— Morgunblaðið/Ásdís
Hvað ertu að gera í San Francisco? Ég er búinn að vera nemi hjá San Francisco-flokknum í ár, sem er frábært og alveg ómetanlegt. Þetta hefur verið uppáhaldsárið mitt. Margir flottir danshöfundar hafa komið hingað og við nemarnir lærum þá verkin…

Hvað ertu að gera í San Francisco?

Ég er búinn að vera nemi hjá San Francisco-flokknum í ár, sem er frábært og alveg ómetanlegt. Þetta hefur verið uppáhaldsárið mitt. Margir flottir danshöfundar hafa komið hingað og við nemarnir lærum þá verkin þeirra og sýnum svo, en nú tek ég líka meiri þátt í sýningum með flokknum. Það eru stífar æfingar á daginn og svo sýnum við á kvöldin, en við nemarnir erum nú að dansa í Frankenstein með flokknum. Það er ótrúlega gaman að dansa á sviði fyrir framan fullan sal af fólki í þessu fallega óperuhúsi hér.

Nú er búið að ráða þig í flokkinn, var erfitt að komast að?

Já, við vorum þrettán nemendur sem þreyttum próf og sex voru ráðin, þrír strákar og þrjár stelpur. Það er mánuður síðan það kom í ljós, en inntökuprófið var mjög strangt. Það var mjög stressandi því annaðhvort myndi ég komast að hjá flokknum eða þurfa að sækja um hjá öðrum flokkum og jafnvel flytja í nýtt land. Ég var heppinn að komast að því þetta er einn besti ballettflokkur heims. Ég trúi þessi varla sjálfur og þegar ég kom hingað fyrst trúði ég aldrei að ég myndi komast í flokkinn. En á síðustu árum sem nemi hef ég vaxið svo mikið sem dansari. Ég á svo mörgum þessa velgengni að þakka; bæði fjölskyldu heima og kennurum, bæði heima og hér úti.

Ertu þá byrjaður að vinna fyrir flokkinn?

Nei, ég er enn nemi en svo byrjar samningurinn í júlí og stendur í eitt ár, en maður er ráðinn í eitt ár í einu. Næsta vetur sýnum við Don Kíkóta og La Sylphide og nokkur nútímaverk. Þetta verður skemmtilegt.

Ertu að feta í fótspor Helga Tómassonar?

Þá byrjar pressan! Hann var náttúrulega frábær. Maður reynir sitt besta. Ég er að fylgja mínum draumum.

Logi Guðmundsson er átján ára ballettdansari sem nýlega var ráðinn hjá einum virtasta ballettflokki veraldar, San Francisco-ballettinum sem Helgi Tómasson stýrði um áratugaskeið.