Ég er alin upp við mikinn bóklestur og virðingu við bækur. Það var toppurinn eftir sundferð að fara á Bókasafnið í Hveragerði, sem lyktaði af þykku teppi, gömlum blaðsíðum og ótal ævintýrum. Allir fjölskyldumeðlimir völdu sér bók og það var heilög stund þegar mamma eða pabbi lásu okkur systkinin í svefn. Sú athöfn keppti ekki við neina miðla um athygli okkar, þetta var gæðastund sem fylgdi okkur inn í öryggi draumalandsins. Sem barn leit ég á það sem dauðasynd að bretta upp á blaðsíður í stað þess að nota bókamerki eða krota í bækur. Það hefur þó aðeins breyst með árunum, auknum bókakaupum og rísandi stafla af sjálfshjálparbókum á náttborðinu. Þá er yfirstrikunarpenninn (og lesgleraugun) aldrei langt undan.
Líkaminn geymir allt eftir Bessel van der Kolk er ein af þeim bókum sem eru aldrei í hættu að grafast undir bókastaflanum. Bókin, sem stundum er kölluð áfallabiblían, nálgast efnið á faglegan og skiljanlegan hátt og stækkar hvern þann sem les hana með opnum huga.
Í þennan flokk fellur líka Gáfaða dýrið eftir Sæunni Kjartansdóttur. Auðlesin og upplýsandi bók um mikilvægi þess að þekkja dýrið sem í okkur býr. Bókin opnaði augu mín fyrir mannlegri hegðun, viðbrögðum og mikilvægi sjálfsþekkingar sem nýtist mér bæði í leik og starfi.
Síðust en ekki síst trónir á náttborðinu hin eina sanna bók Meðvirkni eftir Pia Mellody. Ég veit varla hvað ég get sagt annað en: „Í guðanna bænum lesið þessa bók.“ Meðvirkni er víða og ef við erum svo heppin að glíma ekki við hana sjálf, er nokkuð öruggt að við þekkjum nokkra í nærumhverfinu sem gera það. Þessa bók ætti að upphefja sem símaskrá nútímans og velja henni stað í hjarta hvers heimilis.
Þegar ég fer út að ganga hlusta ég gjarnan á hljóðbækur. Þessa dagana er ég á fimmtu bókinni, Mánasystirin, í seríunni Sjö systur eftir Lucinda Riley og mæli heilshugar með.
Góður vinur minn mælti svo með bókinni Tjörnin eftir Rán Flygenring sem hann les reglulega fyrir afastrákana sína. Hún er næst á listanum mínum. Þar er á ferð djúp samskiptasaga fyrir náttúrubörn á öllum aldri. Ég hlakka til.