Innkaup Í verslunarháttum nútímans er leitast við að búðarferðin sé jákvæð upplifun fyrir viðskiptavinina. Í matvöruverslunum gengur fólk gjarnan frá sínum viðskiptum á sjálfsafgreiðslukössum en starfsfólkið veitir ráðin.
Innkaup Í verslunarháttum nútímans er leitast við að búðarferðin sé jákvæð upplifun fyrir viðskiptavinina. Í matvöruverslunum gengur fólk gjarnan frá sínum viðskiptum á sjálfsafgreiðslukössum en starfsfólkið veitir ráðin. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Verslunin þarf starfsfólk með sérfræðiþekkingu og þeirri þörf viljum við svara,“ segir dr. Edda Blumenstein, lektor og fagstjóri við Háskólann á Bifröst. Góð aðsókn hefur verið í nám í verslunarstjórnun og þjónustufræðum við viðskiptafræðideild skólans sem hefur nú verið endurmetið

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Verslunin þarf starfsfólk með sérfræðiþekkingu og þeirri þörf viljum við svara,“ segir dr. Edda Blumenstein, lektor og fagstjóri við Háskólann á Bifröst. Góð aðsókn hefur verið í nám í verslunarstjórnun og þjónustufræðum við viðskiptafræðideild skólans sem hefur nú verið endurmetið. Námslínan í stjórnun í verslun og þjónustu er afrakstur þess starfs, sem er eina sérhæfða menntunin á sínu sviði á landinu. Þar er leitast við að mæta kröfum um faglega hæfni og sérþekkingu. Kenningar úr fræðum viðskipta, verslunar, þjónustu og markaðssetningar eru þræðir námsins hvar nemum gefast tækifæri til að leggja grunn að ferli í mikilvægri atvinnugrein.

Breytingar á kauphegðun og alþjóðlegri samkeppni

„Kauphegðun neytenda er að breytast og alþjóðleg samkeppni að aukast. Auk þess kemur til aukin tæknivæðing; samanber að nú afgreiðir fólk sig gjarnan sjálft, bæði í sjálfsafgreiðslukössum eða með símanum. Fyrir vikið breytist vinna starfsfólksins sem sinna þarf öðrum og ef til vill flóknari verkefnum sem krefjast nýrrar þekkingar. Hér er því verið að skapa nýja kynslóð leiðtoga og sérfræðinga í verslun og þjónustu. Hingað til hefur námsframboð á þessu sviði verið takmarkað og ekki fyllilega svarað þörfum markaðar. Á meðan hafa störfin breyst mikið og svo verður áfram. Þróunin er afar hröð,“ segir Edda.

Við uppsetningu á námslínu þeirri sem hér er til umfjöllunar hafa fulltrúar verslunarfyrirtækja í samstarfi við Háskólann á Bifröst lagt margt gott af mörkum, segir Edda. Miklu hafi til dæmis skipt að fá innlegg þeirra um hvaða þekking og færni skipti mestu til að efla samkeppnishæfni og ímynd atvinnugreinarinnar. Nám þetta er að mestu leyti kennt yfir netið eins og annað sem Bifröst býður.

Klárir krakkar verða verslunarstjórar

Algengt er að í matvöruverslunum starfi unglingar, kannski 15-16 ára, og séu þá að raða í hillur og aðstoða viðskiptavini sem spyrja um krydd, klósettpappír, sinnep, sítrónur og Cheerios. Hvar er þetta og hitt? Spjari þessir krakkar sig vel eru þau fyrr en varir orðin vaktstjórar í versluninni eða komin í önnur ábyrgðarmeiri störf. Þetta sjá viðskiptavinir og oft séu þeir fastir viðskiptavinir yfir lengri tíma í einstaka búðum.

„Þau sem byrja á gólfinu og vinna sig upp eru afar verðmætt starfsfólk því þau hafa fjölbreytta reynslu sem nýtist þeim vel til að takast á við stjórnun í framtíðinni. Reynslan er eitt en það er afar mikilvægt að auka fagmenntun í greininni. Íslensk verslun og þjónusta hefur lengi stólað á að starfsfólk læri í starfi, sem er mjög mikilvægt. Þó að þessi leið sé enn gild er þróunin samt sú að verslunarfyrirtækin þurfa sífellt meiri sérþekkingu, meðal annars í gagnalæsi og stafrænni umbreytingu.“

Netverslun á Íslandi er í örum vexti

Samanber hina stafrænu þróun er netverslun á Íslandi í örum vexti. Samkvæmt tölum frá Rannsóknarsetri verslunarinnar var velta í netverslun, innlendri og erlendri, 75,6 milljarðar kr. árið 2023 sem samsvarar um 13% af heild. Þá hefur netverslun með vörur, þar sem undanskilinn er matur, drykkur, flug og þjónusta, þróast þannig að fleiri velja erlendar netverslanir en innlendar. Í hve miklum mæli fólk gengur nú frá sínum innkaupum í póst- eða netverslunum er nokkuð sem tók vel við sér í heimsfaraldrinum og hefur haldist.

„Þeirri þróun, að fólk skipti fremur við erlendar en innlendar verslanir, verður að svara. Þar spilar menntun mikilvægt hlutverk. Verslunarfólk framtíðarinnar þarf að hafa fjölbreytta þekkingu og geta mætt nýjum áskorunum, skilja neytendahegðun, geta greint og nýtt gögn til ákvarðanatöku, tileinkað sér nýsköpun og veitt viðskiptavinum heildræna og persónumiðaða upplifun,“ segir Edda Blumenstein.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson