Bergur Þorri Benjamínsson/Theódór Skúli Sigurðsson
Reykjavíkurflugvöllur hefur í áratugi gegnt lykilhlutverki í íslensku heilbrigðiskerfi. Fyrir íbúa landsbyggðarinnar, þar sem sérhæfð heilbrigðisþjónusta er oft af skornum skammti, getur sjúkraflug skipt sköpum. Staðsetning flugvallarins í miðborg Reykjavíkur tryggir skjótan aðgang að Landspítalanum, stærsta sjúkrahúsi landsins, og skapar þannig lífsnauðsynlegt öryggisnet fyrir þá sem þurfa á bráðri læknishjálp að halda.
Lífsbjargandi þjónusta
Á hverju ári eru farin hundruð sjúkrafluga frá landsbyggðinni til Reykjavíkur. Í mörgum tilvikum skiptir hver mínúta máli – hvort sem um er að ræða alvarleg slys, hjartaáföll eða fyrirburafæðingar. Sjúkraflugvélar þurfa að lenda sem næst sjúkrahúsinu til að lágmarka flutningstíma sjúklinga, en tafir vegna langra sjúkraflutninga innan borgarinnar geta haft alvarlegar afleiðingar.
Á síðasta ári var farið í 943 sjúkraflug, með 973 sjúklinga. Það er aukning um 3% í sjúkraflugum á milli áranna 2023 og 2024. Um 44% ferða ársins 2024 voru í forgangi F1 og F2. Í 6,4% tilfella var flogið með gjörgæslusjúkling og í 7% tilfella með fleiri en einn sjúkling. [i]
Um Reykjavíkurflugvöll fóru 650 sjúkraflutningar eða tæp 70% af heildarsjúkraflugunum. Bara um þá flugbraut sem nú stendur lokuð fóru 150 flutningar eða 23%. [ii]
Umræða um framtíð flugvallar
Undanfarin ár hefur staðsetning Reykjavíkurflugvallar verið umdeild, en fyrirhuguð skerðing á flugvallarsvæðinu vekur áhyggjur meðal heilbrigðisstarfsfólks og íbúa landsbyggðarinnar. Flutningur eða lokun flugvallarins myndi óhjákvæmilega lengja viðbragðstíma sjúkraflugs og gæti haft neikvæð áhrif á líf og heilsu landsmanna.
Öryggi sjúklinga í forgang
Við uppbyggingu borgarinnar og skipulag framtíðarinnar verður að tryggja að öryggi sjúklinga sé ávallt í forgrunni. Heilbrigðiskerfið á ekki að líða fyrir skipulagsákvarðanir sem geta tafið bráðaþjónustu. Lausnir sem tryggja áframhaldandi skilvirkni sjúkraflugs – með sem skemmstum flutningstíma sjúklinga – verða að vera í forgangi í allri umræðu um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Mikilvægi sjúkraflugs er óumdeilanlegt. Til að tryggja jafnan aðgang allra landsmanna að lífsnauðsynlegri heilbrigðisþjónustu verður að huga vandlega að því hvernig staðsetning flugvallarins hefur áhrif á líf og heilsu sjúklinga um land allt.
[i] https://www.slokkvilid.is/ari-2024-i-toelum
Höfundar hafa viðkynni af sjúkraflugi úr mismunandi áttum.