð um flutningana frá morgni til kvölds. Einnig er til skoðunar að nota færiband, sem væri um tveir metrar á hæð og meðfram því fimm metra breiður þjónustuvegur. Færibandið yrði lokað til að varna því að efni fyki burt.

Reisa þarf geymslusvæði við Alviðruhamra 2-4 km frá ströndinni á um 40 hektara svæði. Bryggjan sjálf mun ná um tvo km út frá ströndinni, reist á stálrörum sem verða rekin niður í sandinn. Bryggjan verður tólf metra breið og hæð hennar um 4,1 metri yfir sjávarmáli á háflóði og 6,4 metrar á lágflóði.

„Krani mun sjá um að flytja efnið um borð í skipin. Á viðlegukantinum á enda bryggjunnar verður hægt að taka á móti allt að 220 m löngu og 50.000 tonna skipi. Aðstaða verður fyrir dráttarbáta við bryggjuna. M.v. 5 milljóna tonna árlegan útflutning verður tekið á móti 2-3 skipum í viku,“ segir í matsáætluninni.

Brimvarnargarðurinn sem skýla á bryggjunni og viðlegukantinum gæti náð upp í allt að 20 metra hæð yfir sjávarmáli. Hann verður að mestu gerður úr grjóti sem fæst úr námum á landi. Töluvert þarf af mjög stóru grjóti sem að mun líklegast koma frá Noregi. Um hálf milljón rúmmetra verður steyptir einingakubbar. Áætlað er að framkvæmdir taki um þrjú ár.

Höf.: Ómar Friðriksson