Sean Penn í hlutverki Welsh liðþjálfa og sagnfræðingurinn Þúkýdídes.
Sean Penn í hlutverki Welsh liðþjálfa og sagnfræðingurinn Þúkýdídes.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hverju áttu að trúa? Hvað er rétt? Sextus og félagar myndu segja við þig: Efastu!

Smitberinn

Halldór Armand

halldorarmand@- gmail.com

Þúkýdídes skrifar í Sögu Pelópseyjarstríðsins að raunverulega ástæðan fyrir því að Aþeningar réðust á Sikiley 415 f. Krist hafi verið að ná yfirráðum yfir Miðjarðarhafi og mikilvægum birgðaleiðum þar. Opinbera skýringin á Sikileyjarleiðangrinum var hins vegar allt önnur; Aþeningar gáfu það út að þeir sigldu til Sikileyjar í göfugum tilgangi, nefnilega þeim að koma bandamönnum sínum í borginni Segestu til hjálpar. Þeir áttu í deilum við Sýrakúsumenn, sem studdu Spartverja í stríðinu. Þúkýdídes var sjálfur hershöfðingi í her Aþeninga.

Manni verður hugsað til þess sem Sgt. Welsh, leikinn af Sean Penn, hugsar í hinni ótrúlegu seinni heimsstyrjaldarmynd The Thin Red Line frá 1999: Everything a lie They want you dead, or in their lie. Welsh stendur fyrir hið raunsæja sjónarhorn í myndinni og þótt hann fremji ótrúlegar hetjudáðir á vígvellinum, leggi líf sitt óhikað í hættu fyrir aðra og geri það sem honum er sagt, breytist kaldranaleg sýn hans á stríðið aldrei; það er algjörlega merkingarlaust, ekkert nema kaos og brjálæði – og ef þú færð í þig byssukúlu og deyrð þá er það fyrir ekkert.

Einhvern veginn sé ég fyrir mér að þeir gætu átt samleið, Forn-Grikkinn Þúkýdídes og bíómyndakarakterinn Sgt. Welsh. Það kæmi hinum síðarnefnda allavega ekki á óvart að heyra að Sikileyjarleiðangurinn, sem endaði með ósköpum fyrir Aþeninga, hafi átt sér allt aðrar forsendur og ástæður en gefnar voru upp opinberlega; að fyrir 2.500 árum hafi líka allt verið lygi.

Hvernig getur venjulegur maður, segjum hér á Íslandi, sem hefur ekki annað en nettengda ferðatölvu til þess að verða sér úti um þekkingu um þá atburði sem skekja heim hans dag eftir dag, dregið viturlegar ályktanir um það hvað er eiginlega að gerast og af hverju? Hvað getum við raunverulega vitað? Hvaða forsendur getum við virkilega treyst á til þess að taka afstöðu?

Einn áhugaverður lykill gæti falist í pyrrhonískri efahyggju, sem kennd er við Pyrrhón frá Elís (4. öld fyrir Krist) og varðveittist í skrifum Sextusar Emperíkusar (2. öld e. Krist). Þessir náungar voru góðum fimmtán til nítján hundruð árum á undan Hume að sýna fram á vankanta aðleiðslu og orsakasamhengis. Hvernig myndu þeir segja þér að nálgast þína eigin vitneskju um heiminn? Þeir myndu klappa þér á öxlina og segja: Efastu!

Í einfaldaðri mynd er nútíminn svolítið svona: Einn skóli segir þér að allt, bókstaflega allt illt sem gerist í heiminum, sé einhvern veginn Bandaríkjunum að kenna; já, ef þú færð niðurgang þá er það pottþétt einhvern veginn Könunum að kenna. Hinn skólinn segir þér staðfastlega að NATO sé friðsamlegt varnarbandalag sem myndi aldrei nokkurn tímann gera flugu mein, myndi aldrei reka stefnu sem í framkvæmd er eitthvað örlítið frábugðin þeim göfugu markmiðum sem geisla frá stofnsáttmála bandalagsins. Hverju áttu að trúa? Hvað er rétt? Sextus og félagar myndu segja við þig: Efastu!

„Pyrrhonískur heimspekingur samþykkir ekkert sem ekki er augljóslega sýnilegt eða skiljanlegt,“ skrifar Sextus. Hugsuður af þessum toga myndi ekki hafna því að honum sé kalt þegar tennur hans taka að glamra um vetur, hann trúir eigin skilningarvitum, en um önnur mál, til dæmis hugmyndir manna um orsakir og afleiðingar atburða í mannlegu samfélagi, myndi hann almennt grípa til epoché eða þess að „fresta ályktunum sínum“.

Við þurfum ekki að ganga svo langt að segja allt vera lygi, eða að allt eigi sér aðrar ástæður en upp eru gefnar hverju sinni, en það að þykjast hvorki vita hinn endanlega sannleika um rás atburðanna dag frá degi né orsakir mannlegrar hegðunar og lögmála náttúrunnar yfirhöfuð, það að gangast við óvissunni og takmörkunum eigin þekkingar og láta sig falla inn í epoché – sum sé fresta því að hrapa að ályktunum – leiðir samkvæmt efahyggjunni til ataraxía, hugarróar, sem Forn-Grikkir mátu svo mikils.