Viðar Guðjónsson
vidar@mbl.is
Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að skoða þurfi af hverju Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra aðhafðist ekkert í viku eftir að hafa fengið alvarlegt erindi um barna- og menntamálaráðherra.
„Það hefur komið fram að vika hafi liðið frá því að forsætisráðherra var upplýstur um málið og þar til eitthvað var gert. Í ljós hefur komið að ekkert var gert fyrr en fjölmiðlar hófu að hafa samband. Mér finnst það allrar rannsóknar virði,“ sagði Guðrún í samtali við mbl.is í gær.
Hún segir að meðferð trúnaðarupplýsinga í forsætisráðuneytinu veki margar spurningar.
„Borgari kemur með erindi í trúnaði til forsætisráðherra en svo er annar ráðherra mættur heim til viðkomandi. Öllu þessu á eftir að svara. Enn sem komið er hefur ekki verið mikill trúverðugleiki yfir þeim svörum sem forsætisráðherra hefur borið á borð. Forsætisráðherra er æðsti trúnaðarmaður þjóðarinnar. Mér finnst það mjög alvarlegt ef rof hefur orðið á þeim trúnaði,“ segir Guðrún.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, sýnir því fullan skilning að Ásthildur Lóa hafi sagt af sér. Hann segir það vekja spurningar hvernig haldið var á málum í forsætisráðuneytinu og að margt bendi til þess að trúnaðarbrestur hafi orðið.
„Það sem er áhugaverðara við þetta mál er hvernig það verður til. Af hverju var leitað til forsætisráðuneytisins? Hvenær var það gert og á hvaða forsendum? Var verið að leita til forsætisráðuneytisins sem ábyrgðaraðila ríkisstjórnarinnar þegar kemur að siðferði? Voru þetta trúnaðarupplýsingar? Hversu lengi hafði forsætisráðuneytið það til umfjöllunar og í hvaða farveg átti málið að fara? Hvað gerðist þegar upplýsingarnar fóru til mennta- og barnamálaráðherrans? Þetta eru allt spurningar sem þarf að svara,“ segir Sigurður Ingi.