Dóra Ósk Halldórsdóttir
doraosk@mbl.is
Í könnun sem lögð er fyrir grunnskólanemendur í 4.-10. bekk árlega á vegum Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar kemur í ljós að 85% barna segja fjárhagsstöðu fjölskyldunnar góða, 14% segja hana miðlungs og 1% segja hana slæma eða mjög slæma.
Þessar upplýsingar komu fram í erindi Sigrúnar Daníelsdóttur, verkefnastjóra geðræktar hjá embætti landlæknis, sem hún hélt á málþingi á alþjóðlega hamingjudeginum sl. fimmtudag í Háskóla Íslands, um líðan, tengsl og öryggi barna eftir fjárhagsstöðu, en unnið var með gögn 6.-10. bekkjar. „Í þessu samhengi þarf að benda á að ef maður horfir á opinber gögn frá Hagstofu er hlutfall barna sem búa a heimilum undir lágtekjumörkum miklu hærra hlutfall en 1%, eða 13%, og þarf að hafa í huga að hér eru börn að meta stöðuna og ekki hægt að alhæfa og segja að öll börn sem búa við þrengri kost séu einsleitur hópur.“
Munar tugum prósenta
Hún segir að í könnuninni séu skoðaðar margar breytur og þau börn sem upplifi verri fjárhagsstöðu fjölskyldu séu töluvert mikið verr stödd en önnur börn. „Þau eru m.a. líklegri til að upplifa depurð og kvíða nær daglega, lenda í slagsmálum, vera þolendur eða gerendur í einelti, hafa orðið fyrir ofbeldi af hálfu foreldris eða annars fullorðins í fjölskyldu, upplifa sig einangruð í skólanum. Í öllum þessum þáttum voru þau verr stödd en þau sem mátu fjárhagsstöðu fjölskyldunnar góða. 23% þessara barna meta lífsánægju sína litla en aðeins 2% barna sem mátu fjárhagsstöðu fjölskyldunnar góða segja lífsánægju sína litla. Það er sláandi munur.“
Ofarlega í hamingjukönnunum
Sigrún segir að Norðurlandaríkin raði sér yfirleitt í efstu sætin í hamingjukönnunum. „Í norrænu velferðarþjóðfélögunum er meiri jöfnuður en víða annars staðar og það skiptir máli. Við þurfum að líta til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um velferð barna og láta okkur ekki nægja að flest börn séu í góðum málum, því ekkert barn á að vera skilið eftir. Við eigum að geta gripið þennan litla hóp í svona ríku og velmegandi landi.“
Sigrún segir mikilvægt að skólakerfið og aðrir sem koma að daglegu lífi barna séu meðvitaðir um að börn geti átt misjafnt bakland og eigi sum erfitt með að treysta fullorðnum. „Það eru svo mörg tækifæri til að snúa hlutum til betri vegar meðan börn eru enn þá börn. Þetta ætti að vera viðráðanlegt verkefni fyrir okkur sem velmegandi samfélag.“