kvikmyndir
Helgi Snær
Sigurðsson
Suðurkóreski kvikmyndaleikstjórinn Bong Joon-ho varð heimsfrægur á einni nóttu þegar hann hlaut Óskarsverðlaun fyrir kvikmynd sína Parasite árið 2020, fern verðlaun alls og þeirra á meðal verðlaun fyrir bestu kvikmynd og bestu erlendu kvikmynd. Komst sú mynd líka í sögubækurnar fyrir að vera sú fyrsta á öðru tungumáli en ensku til að hljóta verðlaunin. Parasite var sannarlega vel að öllum sínum verðlaunum komin en þau voru töluvert fleiri í heildina og veitt víða um heim, þar fer frábær kvikmynd og ljóst að Bong myndi varla endurtaka leikinn sem svo varð raunin.
Parasite var framleidd árið 2019 og hefur biðin eftir nýrri mynd frá leikstjóranum því verið ærið löng. En nú er biðin á enda og sú nýja, Mickey 17, með ensku tali og framleidd í Bandaríkjunum og Suður-Kóreu. Miklar væntingar voru gerðar til þessarar myndar og m.a. af þeim er hér rýnir. Því mátti búast við dálitlum vonbrigðum, sem reyndust svo raunin, en á móti kemur að kröfurnar voru gríðarmiklar því fyrri myndir leikstjórans hafa verið fyrirtak og Parasite rúmlega það. En meta skal myndina án samanburðar við aðrar og sem slík er hún býsna góð.
Slæmur samningur
Mickey 17 er vísindaskáldskapur og segir af ungum og nokkuð vitgrönnum manni, Mickey Barnes (Robert Pattinson), sem kemst í hann krappan snemma myndar. Sagan á sér stað í framtíðinni, árið 2054, og til að bjarga eigin skinni skrifar Mickey undir samning um að verða „fórnanlegur“ meðlimur áhafnar geimskips nokkurs. Vinur hans Timo (Steven Yeun) fær mun betra starf á skipinu, er ekki fórnanlegur en Mickey fær hin ýmsu lífshættulegu verkefni og deyr hvað eftir annað og alltaf hroðalega. Líkaminn deyr en hugurinn ekki, hvernig svo sem stendur á því, og nýr Mickey er búinn til í einhvers konar vél sem kalla mætti lífprentara. Með hverjum Mickey hækkar talan og Mickey 17 er því 17. „Mickey-inn“ sem prentaður er út. Eina ljósið í þessari annars dimmu og vægðarlausu tilveru Mickeys er ung kona, Nasha (Naomi Ackie), sem hann kynnist í geimskipinu og fella þau hugi saman.
Verkefni áhafnar geimskipsins er að nema land á plánetu einni sem nefnd er Niflheimur, leggja hana undir sig og gera að nýlendu. Ýmis lífshættuleg verkefni fylgja því og er Mickey eins konar tilraunadýr áhafnarinnar, settur í verkefni sem öll reynast banvæn. Á plánetunni eru fyrir undarlegar verur og heldur ógeðfelldar, minna á bústna orma með beittar tennur. Skipstjóri geimskipsins, hinn vitgranni og grimmi Kenneth Marshall (Mark Ruffalo), einsetur sér að útrýma hinum tenntu ormum með aðstoð vægðarlausrar eiginkonu sinnar, Ylfu (Toni Collette), og kemur enn eitt babbið í bátinn þegar Mickey 17 snýr aftur í skipið úr mikilli hættuför og finnur þar fyrir Mickey 18, mun grimmari útgáfu af sjálfum sér.
Pólitísk ádeila
Eins og sjá má er þetta stórskrítin saga og pólitísk, fjallar um misbeitingu valds af hendi vægðarlauss og vitgranns stjórnmálamanns, Kenneths Marshalls. Hafa ýmsir gagnrýnendur dregið þá ályktun að þessi persóna sé byggð á Donald Trump Bandaríkjaforseta en leikstjóri myndarinnar sagt á móti að hún sé byggð á nokkrum ólíkum stjórnmálamönnum og einræðisherrum í mannkynssögunni. En pólitísk er ádeilan, um það verður varla efast, og það háðsádeila og túlkun leikara í þeim anda. Hún er ýkt og spaugileg og þá einkum hjá aðalleikurunum, þeim Pattinson, Ruffalo og Colette, sem virðast skemmta sér konunglega. Hér eru þau á heimavelli og móta skondnar persónur úr þessum furðulega efniviði. Enski leikarinn Robert Pattinson er líka spaugilegur í hlutverki hinna ýmsu útgáfa af Mickey, mjóróma og með sérkennilegan, bandarískan hreim. Pattinson leysir vel af hendi að túlka þessar ólíku útgáfur Mickeys, þ.e. nr. 17 og 18, og varla hlaupið að því að leika á móti ólíkum útgáfum af sjálfum sér. Mun hann hafa spunnið margt af því sem Mickey lætur út úr sér og fær mann ýmist til að brosa eða hlæja.
Eins og sjá má af söguþræði myndarinnar er mikið um tölvugert myndefni og brellur og þær eru vel úr garði gerðar, einkum þær sem eiga sér stað í illviðri fyrir utan geimskipið á plánetunni Niflheimi. Þessi heimur nýtur sín einkar vel á breiðtjaldi og hljóðmyndin ekki síður í öflugu kerfi.
Leikstjórinn Bong Joon-ho er þekktur fyrir mikla nákvæmni þegar kemur að myndhandritum (e. storyboard), að teikna nokkuð nákvæmlega upp hvert atriði áður en að tökum kemur. Það hefur eflaust sitt að segja þegar kemur að útliti mynda hans en þær eru alltaf mikið augnayndi. Og leikstjórinn kemur víða við því hann mun einnig hafa komið að hönnun hinna undarlegu, vígtenntu geimvera, unnið þar með Jang Hee-chul nokkrum sem einnig vann með leikstjóranum við kvikmyndina The Host (2006). Líkt og í þeirri mynd er hönnun hinna framandi kvikinda skemmtileg og hugmyndarík, líkt og „tal“ þeirra sem samanstendur einfaldlega af furðulegum hljóðum.
Fyrsti hluti myndarinnar er sá skemmtilegasti, þegar persónur eru kynntar til sögunnar og heimurinn sem þær tilheyra. Þessi byrjun er meira í anda gamanmynda á borð við Groundhog Day (1993), þar sem endurtekning og tilbreytingarleysi kitla hláturtaugar áhorfenda, öðru fremur. Það er einkum í lokahluta myndarinnar sem hún tapar skemmtigildi sínu, í uppgjöri manna og geimvera, og fellur í gryfju væmni og einfaldleika.
Í Mickey 17 má sjá ýmis höfundareinkenni Bongs Joon-hos, m.a. áhuga hans á skrímslum og dýravernd (dýrin reyndar geimverur í þessu tilfelli), umhverfismálum og stéttaskiptingu. Þótt ádeilan sé greinileg á vitgranna pólitíkusa, græðgi og skort á samkennd er myndin fyrst og fremst skemmtun og sem slík prýðileg.