Fyrirmynd Sally Mann, „Ponder Heart“ (2009), „Amor Revealed“ (2007), „David“ (2005) og „Was Ever Love“ (2009), allt silfurprent á pappír.
Fyrirmynd Sally Mann, „Ponder Heart“ (2009), „Amor Revealed“ (2007), „David“ (2005) og „Was Ever Love“ (2009), allt silfurprent á pappír. — Ljósmyndir/Hlynur Helgason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Listasafn Íslands Nánd hversdagsins ★★★★½ Sýning á verkum Agnieszku Sosnowsku, Joakims Eskildsen, Nialls McDiarmid, Orra Jónssonar og Sallyar Mann. Sýningarstjóri er Pari Stave. Sýningin, sem er opin alla daga kl. 10-17, stendur til 4. maí 2025.

Myndlist

Hlynur

Helgason

Í Listasafni Íslands stendur nú yfir sýning sem lætur lítið yfir sér. Þetta er sýning á verkum fimm samtímaljósmyndara í vestursal safnsins á efstu hæð. Ljósmyndararnir koma víða að, Sally Mann er bandarísk, Joakim Eskildsen danskur, Niall McDarmid skoskur, Agnieszka Sosnowska Pólverji sem býr á Íslandi og Orri Jónsson er íslenskur. Það sem sameinar þau öll er hófstillt afstaða til ljósmyndunar, þar sem í reynd er horfið frá amstri og hraða sítengds samtíma og í staðinn litið inn á við, til fjölskyldunnar, til þess sem stendur fólki næst.

Þetta er afstaða sem má rekja til listar í Hollandi undir lok sautjándu aldar, þegar listamenn á borð við Johannes Vermeer fóru að draga fram fegurðina sem felst í einföldu hversdagslegu lífi. Ljósmyndarar og myndlistarmenn samtímans hafa í auknum mæli einbeitt sér að svipuðu myndefni, eins og þessi sýning ber með sér.

Sally Mann er þekktust þeirra sem eiga verk á sýningunni. Hún er fædd 1951, um tuttugu árum eldri en hin fjögur og óneitanlega fyrirmynd þeirra. Mann vakti fyrst athygli fyrir verk sem sýndu fjölskyldu hennar og vini í dreifbýli í Virginíufylki í Bandaríkjunum þar þau nutu þess frelsis að búa í nábýli við náttúruna. Myndefnið nú er nærgöngular myndir af líkama eiginmanns hennar sem átti við hrörnunarsjúkdóm að stríða; hún skoðar líkama sem er að eldast og hrörna og finnur fegurðina í erfiðum aðstæðum. Myndirnar eru teknar á glerfilmu með hefðbundinni aðferð nítjándu aldar þar sem efni filmunnar mótar áferð myndanna og eykur tilfinninguna fyrir nánd.

Joakim Eskildsen á að baki farsælan feril sem heimildaljósmyndari þar sem hann hefur sýnt aðstæður jaðarsetts fólks víða um heim. Undanfarin ár hefur hann snúið heim og skoðað fjölskyldu sína og börn. Í myndunum nú leggur hann sérstaka áherslu á börn sín við leik og störf. Þessir látlausu atburðir birtast í verkum hans í eins konar töfraraunsæi þar sem litir, birta og áferð búa til ævintýraheim úr umhverfi barnanna.

Niall McDiarmid á að baki langan feril sem fagljósmyndari sem vann verkefni fyrir tímarit og blöð. Hér snýr hann heim og skoðar fjölskyldu sína og börn. Myndaröðin er tekin heima við með sérstakri áherslu á samverustund fjölskyldunnar við morgunverðarborðið. Í myndunum skoðar hann börn sín og fjölskyldu í daglegu umhverfi þeirra. Hér birtast börnin sem endurteknar persónur í eigin lífi, í bland við fagurlega uppbyggðar kyrralífsmyndir teknar í eldhúsinu.

Agnieszka Sosnowska er fædd í Póllandi, menntuð í Bandaríkjunum en hefur undanfarin tuttugu ár búið á sveitabæ á Austurlandi. Þar hefur hún byggt upp sterkan stíl mynda þar sem nánasta umhverfi hennar er umfjöllunarefnið. Í þeim myndum sem hún sýnir núna er myndavélinni beint að börnum hennar, þeim er fylgt í uppvextinum og þau sýnd í nánd af virðingu. Agnieszka birtir okkur fegurðina sem býr í umhverfi fjölskyldunnar, þótt það sé fjarri heimsins glaumi.

Orri Jónsson hefur á ferli sínum yfirleitt einbeitt sér að því einfalda í umhverfinu. Verk hans eru oftast nær byggð á náinni formrænni skoðun á viðfangsefnunum, sem oft eru fjarri alfaraleið. Myndir hans eru afrakstur langtímaverkefnis þar sem hann hefur í áratugi tekið myndir af eiginkonu sinni. Hún er myndefni allra myndanna á sýningunni þar sem hún birtist í fjölbreyttum gervum í formsterkum myndum. Hér sjáum við ást heillar ævi í sviphendingu.

Sýningin í heild er sterk og gott samræmi á milli verkanna. Val verka sýnir vel styrkleika hvers listamanns fyrir sig. Uppsetningin er einföld og skýr þannig að öll verk njóta sín vel. Tengingin á milli verka ólíkra listamanna er skýr; við fáum góða innsýn í þá miklu möguleika sem nánasta umhverfi þessara fimm listamanna gefur. Þeir eiga það allir sameiginlegt að snúa baki við ys og þys samtímans með öllu sínu áreiti og hraða. Í staðinn er myndavélinni beint inn á við, í fjölskylduna og umhverfið heima við. Það er úr þessum efnivið sem allir þessir listamenn ná að skapa ríkulegan og töfrandi myndheim.