Einar Geir Þorsteinsson
Einar Geir Þorsteinsson — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Miðaldra afturhaldssinnar vilja auka frelsi foreldra í fæðingarorlofi.

Einar Geir Þorsteinsson

Árið 2020 samþykkti Alþingi ný lög um fæðingarorlof sem fól í sér lengingu orlofs úr tíu mánuðum í tólf. Þótt sú breyting hafi verið af hinu góða fylgdu henni takmarkanir: Hvoru foreldri var tryggður sex mánaða réttur, en aðeins var heimilt að framselja sex vikur á milli þeirra. Þetta þýðir að hvort foreldri þarf að taka að lágmarki fjóra og hálfan mánuð af orlofi, óháð aðstæðum, vilja eða þörfum fjölskyldunnar. Fjölskyldur, og þá sérstaklega óléttar konur og konur með nýbura, ráku upp stór augu og veltu fyrir sér hvers vegna í ósköpunum stjórnvöld töldu þörf á því að setja í lög takmarkanir á frelsi þeirra til að skipuleggja eigið fæðingarorlof.

Þegar frumvarpið sem varð að lögum nr. 144/2020 er skoðað nánar kemur í ljós að markmið laganna var ekki að mæta þörfum fjölskyldna heldur að jafna fæðingarorlof kynjanna. Lögin byggðu því á pólitískri hugmyndafræði fremur en raunverulegum aðstæðum foreldra. Í umsögnum við frumvarpið mótmæltu fjölmargir foreldrar skerðingu á frelsi foreldra til að ákvarða eigið fæðingarorlof. Nýbakaðar mæður bentu sumar á að lögin þvinguðu þær út á vinnumarkað með barn á brjósti. Einstæðir foreldrar sögðu kerfið ósveigjanlegt fyrir þeirra aðstæður. Aðrar mæður bentu á að þær yrðu að dreifa orlofi sínu á lengri tíma vegna skorts á leikskólaplássum. Ekki var þó horft til þessara sjónarmiða og voru umsagnir mæðranna að öllum líkindum afgreiddar sem afturhaldsamar og jafnvel sem bakslag í jafnréttisbaráttunni.

Viðreisn hefur gefið sig út fyrir að vera frjálslyndur flokkur sem styður lágmarksafskipti ríkisins. Í stefnu flokksins segir:

„Svo lengi sem það skaðar ekki aðra kemur það ríkinu ekki við hvernig fólk lifir lífi sínu.“

Þessi afstaða ætti að samræmast þeirri breytingartillögu sem Miðflokkurinn hefur nú lagt fram – að færa foreldrum réttinn til að ákveða sjálfir hvernig þeir skipta orlofi sínu. Þegar lögin voru sett árið 2020 fengu þingmenn Viðreisnar tækifæri til að gera athugasemd við hina augljósu forræðishyggju sem fólst í lagasetningunni. Þingmenn flokksins höfðu þó þveröfugar hugmyndir. Þingmenn flokksins studdu ekki þær tillögur að breytingum sem hefðu veitt foreldrum aukið svigrúm til að skipta orlofinu eftir sínum þörfum og vildu jafnvel ganga lengra en frumvarpið kvað á um og lögðu til lögbundna jafna 6+6 skiptingu. Þetta var rökstutt m.a. af Hönnu Katrínu Friðriksdóttur þingmanni flokksins með fullyrðingu um að „valfrelsi komi ekki til álita fyrr en jafnrétti sé tryggt með lögum“. Það er undarlegt viðhorf hjá flokki sem segist leggja áherslu á að lágmarka ríkisafskipti.

Miðflokkurinn hefur nú lagt fram breytingartillögu sem myndi einfaldlega færa foreldrum réttinn til að skipta fæðingarorlofi sínu eftir eigin þörfum. Enginn missir rétt sinn við þessa breytingu. Í þeim tilvikum þar sem jöfn skipting hentar foreldrum þá geta foreldrar skipt orlofinu jafnt á milli sín. Ef annað fyrirkomulag hentar foreldrum hafa þeir kost á því að skipta orlofinu með öðrum hætti. Viðbrögðin við tillögunni verða ekki skilin öðruvísi en að stjórnarflokkarnir líti á frelsi foreldra í þessum málum sem ógn við sína hugmyndafræði. Þingmaður Samfylkingarinnar mætti í pontu og talaði gegn tillögunni með röksemdum sem minntu helst á röksemdir Steingríms J. Sigfússonar þegar hann andmælti því að leyfa ætti sölu á bjór. Taldi hún m.a. að valfrelsi foreldra myndi valda „bakslagi“ í jafnréttisbaráttunni. Sama dag birti þingflokkur Samfylkingarinnar ræðuna á samfélagsmiðlum undir yfirskriftinni „Miðaldra menn í Miðflokknum vilja breyta fæðingarorlofskerfinu“. Þar átti að afgreiða umræðuna þannig að þeir sem töluðu fyrir auknu frelsi foreldra væru „afturhaldssinnar“ en þeir sem héldu forræðishyggjunni á lofti væru „framfararsinnar“. – Umbúðir og innihald.

Forræðishyggja í nafni hugmyndafræði ríkisins á hverjum tíma fyrir sig er ekki ný af nálinni. Forræðishyggja er oftast réttlætt með „góðum gildum“ og er lítið mark tekið á andstæðum sjónarmiðum. Í því tilviki sem hér er fjallað um telja stjórnvöld að foreldrum sé ekki treystandi til að ákveða sjálfir hvernig þeir skipta fæðingarorlofi, enda er hætt við því að þeir setji eigin hagsmuni og/eða hagsmuni barnsins ofar hugmyndafræði stjórnvalda um jafnrétti kynjanna.

Eflaust myndu margar fjölskyldur ekki velja „ríkisleiðina“ fengju þær fullt frelsi til að ákvarða eigið fæðingarorlof. Móðir sem telur að lengra fæðingarorlof henti hennar aðstæðum – sama hvaða ástæður liggja að baki – ætti þrátt fyrir það að hafa fullt sjálfstæði til að taka slíka ákvörðun. Það ætti ekki að ráðast af því hvort stjórnmálamenn telji val hennar vera „bakslag“ í réttindabaráttu. Í samfélagi sem kennir sig við frelsi og jafnrétti hlýtur það að vera grundvallaratriði að treysta foreldrum fyrir ákvörðunum um umönnun barna sinna.

Höfundur er lögfræðingur.

Höf.: Einar Geir Þorsteinsson