Inga Guðmundsdóttir fæddist 13. júlí 1949 á Brjánslæk á Barðaströnd. Hún lést 8. mars 2025 á sjúkrahúsinu á Akranesi.

Foreldrar hennar voru Guðmundur Jóhann Einarsson, f. 3.4. 1893, d. 14.11. 1980, og Kristín Theódóra Guðmundsdóttir, f. 27.8. 1914, d. 6.2. 1988.

Systkini Ingu samfeðra eru: Jón Kristinn, f. 1918, d. 1991, Kristján Pétur, f. og d. 1922, Jarþrúður, f. 1925, d. 2015, Svanhildur, f. 1929, d. 1993, Einar, f. 1931, d. 2013, Guðlaug, f. 1932, d. 2017, óskrírður drengur, f. og d. 1935. Alsystkini Ingu eru: Ragnar Guðmundur, f. 1935, d. 2014, Ragnhildur Guðrún, f. 1943, d. 2014, Hrafn, f. 1946, Hildigunnur, f. 1947, Guðmundur Jóhann, f. 1951, d. 2023.

Inga giftist 8. desember 1968 Þorkeli Þórðarsyni frá Auðkúlu í Arnarfirði, f. 8.12. 1946.

Inga fæddist og ólst upp á Brjánslæk á Barðaströnd, á því fölmenna sveitaheimili sem þar var. Hún sinnti í æsku hefðbundnum heimilis- og sveitastörfum og lærði þar margvíslegt til verka. Fyrstu árin í hjónabandinu bjuggu Inga og Þorkell áfram á Brjánslæk og fluttu síðan 1972 til Þingeyrar í Dýrafirði þar sem þau voru búsett næsta aldarfjórðunginn. Þar vann Inga aðallega við fiskverkunarstörf og sem matráður í sláturhúsi staðarins. Árið 1997 fluttu þau hjónin síðan suður á Hvanneyri í Borgarfirði og voru búsetta þar síðan. Ingu þótti afskaplega vænt um fjölskyldurnar sínar og vissi fátt ánægjulegra en fá marga ættingja og vini í heimsókn.

Inga verður jarðsungin frá Reykholtskirkju í Borgarfirði í dag, 22. mars 2025, og hefst athöfnin klukkan 14. Er fram líða stundir mun Inga síðan eignast sinn samastað heima í sveitinni sinni við hlið ættingja í kirkjugarðinum á Brjánslæk á Barðaströnd.

Streymt verður frá athöfninni á mbl.is/andlat

Það hringir … svo heyrast skruðningar, smá þus en svo:

„Já?“

„Blessuð gamla geit, hvar er ég að trufla þig?“

„Blessuð unga hind, þú ert ekkert að trufla mig, ég sit bara inni í stofu og dunda mér í spjaldinu.“

Svona byrjuðu mörg símtölin hjá okkur Ingu síðustu árin og í flestum þeirra var mikið bullað um heima og geima. Ég heyrði í henni með allt og ekkert, oft þegar ég sat og beið eftir að Varði minn kláraði æfingar, og henni líkaði það vel. Stundum töluðum við um eitthvað sem fram undan var, einhverja ferð eða bíltúr eða væntanlegar heimsóknir. Nú, það þurfti stundum að ræða fjölskyldumál, slúðra um ættingja og vini og hafa skoðanir á flestu okkur óviðkomandi. Og æði oft snerist spjallið um einhvers konar matarstúss; matargerð, matarskipulagningu, matarupplifun eða matarvonbrigði, sem voru að hennar mati slæm vonbrigði að verða fyrir.

Ég átti Ingu að í mínu lífi í nákvæmlega 55 ár þar sem hún ákvað blessunin að klára sína síðustu andardrætti á okkar tilverustigi akkúrat á afmælisdaginn minn 8. mars síðastliðinn. Það var bara vel til fundið hjá frúnni þar sem heilsan var slík síðustu vikur að hún náttúrlega vissi sem var að öðruvísi gæti hún ekki kíkt til mín í afmæliskaffi. Mér hefur alltaf þótt ósköp vænt um gömlu geitina og hún var mér alltaf ósköp góð. Auðvitað náðum við stundum að pirrast hvor út í aðra en það er fullkomlega eðlilegt í öllum kærleikssamböndum, og auðvelt að hlæja að því eftir á. Þegar hann Varði minn bættist svo blessunarlega við líf mitt þá virtist sem hjartað hennar Ingu stækkaði honum til heiðurs og þeirra sambandi hefur verið yndislegt að fylgjast með. Í gegnum hans veikindi hér áður voru þau hjónakornin í Garði ómetanlegir útverðir í verkefninu stóra og alltaf boðin og búin til aðstoðar sem gerði svo margt miklu auðveldara í lífinu. Heima í Garði hjá Ingu og Kela höfum við Varði átt yndissamverustundir, sama má segja vestur á Brjánslæk, í fjölmörgum sumarbústaðarferðum hingað og þangað og ekki má nú gleyma öllum frægðarferðunum okkar erlendis. Við höfum látið fátt stoppa okkur við að hrúga inn í minningabankann ómetanlegri samveru og hellings fíflalátum sem kalla má fram í kollinn hvenær sem er, og það er góð tilfinning.

Hún Inga okkar var einfaldlega mjög góð kona með óendanlega stórt hjarta fyrir fólkið sitt, ættingja og vini. Og það væsir nú aldeilis ekki um hana á næsta tilverustigi með alla þá gullmola í kringum sig sem þangað eru farnir. Ég sé fyrir mér kurrandi kátan og stríðinn systkinahópinn, smjattandi á einhverju þjóðlegu góðgæti, hlæjandi, syngjandi og dansandi af dúandi kátínu.

Það er ekki dapurlegt til þess að hugsa að frænka sé komin í þessa stuðgrúppu þó svo við hefðum svo sannarlega alveg þegið lengri tíma með henni okkar megin.

Við þökkum af kærleik og virðingu fyrir lífsskeiðið okkar með Ingu og minnumst þess með væntumþykju og gleði. Við höldum áfram að knúsa hann Kela okkar og í hjartanu munu Inga og Keli vera órjúfanleg heild um aldur og ævi.

Kærleikskveðjur,

Sigrún Berglind og Varði.

Það hefur fjölgað um einn í Sumarlandinu í systkinahópnum frá Brjánslæk. Hún Inga föðursystir mín hefur sagt bless. Okkur langar að minnast hennar með nokkrum orðum.

Inga og Keli bjuggu á Þingeyri fyrsta aldarfjórðungi þeirra hjónabands, en á gullaldarárum Þingeyrar var þar starfandi öflugt hestamannafélag, Stormur. Þar voru haldin fjölmenn hestamót og ansi fjörug hestamannaböll ár hvert. Þegar aldri var náð fórum við að sækja þessar skemmtanir og höfðum þá afdrep hjá Ingu og Kela. Var oft töluverður fjöldi fólks í flatsængum hjá þeim þessar helgar, en samt alltaf nóg pláss. Keli keppti á hestum þeirra Ingu en hún var dómararitari. Í fersku minni eru líka hestaferðirnar á Kaldármela, þar sem keyptur var gamall tjaldvagn til íveru, þar sá Inga um matseld. Svo rifjast upp ferð á Heimsmeistaramót íslenskra hesta í Austurríki, en sú ferð endaði svo með rútuferð með Dönum frá Austurríki til Danmerkur, þar sem við dvöldum i nokkra daga hjá frænda Kela. Já, ýmislegt hefur verið brasað.

Inga vann í frystihúsinu á Þingeyri, afkastamikill starfskraftur og flink með hnífinn. Hún meira að segja kenndi okkur í Flóka hf. á sínum tíma að flaka „grali halibut“, eða grálúðu, í gegnum síma.Í sauðburði á vorin sendu Inga og Keli oft heilu bílfarmana af bakkelsi til okkar, skinkuhorn, kleinur og vínarbrauð, með súkkulaði að sjálfsögðu, þetta rann ljúflega niður í amstri dagsins. En matur og matseld var hennar ástríða og þvílíkur listakokkur sem hún Inga var, þess fengu margir að njóta.

Svo fluttu þau að Hvanneyri og hafa unað sér vel þar, hestarnir fluttu að sjálfsögðu með og Keli gerðist „ríkisféhirðir“ á fjárbúinu Hesti. Oft var kíkt við, jafnvel gist með allan barnahópinn, ekkert mál, alltaf pláss. Svo fóru barnabörnin okkar að kíkja í heimsókn og skoða í dótakassann í stofunni og fá rjómavöfflur. Setningin frá æskuárum Ingu, „það er bannað að smjatta þegar aðrir eru búnir“, mun lifa.

En Ingu minnumst við með hlýju og þökkum henni fyrir allt, en hún og Keli hafa verið stór partur af okkar lífi frá upphafi.

Nú veifum við Ingu í tunglinu og knúsum Kela.

Halldóra, Jóhann og
fjölskylda, Brjánslæk.