[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslenska karlalandsliðið í fótbolta mætir Kósóvó í fyrri leik liðanna í umspili um sæti í B-deild Þjóðadeildarinnar á Fadil Vokrri-vellinum í höfuðborginni Pristínu klukkan 19.45 í kvöld. Leikurinn er sá fyrsti hjá landsliðinu undir stjórn Arnars…

Í Pristínu

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta mætir Kósóvó í fyrri leik liðanna í umspili um sæti í B-deild Þjóðadeildarinnar á Fadil Vokrri-vellinum í höfuðborginni Pristínu klukkan 19.45 í kvöld.

Leikurinn er sá fyrsti hjá landsliðinu undir stjórn Arnars Gunnlaugssonar, sem tók við liðinu af Åge Hareide í byrjun árs. Seinni leikurinn er í Murcia á sunnudag, sem er heimaleikur Íslands í einvíginu, þar sem ekki er hægt að leika á Íslandi sökum vallarmála.

Einvígið skiptir afar miklu máli því þjóðin sem leikur í B-deild Þjóðadeildarinnar á töluvert meiri möguleika á að komast á EM 2028, því leiðin er greiðari í umspil hjá liðum í B-deildinni.

Einum leik frá stórmótum

Ísland hefur í tvígang leikið hreinan úrslitaleik um sæti á lokamóti EM, árin 2020 og 2024, vegna stöðu liðsins í Þjóðadeildinni og er því mikið undir.

Ísland hafnaði í þriðja sæti síns riðils í B-deildinni og Kósóvó í 2. sæti í sínum riðli í C-deild. Ísland freistar þess því að halda sæti sínu í deildinni á meðan Kósóvó ætlar sér upp um deild.

„Þetta verða hörkuleikir og það getur allt gerst. Við viljum vinna þessa leiki. Það er mikilvægt að halda okkur í B-deildinni og fá betri leiki á móti sterkari liðum og að eiga meiri möguleika á að fara á EM,“ sagði sóknarmaðurinn Mikael Egill Ellertsson við Morgunblaðið.

Arnar hefur náð gríðarlega góðum árangri með karlalið Víkings úr Reykjavík undanfarin ár og fékk hann verðskuldað boð um að taka við landsliðinu, boð sem hann gat ekki hafnað.

Arnar hefur stýrt þremur landsliðsæfingum hingað til og þær lofa góðu að mati leikmanna sem ræddu við Morgunblaðið.

Nú þarf að framkvæma

„Hann hefur komið vel inn í þetta. Við vitum allir hvað hann hefur gert heima. Það er spennandi að taka þátt í þessu,“ sagði Aron Einar Gunnarsson.

„Arnar hefur mikið talað um að við þurfum að hætta að tala um að læra af hinu og þessu. Nú þarf að gera og framkvæma hlutina. Það er undir okkur komið að stíga upp og gera það,“ bætti Aron við og hélt áfram:

„Það eru spennandi tímar fram undan. Ég er virkilega ánægður með hópinn og hvernig þessar æfingar eru búnar að vera.“

Þórir Jóhann Helgason tók í sama streng: „Það hefur verið virkilega gaman á fyrstu æfingunum. Hann er með góðar og skemmtilegar hugmyndir í fótboltanum og maður er að læra nýja hluti. Maður vill halda áfram að læra.

Mér líst mjög vel á þetta. Við erum með mjög góðan hóp og góða menn í öllum stöðum. Þetta eru tveir krefjandi leikir og það er mikið um ný atriði hjá Arnari sem við þurfum að sýna á vellinum,“ sagði Þórir.

„Mér líst mjög vel á hann. Þetta eru nýjar pælingar sem við þurfum að læra mjög hratt á. Það lítur vel út hingað til,“ sagði áðurnefndur Mikael.

Sterkasti hópurinn í eitt ár

Íslenska liðið hefur ekki verið eins vel skipað í heilt ár eða síðan það var einum leik frá því að tryggja sér sæti á EM 2024 en tapaði að lokum fyrir Úkraínu í úrslitaleik umspilsins í mars á síðasta ári.

Albert Guðmundsson er í fyrsta skipti í hópnum frá því gegn Úkraínu og Hákon Arnar Haraldsson hefur ekki spilað mótsleik fyrir landsliðið síðan.

Albert kemur sjóðheitur inn í verkefnið eftir mörk í þremur leikjum í röð með Fiorentina. Þá hefur Hákon spilað sérlega vel með Lille í Frakklandi á leiktíðinni og skorað í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar.

Það ætti að gefa Orra Steini Óskarssyni, besta markaskorara íslenska liðsins, vítamínsprautu að vera orðinn landsliðsfyrirliði, þrátt fyrir að vera aðeins tvítugur.

Miðjumenn að spila vel

Þá hafa miðjumennirnir Willum Þór Willumsson, Ísak Bergmann Jóhannesson, Þórir Jóhann Helgason, Arnór Ingvi Traustason, Kristian Nökkvi Hlynsson og Stefán Teitur Þórðarson allir spilað mikið og vel með félagsliðum sínum. Það er jákvæður höfuðverkur fyrir nýjan landsliðsþjálfara að velja miðju fyrir leikina mikilvægu.

Eins og oft áður er vörn Íslands hins vegar spurningarmerki. Sverrir Ingi Ingason er besti varnarmaður Íslands í dag og verður forvitnilegt að sjá hverjir eiga að verja teig íslenska liðsins með miðverðinum sterka.

Oft gekk illa hjá íslenska liðinu að spila tvo góða leiki í röð undir stjórn Hareides en tveir úrslitaleikir við Kósóvó eru gott tækifæri til að breyta því.

Þrátt fyrir að lið Kósóvó sé fínt ætti íslenska liðið að vera sterkara, jafnvel þegar liðið þarf að spila heimaleikinn sinn á Spáni. Bestu leikmenn Íslands eru sterkari en bestu leikmenn andstæðinganna. Arnar fær gott tækifæri til að byrja vel í nýju starfi.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson