Viðvera Freigátan Louise-Marie sést hér við bryggju á Akureyri en hún tilheyrir fastaflotanum. Tvö önnur herskip voru í gær vestur af landinu.
Viðvera Freigátan Louise-Marie sést hér við bryggju á Akureyri en hún tilheyrir fastaflotanum. Tvö önnur herskip voru í gær vestur af landinu. — Morgunblaðið/Þorgeir Baldursson
Minnst þrjú herskip úr fastaflota Atlantshafsbandalagsins (NATO) eru nú hér við land og lá í gær eitt þeirra við bryggju á Akureyri. Hin tvö voru þá vestur af Vestfjörðum, en áður hafði sést til skipanna út af Austfjörðum

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Minnst þrjú herskip úr fastaflota Atlantshafsbandalagsins (NATO) eru nú hér við land og lá í gær eitt þeirra við bryggju á Akureyri. Hin tvö voru þá vestur af Vestfjörðum, en áður hafði sést til skipanna út af Austfjörðum. Er þetta liður í auknu eftirliti NATO með hafsvæðinu sem myndar hið svokallaða GIUK-hlið, þ.e. svæðið sem nær frá Grænlandi um Ísland til Bretlands. Lína þessi er lykill í kafbáta- og herskipavörnum á Norður-Atlantshafi.

NATO segir GIUK-hliðið, þ. á m. hafsvæðið um Ísland, kjörið til æfinga fyrir siglingar á norðurslóðum. Mikilvægt sé að bandalagið búi yfir þeim styrk sem þarf til að tryggja öfluga fótfestu í þessum heimshluta, enda eigi sjö af átta norðurskautsríkjum aðild að Atlantshafsbandalaginu. Rússland er eitt undanskilið.

Mikilvægt hafsvæði NATO

Arjen S. Warnaar, yfirskipherra í hollenska sjóhernum, segir þessa æfingu fastaflota NATO hafa verið stífa og unna í nánu samstarfi við Landhelgisgæslu Íslands og danska sjóherinn.

„Á sama tíma höfum við aukið þekkingu okkar á svæðinu verulega. Og á það við jafnt á hafi og í lofti. Mjög gagnleg og skilvirk þjálfun á afar mikilvægu svæði,“ segir hann.

Æfing sem þessi er NATO nauðsynleg, eykur m.a. viðveru herskipa á hafsvæði bandalagsins og stuðlar að enn nánari samvinnu aðildarríkjanna.

Fastaflotinn

Flaggskip fastaflotans er hollenska freigátan HNLS Tromp (F803) og er það afar vel búið vopnum, ekki síst til að verjast stýriflaugum og öðrum ógnum úr lofti. Tromp var í gær staðsett vestur af landinu ásamt þýska tankskipinu Rhön (A1443).

Freigátan Louise-Marie (F931) frá Belgíu var þá við bryggju á Akureyri.

Höf.: Kristján H. Johannessen