Kristrún Frostadóttir er glaðleg á svip enda ákveðin í því að breyta íslensku þjóðfélagi til hins betra, eins og aðrar valdamiklar kynsystur hennar.
Kristrún Frostadóttir er glaðleg á svip enda ákveðin í því að breyta íslensku þjóðfélagi til hins betra, eins og aðrar valdamiklar kynsystur hennar. — Morgunblaðið/Karítas
Sumum karlmönnum virðist finnast það verulega óþægileg að konur safnist saman í valdastöður og séu áberandi í þjóðfélaginu.

Sjónarhorn

Kolbrún Bergþórsdóttir

kolbrun@mbl.is

Fyrir einhverjum vikum var pistlahöfundur á veitingastað og heyrði á tal tveggja karlmanna. Sá eldri sagði við þann yngri: „Nú eru konur búnar að taka völdin. Einu sinni voru þær aðallega í menningargeiranum en nú eru þær alls staðar. Sjáðu bara: Forsetinn er kona, forsætisráðherrann er kona, biskupinn er kona, borgarstjórinn er kona…“ og áfram taldi hann. Ungi maðurinn brást hinn versti við, upphóf raust sína og fór fullur eldmóðs með jafnréttisræðu sem formaður Femínistafélagsins hefði verið fullsæmdur af. Það kom á eldri manninn, hann virtist sjá fram á vík milli vina og tautaði, mest fyrir siðasakir, að kannski væri þetta alls ekki jafn slæmt og það liti út fyrir að vera.

Nokkru seinna var pistlahöfundur á öðrum veitingastað þar sem hún rakst á vin sinn sem þar var með vini sínum. Hún settist hjá þeim og ekki leið á löngu þar til vinur vinarins tók að andvarpa og sagði að konur væru orðnar full valdamiklar. Hann sneri sér að vini pistlahöfundar og spurði: „Er virkilega ekki hægt að gera eitthvað í þessu?“

Svo liðu vikur og pistlahöfundur hitti kunningja sinn, sem er vel við aldur. Hann sagði henni í óspurðum fréttum að hann væri engan veginn ánægður með ástandið í þjóðfélaginu, þar sem konur væru farnar að stjórna svo til öllu og lítið sem ekkert pláss væri fyrir karla. „Ég hef alls ekkert á móti konum en þetta gengur ekki,“ sagði hann og kvaddi þungbúinn.

Sú sem þetta skrifar verður að viðurkenna að þau viðhorf sem hún varð vitni að hjá þessum þremur karlmönnum komu henni stórlega á óvart. Hún er reyndar kona sem kemst nálægt því að sofna í hvert sinn sem hún heyrir orðið „feðraveldi“. Henni leiðast einfaldlega alveg ógurlega þröngar skilgreiningar sem byggjast á alhæfingum, eins og um karlmenn sem stétt sem kúgar konur. Hún myndi heldur aldrei leggja það á sig að lesa bók um hina svokölluðu „þriðju vakt“, sem snýst víst um það hver á heimilinu eigi að setja í uppþvottavél. Pistlahöfundur er sem sagt ekki herskár femínisti sem hrópar slagorð á torgum. Hún er vitanlega jafnréttissinni, henni finnst alveg ótækt að lifa án þess að vera það. Maður á að elska jafnréttið eins og frelsið. Eftir þessar þrjár uppákomur þar sem karlar kvörtuðu undan valdatöku kvenna hvarflaði hins vegar að henni að hún væri kannski full grandalaus þegar kemur að hræðslu karla gagnvart konum. Sumum karlmönnum virðist þykja verulega óþægilegt að konur safnist saman í valdastöður og séu áberandi í þjóðfélaginu. Þeir sjá ógn í því. Það er eins og tilveru þeirra hafi verið raskað allverulega.

Pistlahöfundi finnst afskaplega skemmtileg tilbreyting að konur séu áberandi í helstu valdastöðum. Það er fínt að borgarstjórinn sé kona, þótt eiginlega enginn kæri sig um þann meirihluta sem kominn er til valda í Reykjavík. Forsætisráðherrann er að standa sig ljómandi vel í ríkisstjórn sem líkleg er til góðra verka. Það er gott að hafa konu sem forseta Íslands þótt það sé óneitanlega slæmur galli á núverandi forseta að vilja helst ekki skrifa nafnið sitt upp á íslensku. Kannski lítur forsetinn á sig sem útflutningsvöru og þá er þægilegra að skrifa Halla Tomas en ekki Halla Tómasdóttir. Biskupinn er kona og henni hefur tekist að auka trú almennings á þjóðkirkjunni. Guð blessi hana fyrir það.

Pistlahöfundur hitti gamlan og góðan vin úr blaðamannastétt á dögunum og nefndi við hann hversu órólegir henni sýndust einhverjir karlmenn vera vegna tilveru kvenna í valdastörfum. Hann sagðist sömuleiðis hafa hitt karlmenn sem væri verulega brugðið vegna framgangs kvenna. Þeim liði greinilega eins og verið væri að troða á sjálfsögðum rétti karlmanna til valda og áhrifa.

Það er sannarlega ýmislegt í þessum heimi sem ástæða er til að hræðast. Pistlahöfundi finnst þó fjarska einkennilegt að árið 2025 séu konur og framgangur þeirra meðal þess sem karlar telja ríka ástæðu til að vara við.