Lundúnir Breski forsætisráðherrann (t.v.) sést hér ræða við kanadískan herstjórnanda á fundi fulltrúa Vesturlanda sem fram fór á Bretlandi.
Lundúnir Breski forsætisráðherrann (t.v.) sést hér ræða við kanadískan herstjórnanda á fundi fulltrúa Vesturlanda sem fram fór á Bretlandi. — AFP/Alastair Grant
Moskvuvaldið mun ekki virða neitt samkomulag um vopnahlé í Úkraínu til lengri tíma án þess að Vesturlönd veiti Úkraínu tryggingu fyrir friði. Rússlandsforseti hefur með fyrri verkum sýnt að ekki sé hægt að treysta orðum Moskvu

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Moskvuvaldið mun ekki virða neitt samkomulag um vopnahlé í Úkraínu til lengri tíma án þess að Vesturlönd veiti Úkraínu tryggingu fyrir friði. Rússlandsforseti hefur með fyrri verkum sýnt að ekki sé hægt að treysta orðum Moskvu. Þetta segir Keir Starmer forsætisráðherra Bretlands.

„Nái menn saman, sem ég svo sannarlega vona – allir vilja jú frið og ekki síst Úkraína, þá heldur hann ekki til lengri tíma án tryggingar um öryggi. […] Óvarið samkomulag verður svikið af Pútín. Svik hafa átt sér stað áður og ég er þess fullviss að þau munu eiga sér stað aftur,“ sagði hann.

Ummælin féllu á fundi fulltrúa Vesturlanda í Lundúnum sem ræddu hugsanleg næstu skref, nái að semjast um frið í árásarstríði Rússlands í Úkraínu. Sú leið sem helst virðist til skoðunar er að senda vestrænt herlið inn fyrir landamæri Úkraínu og yrði hlutverk þeirra þar að halda úti friðargæslu. Ljóst er að slík aðgerð yrði mjög flókin tæknilega og frek á bæði mannafla og tækjabúnað.

Varnarmálaráðuneyti Bretlands er nú að meta þann viðbúnað sem nauðsynlegur er til friðargæslu í Úkraínu. Starmer segir herlið Bretlands í Eistlandi, sem starfar þar undir herstjórn Atlantshafsbandalagsins (NATO) við að tryggja eystri landamæri Evrópu, ekki verða kallað þaðan til starfa í Úkraínu. Brýnt sé að halda þessu herliði úti í Eistlandi. Heraflinn, komi til friðargæslu, yrði því að öllum líkindum sendur frá herstöðvum á Bretlandseyjum. Gera má ráð fyrir að fleiri ríki Vesturlanda séu einnig að meta getu sína og vilja til þátttöku í hugsanlegu gæsluverkefni.

Loka þarf lofthelginni

Fari svo að Vesturlönd sendi friðargæslusveitir inn fyrir landamæri Úkraínu þyrfti einnig að loka lofthelginni þar yfir. Tilgangur þess er að koma í veg fyrir hugsanlegar loft- og drónaárásir á sveitirnar. Bretland og Frakkland hafa lagt til aðkomu Bandaríkjahers í þeim efnum. Gangi það ekki eftir, þá er til skoðunar að aðrar vestrænar flughersveitir taki verkið að sér. Slíkt myndi kalla á mikinn undirbúning og samhæfingu sveita.

Höf.: Kristján H. Johannessen