Ása Berglind Hjálmarsdóttir
Ása Berglind Hjálmarsdóttir
Fyrir 10 árum heimsótti ég hvert einasta hjúkrunarheimili á Íslandi, sem þá voru hátt í 70 talsins, á 30 dögum í þeim tilgangi að halda tónleika og syngja og spila með íbúum. Þessi reynsla gaf mér góðan samanburð og ég skynjaði svo vel hvernig félagslegar aðstæður skiptu máli

Fyrir 10 árum heimsótti ég hvert einasta hjúkrunarheimili á Íslandi, sem þá voru hátt í 70 talsins, á 30 dögum í þeim tilgangi að halda tónleika og syngja og spila með íbúum.

Þessi reynsla gaf mér góðan samanburð og ég skynjaði svo vel hvernig félagslegar aðstæður skiptu máli. Ég hugsaði stundum með mér eftir heimsóknirnar: Já, hér myndi ég vilja eiga heima þegar ég verð gömul, og oftar en ekki var það eftir heimsóknir á heimili þar sem starfsfólkið var í eigin fötum, ekki einkennisfatnaði, stundum voru dýr á þessum stöðum og sums staðar jafnvel boðið upp á sérrístaup yfir söngnum.

Ég áttaði mig á því hvað það var sem einkenndi þessi heimili, þar sem stemningin var á einhvern hátt léttari og mannlegri, þegar ég átti samtal við starfsmann sem sagði okkur frá Eden-hugmyndafræðinni. Hún gengur út á að breyta stofnanamenningu hjúkrunarheimila í heimili sem iðar af lífi innan um blóm, plöntur, dýr og börn. Með áherslu á að vinna gegn einmanaleika og vanmætti og leiða með nánd, samveru, stuðningi og gleði. Ekki bara stuðningi við grunnþarfir heldur einnig innihaldsrík samskipti og að gengið sé út frá því að hver og ein manneskja sé sérstök og skipti máli.

Í samantektargreiningu Holt-Lunstad og fleiri frá árinu 2010, sem náði til rannsókna með samanlagt um 300.000 þátttakendum, kom í ljós að skortur á félagslegum tengslum eykur líkur á dauða um 50% og að félagsleg tengsl eru ein mikilvægasta verndandi breytan fyrir heilsu. Fleiri rannsóknir benda til þess að félagslega einangrað fólk sé líklegra til að þróa með sér líkamlega og andlega sjúkdóma. Á Íslandi eru ekki til neinar nákvæmar tölur um hversu oft fólk deyr einmana dauða. Tilfellin eru ekki skráð sérstaklega í dánarmeinaskrá eins og gert er víða annars staðar.

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið lét hins vegar greina líðan eldra fólks, bæði af íslenskum og erlendum uppruna, árið 2023. Þar kom í ljós að 17 prósent fólks af íslenskum uppruna voru nokkuð eða talsvert einmana og 31 prósent sífellt stækkandi hóps innflytjenda.

Það þarf samhent átak samfélagsins í heild til þess að vinna á móti félagslegri einangrun eldra fólks. Sá hópur er auðvitað fjölbreyttur og með mjög ólíkar þarfir en mannleg tengsl eru grundvallaratriði fyrir vellíðan fólks. Á þessu ferðalagi mínu fyrir 10 árum sá ég svo vel hvað tónlist er öflugt tæki í þessum efnum, enda fjölmargar rannsóknir sem sýna fram á gildi tónlistarstarfs í félagslegum tilgangi, en nú þýðir hinsvegar ekkert að telja bara í harmonikkulögin því Bítlakynslóðin er mætt til leiks í sístækkandi hóp heldri borgara landsins.

Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar. asa.berglind.hjalmarsdottir@althingi.is