Í eldhúsinu Árný Margrét á kynningarmynd fyrir nýútkomna breiðskífu sína, I Miss You, I Do.
Í eldhúsinu Árný Margrét á kynningarmynd fyrir nýútkomna breiðskífu sína, I Miss You, I Do. — Ljósmynd/Guðm. Kristinn Jónsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tónlistarkonan Árný Margrét gaf nýverið út breiðskífuna I Miss You, I Do, sem hefur að geyma tíu lög eins og fyrsta breiðskífa hennar, They only talk about the weather, sem kom út árið 2022

Viðtal

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Tónlistarkonan Árný Margrét gaf nýverið út breiðskífuna I Miss You, I Do, sem hefur að geyma tíu lög eins og fyrsta breiðskífa hennar, They only talk about the weather, sem kom út árið 2022. Árný hefur átt góðu gengi að fagna allt frá útgáfu frumburðarins og þegar blaðamaður nær tali af henni, um miðjan mars, er hún stödd í París. Er förinni heitið þaðan til Brussel og svo Amsterdam til að kynna nýju plötuna.

Ekki er víst að allir lesendur Morgunblaðsins kannist við Árnýju og er hún því beðin að segja, áður en lengra er haldið, frá því hver hún sé. „Ég er fædd og uppalin á Ísafirði, fór í menntaskóla þar og kláraði og fór til Danmerkur í lýðháskóla í eina önn. Svo kom ég heim, þetta var Covid-tímabilið, og fór svo aftur út. Þetta var 2020 og 2021, haustannirnar. Í millitíðinni, þegar ég kom heim, fékk ég samband við Kidda, sem startaði þessu öllu svolítið,“ svarar Árný og með Kidda á hún við Guðmund Kristin Jónsson sem jafnan er kenndur við hljómsveitina Hjálma. „Ég er bara Ísfirðingur og mjög venjuleg, sko, og sem svo tónlist,“ bætir Árný við kímin, „ég er eiginlega bara eins og ég er.“

Þótt gítarinn sé aðalhljóðfæri Árnýjar lærði hún á píanó upphaflega, þegar hún var í tónlistarskóla, og lék einnig á þverflautu og saxófón. „Ég svissaði yfir í gítar þegar ég var svona 14 ára, fékk þá gítar í fermingargjöf,“ segir Árný og að þótt hún hafi ekki lært á gítar sé hann hljóðfærið sem hún sæki mest í og inn á milli leiki hún á píanó. Gítarnum hafi hún náð tökum á nokkuð fljótt enda skemmtilegt hljóðfæri að leika á.

Samið um vinkonu í Japan

Platan heitir I Miss You, I Do, eins og titillag hennar, og það fjallar um söknuð, ef rétt er skilið hjá mér …

„Jaaá, það getur verið það […] þetta var í raun samið um bestu vinkonu mína sem býr í Japan. Þetta getur verið svo margt og fyrir mér er þetta bara um að vera langt frá einhverjum sem manni þykir vænt um. Það getur verið vinur, fjölskylda … þetta er í raun svoleiðis,“ svarar Árný. Lagið fjalli því ekki um ástarsorg.

En fjalla þá einhver laganna um slíka sorg?

„Í rauninni ekki, þetta er meira bara ég og ég er að þroskast og breytast og alls konar,“ svarar Árný. Textana hafi hún samið á svipuðum tíma og því sé ákveðinn samhljóm að finna í þeim.

