Efi Sá hún eftir því að hafa verið holl Hitler?
Efi Sá hún eftir því að hafa verið holl Hitler?
Að þvinga eigin áhugamálum upp á börn er góð skemmtun eins og foreldrar kannast eflaust við. Dætur undirritaðrar, tíu og fimmtán ára, hafa þurft að þola ýmislegt á sinni stuttu ævi. Sú eldri var t.d

María Margrét Jóhannsdóttir

Að þvinga eigin áhugamálum upp á börn er góð skemmtun eins og foreldrar kannast eflaust við. Dætur undirritaðrar, tíu og fimmtán ára, hafa þurft að þola ýmislegt á sinni stuttu ævi. Sú eldri var t.d. lengi að fyrirgefa móður sinni þegar hún var dregin með á Fight Club í Bíó Paradís enda mynd sem getur setið eftir í óhörðnuðum sálum. Þá hefur þeim verið gert að sitja undir hinni þriggja tíma löngu Schindler's List en fullyrða má að þær muni búa lengi að þeirri upplifun enda sjaldan mikilvægara en nú að rifja upp fortíðina til þess að skilja samtímann. Á dögunum voru þær svo dregnar í bíó á enn aðra „mömmu-mynd“ – Riefenstahl eftir Andres Veiel sem sýnd var á Þýsku kvikmyndahátíðinni. Margir hafa átt erfitt með að staðsetja Riefenstahl, var hún skrímsli í liði nasista eða bara listamaður að taka að sér verkefni? Í heimildarmyndinni fáum við að sjá áður óséð myndbrot sem setja hlutina í meira samhengi. Riefenstahl var líka mikið í mun að stýra því hvernig hennar yrði minnst og hélt uppi miklum vörnum. Eftir áhorf voru dæturnar ráðvilltar, var hún góð eða slæm? En það er kannski einmitt það sem maður vill að góð heimildarmynd skilji eftir sig – fleiri spurningar.

Höf.: María Margrét Jóhannsdóttir