Árið 2019 ákvað Arion banki að selja Ásthildi Lóu Þórsdóttur, fráfarandi barna- og menntamálaráðherra, fasteign í Garðabæ fyrir 55 milljónir króna. Það var sama fjárhæð og þau höfðu greitt fyrir eignina 12 árum fyrr en síðan misst hana á nauðungaruppboði. Árni Helgason, lögmaður og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur komið að mörgum skuldaskilamálum í eftirleik bankahrunsins og segist hann ekki þekkja nein dæmi þess að fólk hafi fengið að kaupa eignir til baka á margra ára gömlu verði. Í Spursmálum upplýsir Árni að samkvæmt gögnum sem liggi fyrir um fasteignamarkaðinn hafi sambærilegar eignir verið að seljast á 85-90 milljónir á árinu 2019.
Sigurður Guðni Guðjónsson hæstaréttarlögmaður tekur í sama streng og segist ekki þekkja viðlíka dæmi. Það hafi verið prinsipp hjá bönkunum að láta markaðsverð ráða viðskiptum af þessu tagi í því skyni að allir sætu við sama borð.
„Það liggur fyrir að þetta er keypt á mjög hagstæðu verði og mjög langt frá markaðsvirði og þá er nú bara ákvæði í skattalögum og Skatturinn hlýtur miðað við það sem hann hefur verið að gera gagnvart öðru fólki, að skoða skattskil þessara hjóna með tilliti til þess að þau verði að telja sér til tekna mismuninn á kaupverðinu og þekktu markaðsvirði á svona fasteign á þeim tíma þegar viðskiptin með þessa fasteign áttu sér stað,“ segir Sigurður.
Bendir hann á að ákvæði 57. gr. tekjuskattslaga taki til þess þegar óeðlilegt verð sé veitt í viðskiptum. „Það er þá bara hægt að færa auknar tekjur til samræmis við það sem er talið markaðsverð á viðkomandi hlut,“ útskýrir hann.
Árni segir undarlegt að skoða málaferli og málafylgju Ásthildar Lóu og eiginmanns hennar í ljósi þeirrar gríðarlegu fyrirgreiðslu sem þau nutu umfram aðra á vettvangi Arion banka. Öll orðræða hennar sem formanns Hagsmunasamtaka heimilanna sé til þess gerð að kasta rýrð á kerfið og hið mikla óréttlæti sem það bjóði upp á. Hún hafi hins vegar ekki kynnst slíku heldur gríðarlegum sveigjanleika í formi fyrrnefnds kaupverðs og þeirrar ákvörðunar bankans að bera hana ekki út úr húsinu sem hún hafði misst og heldur ekki tekið hart á því að hún hafi búið leigu- og afborganalaust svo árum skipti í aðdraganda þess að hún fékk eignina afhenta á hinu verulega undirverði.