— Morgunblaðið/Árni Sæberg
Rafmagnstruflanir urðu víða um land í fyrrakvöld þegar eldur kviknaði í rafmagnsinntaki í aðveitustöð álvers Norðuráls á Grundartanga. Fljótt gekk að slökkva eldinn, en eldsupptök voru ókunn um miðjan dag í gær og var þá Norðurálslína 1 enn úti og voru skemmdir á henni til skoðunar

Rafmagnstruflanir urðu víða um land í fyrrakvöld þegar eldur kviknaði í rafmagnsinntaki í aðveitustöð álvers Norðuráls á Grundartanga. Fljótt gekk að slökkva eldinn, en eldsupptök voru ókunn um miðjan dag í gær og var þá Norðurálslína 1 enn úti og voru skemmdir á henni til skoðunar. Ekki varð tjón á kerum álversins og hófst álframleiðsla á ný í verinu eftir að rafmagni var komið aftur á.

Eldurinn sem upp kom í álverinu reyndist lítill og greiðlega gekk að slökkva hann þegar til kom.

Við atburðinn kom 600 megavatta högg á flutningskerfi Landsnets sem olli rafmagnstruflunum á höfuðborgarsvæðinu og rafmagnsleysi úti um land, þ.m.t. á Vestfjörðum og Austfjörðum. Komst rafmagn aftur á síðar um kvöldið.

Steinunn Þorsteinsdóttir upplýsingafulltrúi Landsnets segir að varnir raforkuflutningskerfisins hafi haldið að mestu, utan þess að spennir Rarik á Teigarhorni á Austurlandi hafi leyst út sem og Mjólkárlína 1 á Vestfjörðum, en þeir atburðir ollu rafmagnsleysinu í þeim landshlutum. Hins vegar fóru varaaflsvélar í Bolungarvík í gang og því varð rafmagnsleysi á norðanverðum Vestfjörðum skammvinnt.