Það eru fleiri textar á ensku en íslensku hjá þér

„Jú og ástæðan fyrir því er bara að mér finnst oft erfitt að semja á íslensku, maður getur orðið svo berskjaldaður en þetta var heldur ekki einhver meðvituð ákvörðun, þetta bara einhvern veginn varð svona, sem er bara í himnalagi,“ svarar Árný og er í framhaldi spurð að því hvort hún búist við því að semja meira á ensku í framtíðinni. „Ég geri alveg íslensk lög inn á milli og finnst það skemmtilegt líka. Ég hef alveg hugsað um að gefa líka út íslenska EP-plötu en af því þessi tónlist er svo stór og mikilvæg úti í Bandaríkjunum meikar alveg sens líka að gera hana á ensku og hún virkar vel. Mér finnst skemmtilegt að koma þangað,“ segir Árný og á þar við „singer-songwriter“-tónlist eftir höfunda á borð við Bob Dylan.

Og talandi um bandaríska tónlistarmenn segist Árný hafa fengið einna mestan innblástur frá tónlist Gregorys Alans Isakov hvað lagasmíðar varðar.

Saknar Ísafjarðar

Á Facebook skrifar þú að platan hafi að mestu verið tekin upp í Bandaríkjunum, samin á tónleikaferðum þínum um heiminn og unnin með upptökustjórum sem þú lítir mikið upp til. Þú kláraðir plötuna með Kidda „Hjálmi“ sem mixaði plötuna með þér og tók myndir fyrir umslagið. Aðstoðaði Kiddi þig mikið við plötuna?

„Hann hefur gert það mikið fyrir fyrri plötur en var aðeins utar í þessari. Við Kiddi tókum upp þrjú lög saman og hann er oft inntvinnaður í ýmislegt. Við tókum t.d. þessar myndir og einhver vídeó saman en ég tók hana að mestu leyti upp í Bandaríkjunum með þremur öðrum upptökustjórum. Það eru s.s. fjórir upptökustjórar á þessari plötu,“ segir Árný en auk Kidda voru það Brad Cook, sem hefur m.a. unnið með Bon Iver og verið tilnefndur til Grammy-verðlauna, Andrew Berlin og Josh Kaufmann, segir Árný. Allt séu þetta þekktir tónlistarmenn og dáðir í alþýðutónlistargeiranum, tónlistin notaleg og stemningin góð.

Plata Árnýjar er gefin út víða og útgáfufyrirtækið er One Little Independent sem gerir út frá Lundúnum, hið sama og gefur út plötur Bjarkar og Ásgeirs.

Í fótspor Dylans

Blaðamaður hefur orð á því að það sé heldur betur nóg að gera hjá hinni ungu tónlistarkonu og hún segir að jú, vissulega sé nóg að gera en hún sé þó alltaf söm inn við beinið. „Mig langar oft bara heim, að vera bara heima, þannig að það eru alls konar andstæður í þessu,“ segir Árný. Ísafjörður togi alltaf í hana. „Ég ólst upp þar og foreldrar mínir voru með bakarí þar þannig að við ferðuðumst ekkert mikið, ég hef vanist því að vera á sama stað í langan tíma og held að það eigi sinn þátt í hvað ég er heimakær, finnst gott að vera bara heima hjá mér.“

Árný er spurð hvar henni hafi þótt best að halda tónleika, í hvaða landi. „Ég spilaði á Newport folk festival sem er rosalega stórt, Bob Dylan hefur spilað þar, og það var ótrúlega flott. Og líka Kanada, ég spilaði einu sinni í Massey Hall þar, var að hita upp þar. Ameríku-markaðurinn og fólk í Ameríku eru miklir tónlistarunnendur, elska tónlist og maður finnur fyrir því, fær gott hljóð og rými,“ svarar Árný. Hún hafi líka fengið góðar viðtökur í Evrópu, m.a. í Belgíu, Hollandi og Þýskalandi. „Það fer algjörlega eftir stöðum,“ bætir Árný við og að mestu skipti að fólk sé komið á staðinn til að hlusta.

Árný er spurð að því að lokum hvað sé fram undan hjá henni á árinu 2025. „Það eru einhver gigg fram undan og verið að plana Evróputúr í haust, til að fylgja plötunni eftir,“ svarar hún.

Höf.: Helgi Snær Sigurðsson