Afsögn Það hefur mikið gengið á síðustu daga hjá Ásthildi. Engu að síður er enn spurningum ósvarað um mögulegan hlut forsætisráðuneytisins.
Afsögn Það hefur mikið gengið á síðustu daga hjá Ásthildi. Engu að síður er enn spurningum ósvarað um mögulegan hlut forsætisráðuneytisins. — Morgunblaðið/Karítas
Ásthildur Lóa Þórsdóttir sagði af sér sem barna- og menntamálaráðherra eftir að í ljós kom að hún hefði haft samræði við unglingsdreng þegar hún var 22 ára gömul. Upphafið að endinum í ráðherrastólnum varð ellefu dögum fyrir afsögn

Hermann Nökkvi Gunnarsson

hng@mbl.is

Ásthildur Lóa Þórsdóttir sagði af sér sem barna- og menntamálaráðherra eftir að í ljós kom að hún hefði haft samræði við unglingsdreng þegar hún var 22 ára gömul. Upphafið að endinum í ráðherrastólnum varð ellefu dögum fyrir afsögn. Í kjölfar afsagnar hennar hafa vaknað spurningar um það af hverju Kristrún Frostadóttir aðhafðist ekkert um þetta mál í viku þrátt fyrir að hafa vitneskju um það.

Einnig hafa stjórnarandstöðuþingmenn sagt að rannsaka þurfi málið vegna mögulegs trúnaðarbrests forsætisráðuneytisins. Er það ásökun sem Kristrún hafnar alfarið.

Þann 9. mars barst beiðni um fimm mínútna fund frá konu að nafni Ólöf Björnsdóttir með tölvupósti til forsætisráðuneytisins. Ekki var tekið fram hvert efni fundarins væri. Þann 11. mars ítrekaði Ólöf beiðnina með tölvupósti.

Ekki frekari samskipti

„Góðan daginn, ég bið um stuttan fund með Kristrúnu Frostadóttur, en það varðar Ásthildi Lóu Þórsdóttur, það er í góðu lagi að hún sitji líka fundinn, ef Kristrún vill það. Liggur á,“ sagði í póstinum.

Sama dag bar aðstoðarmaður Kristrúnar nafn Ólafar undir Ásthildi, en Kristrún sagði ítrekað á blaðamannafundi í gær að erindið væri trúnaðarmál. Er aðstoðarmaðurinn bar nafnið undir Ásthildi kvaðst hún ekki kannast við konuna. Þarna ber sögum Ásthildar og Kristrúnar ekki alveg saman því að forsætisráðherra hefur sagt að aðstoðarmaður sinn hafi haft samband við aðstoðarmann Ásthildar, en ekki Ásthildi.

Samkvæmt upplýsingum frá forsætisráðuneytinu fóru ekki frekari samskipti fram á milli ráðuneytanna, ráðherra og aðstoðarmanna um þetta mál eftir 11. mars.

Þann 13. mars bárust forsætisráðuneytinu upplýsingar um málavexti og erindi fundarins þar sem fram kom saga Ásthildar með drengnum. Kristrún staðfesti á blaðamannafundi í gær að hún hefði séð málavexti þennan dag. Þann 14. mars spurði Ólöf forsætisráðuneytið hvenær málið yrði tekið fyrir og þá fékk hún svar frá ritara forsætisráðherra um að þau hefðu þegar tilkynnt henni fyrr um morguninn að hún fengi ekki fund. Það tók því innan við sólarhring fyrir forsætisráðuneytið að hafna beiðninni eftir að hafa fengið að heyra af málavöxtum.

Fimm dagar liðu

Sunnudaginn 16. mars ákvað Ásthildur að hafa samband við Ólöfu. Þá voru fimm dagar liðnir síðan hún hafði fengið veður af nafni konunnar, sem hún kannaðist ekki við. Þessa fimm daga hafði hún ekki samband við Ólöfu og því velta margir því fyrir sér hvað gerðist frá 11. mars til 16. mars sem olli því að Ásthildur ákvað að taka upp símann og hringja í konu sem hún þekkti ekki vegna fundar sem forsætisráðherra hafði verið beðinn um, ekki Ásthildur.

Það sem við vitum að gerðist í millitíðinni er að 13. mars bárust forsætisráðuneytinu upplýsingar um málavexti og hafa stjórnarandstöðuþingmenn kallað eftir því að rannsakað verði hvort þarna hafi orðið trúnaðarbrestur. Þ.e.a.s. hvort Kristrún eða aðstoðarmenn hennar hafi komið áleiðis efnistökum bréfsins 13. mars til Ásthildar. Kristrún hefur ítrekað hafnað því.

Þann 17. mars reyndi Ásthildur að ná tali af Ólöfu og svo reyndi hún að hringja í þrígang í hana 18. mars. Ekki tókst að ná sambandi við hana og því ákvað Ásthildur að mæta heim til konunnar þar sem eiginmaður Ólafar ræddi við Ásthildi.

Hinn 19. mars hringdi Ólöf í Ásthildi Lóu, að sögn Ásthildar, og þá spurði Ásthildur hana hvort hún ætlaði með málið í fjölmiðla. Að sögn Ásthildar sagði konan svo ekki vera. Kristrún sagði á blaðamannafundinum í fyrrakvöld að 20. mars hefði hún fengið staðfest sannleiksgildi erindisins, sem henni barst 13. mars, fyrir tilstuðlan fjölmiðla. Kristrún fundaði þann dag með Ásthildi Lóu, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og Ingu Sæland og niðurstaða fundarins var sú að Ásthildur myndi segja af sér.

Ríkisútvarpið greindi svo frá því klukkan 18 í fyrrakvöld að Ásthildur hefði átti barn með dreng sem hún kynntist í trúarsöfnuði. Rúmri hálfri klukkustund síðar sagði Ásthildur af sér.

Höf.: Hermann Nökkvi Gunnarsson