Það er mikill áhugi hjá okkur á hjartadeildinni að innleiða stafrænar lausnir inn í hefðbundna klíníska heilbrigðisþjónustu. Þetta er verkefni sem mun taka tíma og er auðvitað talsverð breyting á hefðbundnu vinnulagi og margt sem þarf að huga að. Við þurfum að skoða hentugasta vinnulagið, hvaða sjúklingahópar henta best fyrir svona nálgun og tæknin mun svo vafalaust þróast áfram. En að mínu mati er þetta áhugvert tækifæri til að þróa með afgerandi hætti nýjar leiðir í samskiptum sjúklinga við heilbrigðiskerfið.“
Þetta segir Davíð O. Arnar, yfirlæknir hjartalækninga á Landspítala, um nýja smáforritið sem deildin hefur verið að prófa en það var þróað af íslenska heilbrigðistæknifyrirtækinu Sidekick Health. Davíð segir samstarfið hafa reynst gagnlegt til að bæta smáforritið enn frekar.
Þessi stafræna lausn er þríþætt:
Í fyrsta lagi fjarvöktunarþáttur, það er fimm til sex spurningar með valkostum um svör fyrir hvern tiltekin sjúkdóm. Algrími vinnur úr svörunum, tekur inn stafræn lífsmörk þegar það er í boði, stigar sjúklinga og merkir grænt, gult, rautt á skjáborði og viðbrögðin ráðast af litnum. Grænn þýðir stöðugt ástand, gulur minniháttar frávik og rauður meiriháttar frávik. Ef sjúklingur stigast gulur er aukið við tíðni vöktunar en ef hann kemur upp rauður er haft samband við hann.
Í annan stað hvatning og stuðningur til heilsueflandi lífsstíls með m.a. vönduðum myndböndum, hvatningarskilaboðum auk fræðsluefnis um sjúkdóminn.
Í þriðja lagi samskiptagátt milli skjólstæðings og heilbrigðisstarfsmanns og heilsumarkþjálfa.
Davíð segir fjarvöktunarþáttinn afar athyglisverðan. Öldruðum fjölgi í vestrænum samfélögum og sömuleiðis þeim sem hafi langvinna sjúkdóma. „Meðferð langvinnra sjúkdóma hefur batnað og eftirlit með þessum hópi er stór hluti af því sem við erum að fást við í heilbrigðiskerfinu,“ segir hann.
Eftirlit á göngudeildum, heilsugæslu og einkareknum læknastofum er, að sögn Davíðs, alla jafna á nokkurra mánaða fresti og svo kannski frekar lítil samskipti þess á milli. Hann segir það gott og gilt en heilbrigðisstarfsfólki fjölgi hins vegar ekki í takt við sjúklingana og hæpið sé að hægt verði að viðhalda sömu nálgun til lengdar, auk þess sem ekki sé hægt að horfa framhjá því að tæknin býður í vaxandi mæli upp á áhugaverða valkosti.
Sennilega betri samskipti
Davíð segir ástæðu til að skoða virkilega vel hvernig nýta megi tæknina við ýmis verkefni, t.d. við eftirlit einstaklinga með langvinna sjúkdóma. Þar komi fjarvöktunarþátturinn í góðar þarfir. „Við erum að tala um tíðari og að sumu leyti ítarlegri samskipti, mögulega yrði með tíð og tíma hægt að fækka komum á göngudeildir, finna versnun á sjúkdómi fyrr og ef til vill draga úr fjölda innlagna vegan bráðrar versnunar á langvinnum sjúkdómum Þessi nýja tækni gefur okkur tækifæri til að fylgjast mun betur með sjúklingum, þess vegna daglega, gerist þess þörf.“
Hann segir fjarvöktunina líka skilvirkari en t.d. gáttina Heilsuveru, enda berist þangað margvísleg erindi sem ekki þurfi endilega að koma til kasta heilbrigðiskerfisins og jafnvel frá fólki sem ekki glími við alvarleg veikindi. „Það er afar brýnt í þessu að geta greint kjarnann frá hisminu svo heilbrigðisstarfsfólk þurfi ekki að nota mikið af sínum tíma í minniháttar vandamál.“
Sjúklingar hafa í síauknum mæli aðgang að eigin heilsufarsupplýsingum, þ.m.t. rannsóknarniðurstöðum. Að mati Davíðs er það kannski fyrsta skrefið í því að gera sjúklinga meiri þátttakendur í eigin meðferð. Mögulega gæti fjarvöktun verið samtvinnuð heilsufarsupplýsingum, fræðsluefni um sjúkdóminn auk meðferðarmarkmiða í gátt sem yrði kannski heilsufarsleg hliðstæða netbanka. „Þá gæti sjúklingurinn fylgst betur með eigin meðferð og þekkt meðferðarmarkmiðin vel. Þetta myndi klárlega valdefla sjúklinginn og auka hans þátt og ábyrgð í eigin eftirliti, líkt og fólk getur fylgst með eigin fjármálum á mun ítarlegri hátt í netbanka án þess að þurfa í eigin persónu í bankana. Þess utan getur þetta sparað umtalverðan tíma en það að mæta í göngudeildarviðtal á Landspítala getur auðveldlega tekið um eina og hálfa klukkustund þegar ferðatími er tekinn með.“
Davíð segir heilbrigðiskerfið í eðli sínu frekar íhaldssamt og mörgum geti þótt þessar hugmyndir full róttækar. Hann er því ekki sammála. „Þetta getur mögulega gjörbreytt því hvernig við fylgjum sjúklingum eftir. En auðvitað eru þetta bara fyrstu skrefin á langri vegferð en það er erfitt að standa gegn þeirri tækniþróun sem er að verða í auknum samskiptamöguleikum.“
Annað og kannski ekki síður mikilvægt, að sögn Davíðs, er að í smáforritinu er lagt mikið kapp á heilsueflandi lífsstíl með hvatningu og myndböndum, þ.m.t. er hreyfing, mataræði, svefn, reykleysi, kjörþyngd og fleira. „Heilsueflandi lífsstíll skiptir gríðarlega miklu máli, hvort sem um er að ræða þá sem eru heilbrigðir eða einstaklinga með langvinnan sjúkdóm. Að breyta rétt eykur lífsgæði og vellíðan,“ segir hann.
