Már Guðmundsson málarameistari fæddist í Vestmannaeyjum 19. ágúst 1939. Hann hann lést á Hlévangi Reykjanesbæ 5. mars 2025.

Foreldrar hans voru Guðmundur Guðmundsson málarameistari, f. 18.5. 1905 á Leirum undir Eyjafjöllum, d. 14.9. 1981, og Sigrún Guðmundsdóttir verkakona, f. 23.1. 1915, frá Litla-Skarði í Stafholtstungum í Borgarfirði, d. 18.8. 2008.

Alsystkini Más: Fanney, f. 22.5. 1934; stúlka, f. 9.7. 1935, d. 18.8. 1935;

Hrefna Guðrún, f. 11.11. 1936, d. 2.5. 2010; Unnur, f. 10.7. 1938, d. 25.4. 1997.

Hálfsystkini: Ólöf Díana Guðmundsdóttir, f. 6.6. 1946; Jón Einar Guðmundsson, f. 18.4. 1950; Viðar Guðmundsson, f. 24.6. 1957; Sæunn Helena Guðmundsdóttir, f. 19.11. 1960; Gylfi Þórðarson, f. 4.10. 1943, d. 5.10. 2023; Dagný Þórðardóttir, f. 10.3. 1945, d. 12.3. 1982; stúlka Þórðardóttir, f. 10.10. 1950, d. 11.10. 1950; Rúnar Þórðarson, f. 17.12. 1951.

Eiginkona Más var Jóhanna Kristjánsdóttir frá Þórshöfn á Langanesi, f. 5.9. 1940, d. 14.10. 2007. Börn þeirra eru: 1) Kristján Ottó, sjómaður og verkamaður, f. 30.3. 1961, d. 14.10. 1988. 2) Dagný, f. 21.4. 1965. 3) Svanhvít, f. 4.8. 1966. 4) Guðmundur Egill, f. 24.5. 1973.

Útförin fer fram frá Grindavíkurkirkju í dag, 20. mars 2025, klukkan 13.

Til elsku pabba.

Nú ert þú kominn í faðm ættingja í sumarlandinu. Margar minningar sem hægt er að minnast. Fjölskylduferðalögin með tjald og síðar allar stundirnar í sumarbústaðnum sem þið byggðuð ykkur í Borgarfirði. Þar komum við oft með fjölskyldurnar okkar og áttum gæðastundir með ykkur.

Harmonikkuspil og stöku kvöldstund þar sem þú spilaðir á rafmagnsorgelið í stofunni. Munnharpan stundum tekin fram og spilað. Ekki vantaði stríðni og húmor, alltaf stutt i hlátur sama hvað gekk á. Spaugilega hliðin var oftast sú sem var dregin upp og hlutir leystir.

Margar stundir þar sem þú lagðir kapal og flautaðir með, leystir krossgátur sem öll barnabörnin muna eftir og minnast reglulega á.

Mikið sem þú hafðir gaman af að fá alla í heimsókn, dekraðir við okkur. Af þér lærðum við systkinin að lífið er ekki alltaf auðvelt en við ráðum hvernig mótlæti er mætt, með léttan húmor að vopni er flestallt fært.

Pabbi, takk fyrir allt og allan þann tíma sem við áttum með þér. Hvíl í friði elsku pabbi.

Dagný, Svanhvít og Guðmundur Egill.

Elsku hjartans tengdapabbi minn.

Núna ertu kominn á stað þar sem þú finnur ekki til og nýtt verkefni tekur við hjá þér. Þú ert ábyggilega að halda harmonikkutónleika fyrir alla uppi, núna ertu í faðmi Kristjáns sonar þíns og Jóhönnu þinnar í eilífðinni.

Ég trúi því ekki að þú sért farinn frá okkur og ég á eftir að sakna þín óendanlega mikið. Ég ber allar mínar minningar í hjarta mínu og þar verður þú alla mína ævi. Ég sit hérna og hugsa um ferðalögin okkar og allar fjölskyldustundirnar okkar saman.

Þú varst yndislegur tengdapabbi og það var alltaf stutt í húmorinn. Mér er minnisstætt þegar stelpurnar spurðu afa sinn hvað væri í matinn. Þá svaraðir þú: „Eitthvert rusl.“

Þú varst alltaf svo myndarlegur að baka vöfflur fyrir alla, ég dáðist að þér, þér fannst æðislegt þegar allir voru í kotinu, þá vantaði ekki að allir hittust og nutu fjölskyldustundar saman. Það var gaman að fylgjast með þér mála og þegar þú komst í Berjarimann og málaðir herbergin hjá stelpunum, þá voru þær svo sáttar.

Þín verður sárt saknað.

Hvíldu í friði og minningin um þig lifir alla ævi.

Kristín Sesselja Richardsdóttir.