Guðmundur Sv. Hermannsson
gummi@mbl.is
Systir höfundar nýrrar bókar um Geirfinnsmálið gaf í vikunni formlega skýrslu hjá lögreglunni á Suðurlandi þar sem hún kom á framfæri upplýsingum sem systkinin búa yfir um hvarf Geirfinns Einarssonar.
„Við fórum með málið til lögreglu vegna þess að við teljum, eftir ítarlega rannsókn á málinu, að hvarf Geirfinns Einarssonar hafi borið að með saknæmum hætti. Hann hafi beðið bana í átökum við mann, sá maður sé á lífi, og lykilvitni, fleiri en eitt, sem vita hvað gerðist, eru á lífi. Þess vegna er um að ræða virkt sakamál. Og vegna þess að við erum orðin sannfærð um það sjálf að svo sé og höfum gögn sem við teljum styðja þetta, þá ákváðum við að fara með málið til lögreglu,“ segir Soffía Sigurðardóttir við Morgunblaðið.
Hún segist hafa farið til lögreglunnar á Selfossi vegna þess að hún býr þar sjálf.
Sveinn Rúnar Kristjánsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, staðfesti við Morgunblaðið að Soffía hefði gefið formlega skýrslu hjá embættinu. Málið yrði nú væntanlega sent áfram til lögreglustjórans á Suðurnesjum, en rannsóknin á hvarfi Geirfinns hófst hjá lögreglunni í Keflavík, eins og embættið hét þá, í nóvember árið 1974.
Vitni að átökum
Bókin, Leitin að Geirfinni, byggist á rannsókn sem Soffía og bókarhöfundurinn, Sigurður B. Sigurðsson bróðir hennar, unnu að í sjö ár ásamt Jóni Ármanni Steinssyni, sem er útgefandi bókarinnar. Einn viðmælenda í bókinni segist hafa orðið vitni að því sem ungur drengur að Geirfinnur hafi orðið undir í átökum við annan mann að kvöldi 19. nóvember 1974. Hafi hann væntanlega hlotið bana af samkvæmt frásögninni en átökin hafi byrjað fyrir utan heimili Geirfinns og haldið áfram í bílskúrnum. Nafn vitnisins kemur ekki fram en einnig er vísað til nágranna sem hafi heyrt öskur og læti koma frá húsinu þetta kvöld.
Fram hefur komið í Morgunblaðinu að Jón Ármann hafi ritað ráðuneytisstjóranum í dómsmálaráðuneytinu bréf þar sem fram kemur að öll gögn sem urðu til við rannsóknir vegna bókarinnar verði afhent dómsmálaráðherra. Þar á meðal eru viðkvæmar upplýsingar og vísbendingar úr rannsókninni sem ekki birtust í bókinni en bókarhöfundar telja að eigi heima hjá yfirvöldum sem geti rannsakað slíkar vísbendingar í krafti rannsóknarheimilda ef áhugi er fyrir hendi. Hefur Jón Ármann sagt við blaðið að gögnin kalli á að rannsaka mannshvarfið upp á nýtt og út frá allt öðrum forsendum en gert var á sínum tíma.
Bókarhöfundar hafa einnig haft samband við embætti ríkissaksóknara en fengið þau svör að þar væri ekki hægt að taka við gögnunum vegna fjölskyldutengsla ríkissaksóknara og eins af rannsakendunum í sakadómi á sínum tíma. Þá hafi embættið bent á að rétt sé að vísbendingar eða nýjar upplýsingar í sakamálum eigi heima í lögregluumdæminu þar sem rannsóknin hófst.
Soffía segist ekki hafa afhent lögreglunni þessi gögn og ekki heldur nafngreint þann sem segist hafa orðið vitni að atburðum umrætt kvöld. Soffía telur sig hins vegar hafa veitt lögreglunni nægar upplýsingar til að hún geti metið hvort rétt sé að taka málið til rannsóknar. Lögregla geti þá kallað eftir nánari upplýsingum og gögnum ef hún telur ástæðu til.
„Það hefur verið mikilvægt leiðarljós í okkar vinnu, að það sé jafn áríðandi að skoða það sem rennir stoðum undir það sem okkur sýnist vera og það sem rennur stoðum undan því sem okkur sýnist vera. Það er talsvert síðan þetta vitni kom fram, sem segist hafa horft á það sem gerðist, og við tókum okkur góðan tíma til að kanna áreiðanleika þess og skoða hvað renndi stoðum undir frásögnina og hvað renndi stoðum undan henni. Og sú skoðun hefur ekki grafið undan þeirri frásögn,“ segir Soffía.
Lögreglan í Keflavík hætti rannsókn málsins sumarið 1975 og var málið þá óleyst mannshvarf. Síðar var málið tekið upp í Reykjavík og voru þrír menn dæmdir fyrir aðild að morði Geirfinns árið 1980. Málið var tekið upp að nýju áratugum síðar og því lauk með sýknudómi í Hæstarétti 2018. Frá þeim tíma telst hvarf Geirfinns óupplýst mannshvarf.
Geirfinnsmálið
Óupplýst mannshvarf
Síðast spurðist til Geirfinns Einarssonar að kvöldi 19. nóvember 1974. Þegar vinnufélagi Geirfinns ætlaði að sækja hann á heimili hans í Keflavík morguninn eftir var honum tjáð að Geirfinnur hefði ekki skilað sér heim um nóttina.
Vinnuveitandi Geirfinns tilkynnti lögreglu formlega að Geirfinnur hefði ekki komið í leitirnar um klukkan níu að morgni 21. nóvember og í kjölfarið hófst rannsókn lögreglunnar á hvarfinu.