Rannsóknir hafa sýnt að heilsueflandi lífsstíll getur seinkað komu kransæðasjúkdóms, sykursýki, krabbameina og elliglapa. Þá gaf stór rannsókn nýlega til kynna að um 50% nýrra tilvika hjartasjúkdóma og 20% dauðsfalla á heimsvísu væru vegna fimm áhættuþátta sem hægt er að meðhöndla eða snúa við. Þetta eru sykursýki, háþrýstingur, hátt kólesteról, reykingar og offita. „Það er til gríðarlega mikils að vinna að taka á þessum vandamálum. Við sem heilbrigðisstarfsmenn erum ekki að standa okkur neitt sérstaklega vel í að koma þessum boðskap á framfæri,“ segir Davíð. „Við erum dugleg að nota, oft og tíðum, dýr lyf og gera flókin inngrip, sem vissulega gagnast oft vel en erum mun minna í því að gefa einföld en ekki síður árangursrík ráð um heilsueflingu.“
Upplifun hans er sú að viðtal læknis við sjúkling sé kannski ekki hentugasta leiðin til að koma þessum skilaboðum um heilsueflingu á framfæri og mögulega gæti miðill eins og smáforrit SH hentað vel til slíks. Davíð sér miðilinn þróast frekar í þá átt á næstu árum. „Við þurfum líka að skoða nýjar og kannski óhefðbundnar leiðir til að koma þessum mikilvægu skilaboðum um heilsueflingu á framfæri til yngra fólks, ef til vill á snemmstigum skólakerfisins og í leikskólum. Þar kæmi öflug fræðsla til greina og jafnvel að nýta tækifæri eins og skólamáltíðir til að kenna börnum grundvallaratriði holls mataræðis.“
Undanfarin þrjú ár hefur Landspítali verið að gera vísindarannsóknir í samstarfi við Sidekick Health, annars vegar á hópi einstaklinga með hjartabilun og hins vegar með kransæðasjúkdóm. Fyrstu niðurstöður eru ljósar og þar kom sitthvað áhugavert í ljós, að sögn Davíðs. Í rannsóknunum var verið að bera saman hefðbundna nálgun á móti hefðbundinni nálgun að viðbættri stafrænu lausninni. „Við vorum í raun fyrst og fremst að prófa hvort stafræn lausn hugnaðist sjúklingum, það er kannski allra fyrsta skrefið.“
Mjög góð svörun var meðal þátttakenda í fjarvöktunarþættinum, yfir 90% voru með í henni allt rannsóknartímabilið, ekki síst eldri sjúklingar, sem Davíð segir lofa góðu fyrir framhaldið. Aðrar lykil niðurstöður voru aukin lífsgæði voru hjá þeim sem höfðu verstu stig hjartabilunar miðað við samanburðarhópinn. Betri þekking varð á sjúkdómnum og bætt sjálfsumönnun hjá hjartabiluðum. Brjóstverkjum fækkaði hjá þeim sem höfðu kransæðasjúkdóm. Einnig var marktæk lækkun áhættuþátta hjartasjúkdóma, það er blóðþrýstings, blóðsykurs og þríglýseríðs sem er ein af lykilblóðfitunum. Mikil þátttaka var í lífsstílshvetjandi hlutanum, yfir 80% þátttakenda voru virk allt rannsóknartímabilið.
Tæknin hefur verið lítil fyrirstaða
Hann segir mikla þátttöku og viðhorf sjúklinganna til þessarar tækni hafa komið skemmtilega á óvart, en meðalaldur þeirra í rannsókninni var um 65 ár, og tæknin reynst verið lítil fyrirstaða. „Notkun smáforrita er greinilega almennari en við bjuggumst við í þessum aldurshópi. Maður sér svo fyrir sér að þeir sem eru milli 45 og 55 ára og líklega sjúklingar framtíðarinnar muni frekar kjósa stafrænt eftirlit en en að þurfa að koma á staðinn í eftirlit. Þeir munu vilja hafa eftirlitið hnitmiðaðra og skilvirkara,“ segir Davíð. Hann tekur þó skýrt fram að þeir sem eru bráðveikir muni auðvitað þurfa að hitta heibrigðisstarfsfólk. Hugmyndirnar á þessu stigi ganga fyrst og fremst út á eftirlit með langvinnum sjúkdómum.
Eitt af því sem eftir á að leysa er hvernig greitt verði fyrir svona þjónustu, hvort sem það er á spítalanum eða annarsstaðar innan kerfisins, ef hún kemur að hluta til í stað eftirlits. Í því sambandi telur Davíð heppilegast að tekið verði upp samtal við þar til bær yfirvöld um einhvers konar lausn eða gjaldskrá. „Það mun verða þróun á þessu verklagi á næstu árum. Við kynntum þessar hugmyndir fyrir ráðherrum í fyrri ríkisstjórn og því var vel tekið, ég held að margir sjái ákveðna kosti við svona nálgun.“