Landsliðið
Víðir Sigurðsson
vs@mbl.is
Talsverð hætta er á að kvennalandslið Íslands í knattspyrnu verði án fyrirliðans Glódísar Perlu Viggósdóttur í leikjunum gegn Noregi og Sviss í Þjóðadeildinni en þeir fara fram á Þróttarvellinum 4. og 8. apríl.
Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari skýrði frá því á fréttamannafundi KSÍ í gær að Glódís væri með beinmar í hné en hún hefur fyrir vikið misst af tveimur leikjum með Bayern München að undanförnu.
Hann sagði að líkurnar á að Glódís yrði með í landsleikjunum væru um það bil fimmtíu prósent.
Það yrðu mikil viðbrigði fyrir liðið að leika án fyrirliðans. Glódís hefur frá 21. júlí 2013, þegar hún lék með Íslandi gegn Svíþjóð í átta liða úrslitum Evrópumótsins, aðeins misst af einum mótsleik íslenska landsliðsins. Þá var hún hvíld á varamannabekknum í léttum sigurleik gegn Kýpur árið 2021.
Glódís hefur misst af þremur leikjum Bayern í vetur, tveimur þeim síðustu vegna meiðslanna og einum fyrr í vetur vegna leikbanns, en fram að því hafði hún aðeins misst úr einn leik á síðustu átta árum með liðum sínum í atvinnumennsku í Þýskalandi og Svíþjóð.
Hildur og Amanda tilbúnar
Glódís er samt í leikmannahópnum sem Þorsteinn tilkynnti í gær en hann gerði tvær breytingar frá leikjunum í Sviss og Frakklandi í febrúar.
Hildur Antonsdóttir og Amanda Andradóttir misstu af þeim vegna meiðsla en koma nú inn á nýjan leik í staðinn fyrir Bryndísi Örnu Níelsdóttur og Ásdísi Karenu Halldórsdóttur.
Ísland er með eitt stig eftir fyrstu tvo leikina en liðið gerði markalaust jafntefli í Sviss og tapaði 3:2 í Frakklandi.
Frakkar unnu áður Norðmenn, 1:0, í fyrstu umferðinni og Norðmenn sigruðu Sviss, 2:1, í annarri umferð.
Riðlakeppni Þjóðadeildarinnar lýkur með tveimur umferðum í vor þegar Ísland sækir Noreg heim 30. maí og fær Frakkland í heimsókn 3. júní. Sæti í A-deild undankeppni HM 2027 er í húfi.
Landsliðshópur Íslands
MARKVERÐIR:
Cecilía Rán Rúnarsd., Inter Mílanó
Telma Ívarsdóttir, Rangers
Fanney Inga Birkisdóttir, Häcken
VARNARMENN:
Glódís Perla Viggósd., Bayern M.
Ingibjörg Sigurðardóttir, Bröndby
Guðrún Arnardóttir, Rosengård
Guðný Árnadóttir, Kristianstad
Sædís Rún Heiðarsdóttir, Vålerenga
Natasha Anasi, Val
MIÐJUMENN:
Dagný Brynjarsdóttir, West Ham
Alexandra Jóhannsd., Kristianstad
Karólína Lea Vilhjálmsd, Leverkusen
Hildur Antonsdóttir, Madrid CFF
Áslaug Munda Gunnlaugsd., Breiðab.
Berglind Rós Ágústsdóttir, Val
Hafrún Rakel Halldórsd., Bröndby
Andrea Rán Hauksd., Tampa Bay Sun
Katla Tryggvadóttir, Kristianstad
SÓKNARMENN:
Sandra María Jessen, Þór/KA
Sveindís Jane Jónsdóttir, Wolfsburg
Hlín Eiríksdóttir, Leicester
Amanda Andradóttir, Twente
Emilía Kiær Ásgeirsdóttir, Leipzig