Ásthildur Lóa Þórsdóttir er tólfti ráðherrann sem
segir af sér embætti á rúmri öld, eða frá árinu 1923.
Hér á eftir verða ráðherrarnir taldir upp í tímaröð.
Magnús Jónsson
1923 Sagði af sér embætti fjármálaráðherra vegna ásakana um spillingu og eyðslusemi. Magnús var ráðherra utan flokka.
Magnús Guðmundsson
1932 Sagði af sér sem dómsmálaráðherra eftir að hafa verið dæmdur í fangelsi, sakaður um ólöglegt athæfi í lögmannsstörfum. Það var Jónas Jónsson frá Hriflu sem bar hann sökum en Hermann Jónasson dæmdi í máli Magnúsar. Hann var síðan sýknaður í Hæstarétti af öllum ákærum og tók við embætti á nýjan leik. Magnús sat á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Jóhann Sæmundsson
1943 Sagði af sér sem félagsmálaráðherra í utanþingsstjórn á tíma seinni heimsstyrjaldar, vegna deilna um efnahagsaðgerðir.
Albert Guðmundsson
1987 Sagði af sér embætti iðnaðarráðherra eftir að í ljós kom að hann hafði vantalið tekjur fram til skatts fyrr á þeim áratug. Albert var þingmaður Sjálfstæðisflokksins og borgarfulltrúi til margra ára.
Guðmundur Árni Stefánsson
1994 Sagði af sér embætti félagsmálaráðherra eftir skýrslu Ríkisendurskoðunar um embættisfærslur hans. Guðmundur Árni sat á Alþingi til ársins 2005. Hann er aftur mættur til leiks í stjórnmálum og er varaformaður Samfylkingarinnar.
Björgvin G. Sigurðsson
2009 Sagði af sér embætti viðskiptaráðherra og axlaði þar með ábyrgð sína á því sem miður fór í kjölfar bankahrunsins. Björgvin sat á Alþingi fyrir Samfylkinguna.
Ögmundur Jónasson
2009 Sagði af sér embætti heilbrigðisráðherra og var sú niðurstaða rakin til ágreinings á milli Samfylkingarinnar og hluta þingflokks Vinstri-grænna um Icesave-málið. Ögmundur sat á þingi fyrir Vinstri-græna.
Hanna Birna Kristjánsdóttir
2014 Sagði af sér embætti innanríkisráðherra í kjölfar þess að svokallað „lekamál“ kom upp. Hanna Birna sat á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
2016 Sagði af sér embætti forsætisráðherra. Hann er sá fyrsti og eini sem sagt hefur sig frá því embætti. Afsögn Sigmundar Davíðs kom í kjölfar uppljóstrana á svokölluðum Panamaskjölum. Þegar þetta gerðist var Sigmundur formaður Framsóknarflokksins.
Sigríður Á. Andersen
2019 Sagði af sér embætti dómsmálaráðherra vegna svonefnds Landsréttarmáls, en sú varð ákvörðun hennar eftir niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu um að skipun landsréttardómara uppfyllti ekki skilyrði mannréttindasáttmála Evrópu. Sigríður sat á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Bjarni Benediktsson
2023 Sagði af sér embætti fjármála- og efnahagsráðherra eftir að fram kom álit umboðsmanns Alþingis um að hann hefði skort hæfi til að taka ákvörðun um sölu á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka hf. Bjarni var þá formaður Sjálfstæðisflokksins. Hann tók við embætti utanríkisráðherra.
Ásthildur Lóa Þórsdóttir
2025 Sagði af sér embætti barna- og menntamálaráðherra í kjölfar fréttar RÚV um að hún, þá 22 ára, hefði átt samræði við 15 ára gamlan dreng og eignast með honum barn.