Bjarni Helgason
Ég horfði á fyrsta þáttinn af Adolescence á mánudaginn síðasta, en þættirnir eru sýndir á streymisveitunni Netflix. Ég var þreyttur eftir erfiða helgi og hafði hugsað mér að horfa á einn þátt og halda svo í svefn en þau plön fóru algjörlega út um þúfur. Ég gat ekki hætt og endaði á því að horfa á alla seríuna. Þættirnir fjalla um hinn þrettán ára gamla Jamie Miller.
Í fyrsta atriðinu ráðast lögreglumenn inn á heimili Jamie og fjölskyldu hans og handtaka hann fyrir að myrða skólasystur sína. Hann heldur allan tímann fram sakleysi sínu en sönnunargögnin eru yfirþyrmandi. Fjölskylda Jamie fléttast inn í atburðarásina og er óhætt að segja að um mikinn harmleik sé að ræða. Rannsóknarlögreglumaðurinn Luke Bascombe leiðir rannsókn málsins og honum er sjálfum kippt harkalega niður á jörðina í þáttinum af syni sínum þegar hann fer að útskýra fyrir honum allt „lingóið“ sem unglingar í dag eru að vinna með á samfélagsmiðlum.
Þessir þættir munu vafalaust sitja lengi í mér en þeir voru líka ákveðin vitundarvakning fyrir mig. Hlúum að börnunum okkar og verum virkir þátttakendur í lífi þeirra.