Guðrún Steingrímsdóttir fæddist 23. febrúar 1957. Hún lést 6. mars 2025.

Jarðarför hefur farið fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Hljómaði harpa

á heiðum morgni

björt og himinhrein.

Sungu sólfagrir

silfurstrengir

óð hins unga vors.

Hljóðnuð er harpa

við hálfnað lag.

Ríkir þögn – og þó

leika ljúflega

frá lagi því

tónar um tregans sal.

Harma skal ei horfna

hörpu þína,

vinur söngs og vors.

Muna skal á meðan

minning vakir

hljóminn þann inn hreina.

(Jónas Tryggvason)

Ég kveð elsku Gunnu með þakklæti fyrir allar góðu stundirnar okkar og óska þér góðrar ferðar í sumarlandið mín kæra vinkona.

Innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldunnar.

Þín vinkona,

Margrét Jónsdóttir.

Enn og aftur er höggvið stórt skarð í okkar einstaka vinahóp, Skjálftavaktina. Fyrir rétt rúmu ári þurftum við að fylgja Bryndísi okkar og nú Gunnu. Þær tvær voru einstakir gleðigjafar í okkar vinahópi sem hefur haldist þétt vinaband í 50 ár og rúmlega það. Þær voru sannarlega gleðisprengjurnar okkar.

Við vitum líka að nú hafa átt sér stað fagnaðarfundir í sumarlandinu hjá henni og Inga sem hún saknaði svo mikið alla tíð.

Gunna var alveg einstök að taka öllum áföllum með húmorinn að vopni og lét aldrei bugast. Hún hélt reisn sinni vel við andlát Inga og gat alltaf sagt frá gleðilegum atburðum og lífi þeirra beggja og gert grín að sjálfri sér. Og það gerði hún alla tíð fram á síðasta dag.

Gunna fékk okkur alltaf til að taka undir í söng og sagði skemmtilega frá hverju sem var. Við veltumst um af hlátri að öllu sem henni datt í hug. Gunna elskaði að syngja og þegar við sungum saman átti hún það til að detta í að radda með sinni rödd sem annar sópran og gerði það einstaklega vel. Gleðin og húmorinn var hennar helsta aðalsmerki.

Saman höfum við brallað margt, bæði innanlands og utan. Höfum farið í bústaðarferðir á hverju hausti og eins farið í ferðir erlendis á um það bil tveggja ára fresti. Gunnu mátti helst aldrei vanta því þá var minna fjör í hópnum. Og þegar við vorum með þemahelgar þá fór okkar kona á kostum, hvort sem var sem þýskur kokkur, fulltrúi stríðsáranna, hvað þá ein af ABBA-genginu. Já það var oft mikið stuð á okkur í Hveragerði en þar vorum við í sama húsinu í yfir 20 ár. Við sátum saman við borðstofuborðið og gerðum handavinnu af alls konar tagi, enda stelpur úr saumadeild. Húsið geymir fullt af dásamlegum minningum, gráti og hlátri.

Gunna hafði mikinn áhuga á okkur öllum og okkar fjölskyldum og hvernig allir hefðu það. Vildi fylgjast vel með. Ekki var leiðinlegt að fá matboð heima hjá henni, sérstaklega ef hún bauð í Arnheiðarsteik með Ora-grænum og rauðkáli, og Royal-búðing í eftirrétt.

Elsku Gunna. Okkur finnst ekki komið að kveðjustund, heldur eins og við sögðum við Bryndísi, bara bless í bili. Við munum allar hittast síðar og taka morgunsönginn okkar „Góðan daginn frú mín góð“. Við sem eftir stöndum verðum heldur daprar í næsta septemberhittingi að hafa hvorki Gunnu né Bryndísi. En við munum lyfta upp huganum í anda Gunnu og hugsa til þín elsku besta vinkona með gleðina og hláturinn að vopni.

Þínar vinkonur á Skjálftó,

Ester, Eygló, Hafdís, Ingibjörg, Jóhanna, Kristín, Ólöf og Þóra.