„Það eru alls konar leiðir og tækifæri í þessum bransa,“ segir Kári Egilsson.
„Það eru alls konar leiðir og tækifæri í þessum bransa,“ segir Kári Egilsson. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Aðalpíanókennarinn minn segir reyndar að ég eigi að fara til New York og reyna fyrir mér á klúbbunum þar.

Tónlistarmaðurinn Kári Egilsson hefur sent frá sér nýja plötu. Platan dregur nafn sitt af texta eins af lögunum og nefnist My Static World. Þetta er þriðja plata Kára og önnur poppplata hans.

„Þessi plata er í svipuðum dúr og platan sem kom út fyrir tveimur árum. Palm Trees in the Snow. Þetta er lagrænt og vonandi vandað popp,“ segir Kári sem semur lög og texta, útsetur, syngur og spilar einnig á píanó, hljómborð og gítar. Hljóðfæraleikarar spila með honum á trommur, gítara og bassa og upptökustjóri er Albert Finnbogason sem spilar á gítar í nokkrum lögum.

„Þetta eru ellefu melódísk lög og textarnir segja oftast sögur. Í einu angurværu lagi, Midnight Sky, er sjónarhornið til dæmis hjá syni geimfara sem er að bíða eftir pabba sínum sem kemur ekki heim,“ segir Kári. „Listakonan Didda Flygenring hefur gert frábært myndband við það sem ég er mjög stoltur af.“

Textarnir eru á ensku. „Það er takmarkaður markaður á Íslandi og sérstaklega fyrir tónlist sem er utan meginstraumsins og svo hentar mér ágætlega að semja enska texta. Ætli megi ekki segja að ég sé alveg tvítyngdur og nú bý ég í Bandaríkjunum,“ segir Kári sem byrjaði að taka upp plötuna 2023. Hann er heldur ekki að slá slöku við því hann er þegar byrjaður að taka upp næstu plötu. Á henni verða tólf lög. „Hún er meira tekin upp „live“ í stúdíó Sundlauginni í Mosfellsbæ í staðinn fyrir að taka upp hvert hljóðfæri fyrir sig eins og á plötunni sem er að koma út núna. Þessi næsta plata kemur út í fyrsta lagi snemma á næsta ári. Þetta er seinleg vinna en ég veit fátt skemmtilegra en að vinna að tónsköpun í hljóðveri. Maður hefur líka aðgang að frábærum músíköntum.“

Kári, sem er nýorðinn 23 ára, er nemandi við Berklee-tónlistarháskólann í Boston. Eftir að hafa farið í áheyrnarpróf í gegnum netið hlaut hann veglegan námsstyrk. Hann segir að styrkurinn geri sér kleift að vera í skólanum, sem er ansi dýr.

„Berklee er einn af þekktustu tónlistarskólum í heimi og þar er mesta áherslan á djasstónlist en einnig popp og rokk. Ég er þarna aðallega í píanónámi en læri líka hljómfræði og fleira.

Ég byrjaði síðasta haust, fékk reyndar heilmikið metið inn úr tónlistarnámi hér heima. Mikilvægast við skólavistina er að hitta jafnaldra til að spila með og drekka í sig andrúmsloftið. Ég fer líka mikið á tónleika í Boston, líka á klassíska tónleika, enda bý ég rétt hjá hinu fræga tónlistarhúsi Symphony Hall. Sá einmitt Víking Ólafsson þar um daginn.

Gráðan er ekki endilega markmiðið með námi af þessu tagi. Ég ætla að sjá til, tek eitt ár í einu. Ég hef lært af fínum kennurum og kynnst góðu og áhugaverðu tónlistarfólki. Aðalpíanókennarinn minn segir reyndar að ég eigi að fara til New York og reyna fyrir mér á klúbbunum þar. En Boston er þægileg borg og mér líður vel þar, fer eiginlega allra ferða minna fótgangandi. Það er auðvelt í Boston.“

Kári er á rektorslista skólans yfir afburðanemendur en vill lítið gera úr þeirri vegsemd. „Það eru margir á þeim lista,“ er það eina sem hann vill segja.

Kári byrjaði í tónlistarnámi sjö ára gamall. Hann var einungis sextán ára þegar hann hlaut hvatningarverðlaun ASCAP, sem eru samtök tónskálda í Bandaríkjunum, en þar var Kári heiðraður sem upprennandi tónskáld og lagahöfundur. Á síðasta ári var hann valinn Bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum. Spurður hvaða máli viðurkenningar skipti fyrir hann segir Kári: „Viðurkenningar eins og þessar eru mikill kostur upp á líðan manns, maður vill auðvitað fá viðbrögð og tónlistin getur verið einmanaleg. Þær geta líka hjálpað í sambandi við styrkjaumsóknir og fleira. Svo er fólk kannski viljugra að mæta á tónleika hjá manni ef maður hefur verið valinn bjartasta vonin. Ég er búinn að koma mér upp fínni hljómsveit og langar til að spila efnið af nýju plötunni sem víðast.“

Ætlar hann í framtíðinni að hafa lifibrauð sitt af því að semja og flytja tónlist? „Já, ég held að ég muni geta það. Ég hef popptónlistina og síðan hef ég mikið verið að spila á djasstónleikum hér og þar. Þar er ég líka með frábæra hljómsveit – þeir eru reyndar flestir nokkuð eldri en ég. Það eru alls konar leiðir og tækifæri í þessum bransa. Ég gæti jafnvel hugsað mér að semja eitthvað í klassískum anda þegar fram líða stundir. “

Spurður um önnur áhugamál en tónlist segir hann: „Í Bandaríkjunum fer ég mikið í kvikmyndahús. Ég hef ekki verið mikill lestrarhestur síðan ég las Harry Potter þegar ég var krakki. Það er farið að breytast og ég tek núorðið með mér bækur á kaffihús frekar en að hanga bara í símanum. Mestan áhuga hef ég á að lesa sagnfræðibækur. Ég er ágætur í skák, og hef stundum eytt miklum tíma í hana, en nú er ég of upptekinn. Hún er mikill tímaþjófur og getur orðið dálítil árátta hjá manni. Það er hins vegar tónlistin sem gefur mér mest, ég er eiginlega alltaf að hugsa um hana, semja eitthvað eða útsetja í kollinum.“

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir