Óskar Bergsson
oskar@mbl.is
„Þetta er vont dæmi um forræðishyggju þar sem skilaboðin eru þau að eldri ökumenn séu hættulegir nema þeir geti sýnt fram á eitthvað annað. Mér hugnast ekki að sönnunarbyrði skuli vera sett á eldri borgara að þeim sé treystandi,“ segir Ingvar Þóroddsson alþingismaður Viðreisnar. Hann vakti athygli á ströngum skyldum á eldri borgara við endurnýjun ökuskírteina í umræðum á Alþingi í vikunni.
Hann segir að svo sé hin hliðin á málinu sú hvað þetta feli í sér mikinn kostnað, að þúsundir einstaklinga þurfi að endurnýja skírteinin sín, og tekur sem dæmi störf ungra lækna á heilsugæslustöðvum.
„Ungur læknir sagði mér að þetta væri hátt í helmingurinn af því sem hann er að gera á sama tíma og langir biðlistar eru á heilsugæslustöðvunum.“
Hann telur að þetta sé upplagt tækifæri til að nýta fjármagn betur.
„Á sama tíma og verið er að tala um hagræðingu þá tel ég þetta vera dæmi sem auðveldlega væri hægt að hætta með og spara þannig kostnað og umtalsverð óþægindi fyrir eldra fólk sem sett er í þá stöðu að þurfa að sanna það fyrir samfélaginu að það sé ekki hættulegt.“
Ingvar segir að reglurnar hér á landi séu mun strangari en í samanburðarlöndunum.
„Í okkar nágrannalöndum gildir ökuskírteinið oft í 10-15 ár eftir 70 ára og læknisvottorðs er eingöngu krafist ef sérstakar ástæður gefa tilefni til þess. Hér á landi gildir ökuleyfið í fjögur ár fyrir þau sem eru 70 ára. Svo styttist það í þrjú ár fyrir 71 árs, tvö ár fyrir 72 ára og aðeins eitt ár fyrir þau sem eru 80 ára og eldri. Til að endurnýja ökuleyfið sitt þurfa eldri borgarar að sækja um slíkt hjá sýslumanni og framvísa læknisvottorði. Ætla má að þúsundir eldri borgara þurfi því að endurnýja ökuleyfi sitt á hverju einasta ári. Það eru þúsundir læknisvottorða, hundruð klukkustunda og fjármagn sem fer í íslenska forræðishyggju í garð eldri borgara.“
Spurður hvort slysatíðni í umferðinni sé há hjá eldri borgurum segist hann ekki vera með tölur frá Íslandi en niðurstöður rannsókna frá Evrópu sýni að ökumenn á aldrinum 70-75 ára séu talsvert betri ökumenn en þeir sem eru á aldrinum
20-25 ára.
Ökuréttindi aldraðra
Ætla má að þúsundir eldri borgara þurfi því að endurnýja ökuleyfi sitt á hverju einasta ári.
Hefur mikinn kostnað í för með sér.
Í nágrannalöndum gildir ökuskírteinið í 10-15 ár eftir 70 ára aldur.
Eldra fólk þarf að sanna fyrir samfélaginu að það sé ekki hættulegt.