— Morgunblaðið/Árni Sæberg
Fulltrúar í ungmennaráði Grafarvogs hafa lagt fram tillögu um að frítt verði í strætó fyrir 18 ára og yngri á höfuðborgarsvæðinu. Þetta taki gildi 1. janúar 2027. Á síðasta fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur var samþykkt að vísa tillögunni til umsagnar Strætó bs

Fulltrúar í ungmennaráði Grafarvogs hafa lagt fram tillögu um að frítt verði í strætó fyrir 18 ára og yngri á höfuðborgarsvæðinu. Þetta taki gildi 1. janúar 2027.

Á síðasta fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur var samþykkt að vísa tillögunni til umsagnar Strætó bs.

Umhverfis- og skipulagsráð óskar sérstaklega eftir að upplýst verði hvaða tekjur Strætó fær í dag af aldurshópnum 12-17 ára og hver reynslan var af því þegar ókeypis var fyrir námsmenn í strætó frá 2006 til 2010.

Þá spyr ráðið hver séu rökin að baki því að gjaldskylda hefjist við 12 ára aldur.

Í greinargerð með tillögu ungmennaráðsins segir m.a. að það að hafa gjaldfrjálst í strætó fyrir 18 ára og yngri stuðli að auknum jöfnuði þar sem allir unglingar óháð efnahag hefðu aðgang að almenningssamgöngum.

Þetta myndi auðvelda ungmennum að nýta almenningssamgöngur. Því meiri aðgangur að strætó, því auðveldara verður að nýta félagsleg og menntunarleg tækifæri.

„Framsókn styður hugmynd ungmennaráðs Grafarvogs um frítt í strætó fyrir 18 ára og yngri,“ bókaði fulltrúi Framsóknarflokksins í ráðinu.

Sögulega hafi almenningssamgöngur ekki verið vel nýttar á höfuðborgarsvæðinu og því sé nauðsynlegt að ala upp næstu kynslóð í að nýta betur strætó, sérstaklega til að tryggja að 300 milljarða fjárfesting í borgarlínu skili árangri, bókaði fulltrúi Framsóknar. sisi@mbl.is