Lífslíkur íbúa í Evrópuríkjum við fæðingu jukust milli áranna 2022 og 2023, samkvæmt nýjum tölum sem Eurostat, hagstofa Evrópusambandsins, hefur birt. Meðal annars jukust lífslíkur Íslendinga við fæðingu úr 82,1 ári í 82,4 ár eftir að hafa lækkað um nærri heilt ár milli áranna 2021 og 2022

Baksvið

Guðm. Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Lífslíkur íbúa í Evrópuríkjum við fæðingu jukust milli áranna 2022 og 2023, samkvæmt nýjum tölum sem Eurostat, hagstofa Evrópusambandsins, hefur birt. Meðal annars jukust lífslíkur Íslendinga við fæðingu úr 82,1 ári í 82,4 ár eftir að hafa lækkað um nærri heilt ár milli áranna 2021 og 2022.

Að meðaltali gátu þeir sem fæddust í löndum Evrópusambandsins árið 2023 vænst þess að lifa í 81,4 ár samkvæmt útreikningum Eurostat, sem er aukning um 0,8 ár, en á árunum 2020 og 2021 dró almennt úr lífslíkum Evrópubúa vegna kórónuveirufaraldursins.

Lengst geta íbúar í Sviss vænst þess að lifa að jafnaði, eða í 84,3 ár, og á Spáni, 84 ár. Fram kemur í tölum Eurostat að íbúar í ýmsum héruðum geta reiknað með að lifa lengur. Þannig eru lífslíkur íbúa í héraðinu Comunidad de Madrid á Spáni 86,1 ár og í Provincia Autonoma di Trento á Ítalíu og á Álandseyjum í Finnlandi geta íbúar fæddir 2023 vænst þess að lifa í 85,1 ár.

Minnstu lífslíkur við fæðingu árið 2023 eru áætlaðar í Lettlandi, 75,6 ár, og Búlgaríu, 75,8 ár.

Konur lifa lengur

Talsverður munur er á kynjum þegar lífslíkur við fæðingu eru reiknaðar út. Þannig segir Eurostat að lífslíkur karla í löndum Evrópusambandsins hafi árið 2023 að jafnaði verið 78,7 ár en kvenna 84 ár. Fyrir Ísland eru þessar tölur 80,7 ár hjá körlum og 84,3 ár hjá konum. Mesti munurinn er í Eystrasaltsríkjunum. Þannig voru lífslíkur kvenna í Lettlandi 10,1 ári lengri en karla, 9 árum lengri í Litháen og 8,8 árum lengri í Eistlandi.

Lífslíkur við fæðingu í Evrópuríkjum hafa aukist mikið á síðustu áratugum af ýmsum ástæðum. Þar má nefna að dregið hefur mjög úr ungbarnadauða, velmegun hefur almennt farið vaxandi, fólk hefur tileinkað sér betri lifnaðarhætti, menntun hefur aukist og miklar framfarir hafa orðið í heilsugæslu og þróun lyfja.

Þannig sýna tölur að frá miðri síðustu öld hafa lífslíkur við fæðingu í Evrópuríkjum aukist að jafnaði um tvö ár á hverjum áratug þótt dregið hafi úr þeim á árunum 2020-2022 vegna heimsfaraldursins.

Evrópuþjóðir eldast

Það eru ekki nýjar fréttir að Evrópuþjóðir hafa elst hratt á undanförnum árum og áratugum og sú þróun kemur greinilega fram í tölum Eurostat. Þannig voru að jafnaði 15,5% íbúa í aðildarríkjum Evrópusambandins 65 ára og eldri árið 2024 en það hlutfall var 13,9% árið 2016. Á Íslandi voru 15,6% landsmanna á þessum aldri árið 2024 en hlutfallið var 13,9% árið 2016. Aðeins í þremur Evrópuríkjum, Aserbaísjan (9,1%), Tyrklandi (10,9%) og Írlandi (15,5%), var þetta hlutfall lægra árið 2023 en hér á landi. Hæsta hlutfallið var á Ítalíu, 24,3%, Portúgal, 24,1%, og Búlgaríu, 23,8%.

Eurostat reiknaði út hvað þau sem urðu 65 ára árið 2023 gætu átt von á að lifa lengi til viðbótar. Að jafnaði gátu karlar í ríkjum Evrópusambandsins átt von á að lifa 18,3 ár til viðbótar en konur 21,8 ár. Þessar lífslíkur jukust að jafnaði um tæpt ár bæði hjá körlum og konum frá árinu á undan.

Tölurnar fyrir Ísland eru 19,6 ár hjá körlum og 22,1 ár hjá konum. Lengst geta bæði karlar og konur á þessum aldri í Evrópuríkjum vænst að lifa á Spáni, 22 ár, en styst í Ungverjalandi, 16,8 ár. Spænskar konur sem urðu 65 ára 2023 gátu vænst þess að lifa að jafnaði í 23,9 ár til viðbótar.

Frjósemi minnkar

Á sama tíma hefur frjósemi minnkað í öllum Evrópuríkjum. Helsti mælikvarði á frjósemi er fjöldi lifandi fæddra barna á ævi hverrar konu og er yfirleitt miðað við að frjósemi þurfi að vera um 2,1 barn til að viðhalda mannfjölda til lengri tíma litið. Ekkert Evrópuríki var nálægt þessu hlutfalli árið 2023 en það var að meðaltali 1,38 börn í ríkjum ESB. Hæsta hlutfallið var 1,81 barn í Búlgaríu, 1,76 börn í Svartfjallalandi og 1,71 barn í Georgíu.

Hagstofan birti í vikunni tölur um frjósemi íslenskra kvenna á síðasta ári. Hlutfallið var 1,56 og hefur aldrei verið minna frá því að mælingar hófust árið 1853.

Þá hefur meðalaldur íslenskra mæðra hækkað jafnt og þétt hér á landi síðustu áratugi og nú eignast konur sitt fyrsta barn að jafnaði síðar á ævinni en áður. Frá byrjun sjöunda áratugarins og fram yfir 1980 var meðalaldur frumbyrja undir 22 árum en eftir miðjan níunda áratuginn hefur meðalaldur farið hækkandi og var 29,1 ár í fyrra. Sama þróun hefur verið í öðrum Evrópuríkjum. Árið 2023 var meðalaldur frumbyrja 29,8 ár í aðildarríkjum Evrópusambandsins. Elstar voru frumbyrjur á Ítalíu eða 31,8 ára að jafnaði.

Höf.: Guðm. Sv. Hermannsson