Hér er því lýst að alþjóðalög gera smáþjóð með sterk rök að vopni kleift að auka yfirráðarétt sinn. Gæsla svæðisins er vandasöm.

Vettvangur

Björn Bjarnason

bjorn@bjorn.is

Fréttir eru oftast um mál eða atvik sem valda ekki endilega þáttaskilum. Þar er lýst gangi hluta í þekktum farvegi eða atvikum sem kalla á athygli þá stundina. Í vikunni sem nú er að líða var skýrt frá niðurstöðu í stóru hagsmunamáli þjóðarinnar sem unnið hefur verið að áratugum saman og markar tímamót.

Samkvæmt hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna (SÞ) ræður strandríki sjálfkrafa yfir landgrunni (þ.e. botni og neðri jarðlögum) í efnahagslögsögu sinni út að 200 sjómílum frá grunnlínum, hvort sem ríkið nýtir þennan rétt eða ekki. Í sáttmálanum er jafnframt gert ráð fyrir að strandríki geti eignast rétt til yfirráða á landgrunni utan 200 mílna.

Alþingi samþykkti 14. mars 1983 tillögu frá Eyjólfi Konráði Jónssyni og Pétri Sigurðssyni, þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, þar sem ríkisstjórninni var falið „að gera ráðstafanir til að tryggja formlega þau ótvíræðu réttindi til hafsbotnsins á Reykjaneshrygg og út frá hlíðum hans sem Ísland á tilkall til samkvæmt 76. gr. hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna“.

Eyjólfur Konráð fylgdi kröfunni um réttinn á Reykjaneshrygg eftir með tillögum á alþingi til ársins 1993. Raunar barðist hann ekki síður fyrir rétti Íslendinga á Rockall-svæðinu undan strönd Bretlands. Það mál er enn óleyst.

Utanríkisráðuneytið tilkynnti mánudaginn 17. mars 2025 að landgrunnsnefnd SÞ hefði 14. mars komist að mjög hagfelldri og farsælli niðurstöðu varðandi rétt Íslands á Reykjaneshrygg að loknu um aldarfjórðungs ferli.

Árið 2000 hóf utanríkisráðuneytið markvissan undirbúning greinargerðar um rétt Íslands á Reykjaneshrygg til að leggja fyrir landgrunnsnefnd SÞ. Tómas H. Heiðar, þjóðréttarfræðingur utanríkisráðuneytisins, nú forseti Alþjóðlega hafréttardómsins í Hamborg, leiddi starfið af hálfu ráðuneytisins til 2014 þegar Birgir Hrafn Búason, deildarstjóri lögfræðisviðs, tók við verkefninu.

Halldór Ásgrímsson var utanríkisráðherra árið 2000 og gerði ríkisstjórnin þá ráð fyrir að það þyrfti um einn milljarð króna til að kortleggja landgrunnið í suðri.

Í september 2021 svaraði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra spurningu frá Andrési Inga Jónssyni, þingmanni Pírata, um gerð greinargerða utanríkisráðuneytisins vegna afmörkunar landgrunnsins.

Var meðal annars spurt um heildarkostnað, þar með talið við rannsóknarvinnu við gerð greinargerðanna. Ráðherra sagði að uppreiknuð samantekt á kostnaðinum lægi ekki fyrir, ætla mætti að hann væri ríflega milljarður króna frá árinu 2000. Meginhluti kostnaðarins væri vegna rannsóknarvinnu, mælinga og úrvinnslu sem hefði verið unnin af stofnunum og fræðimönnum.

Auk sérfræðinga utanríkisráðuneytisins nefndi ráðherrann sérfræðinga frá Íslenskum orkurannsóknum (áður Orkustofnun), Háskóla Íslands, landhelgisgæslunni, öðrum ráðuneytum og fyrrverandi fulltrúa í landgrunnsnefnd Sameinuðu þjóðanna.

Þegar hafréttarsáttmálinn var gerður árið 1982 var almennur skilningur og helsta sérfræðings okkar, Hans G. Andersen sendiherra, að 350 sjómílur væri hámark til yfirráða á landgrunni utan 200 mílna á Reykjaneshrygg þar sem hann teldist „neðansjávarhryggur“ í merkingu hafréttarsáttmála SÞ. Í greinargerðinni sem send var landgrunnsnefnd SÞ árið 2009 taldi utanríkisráðuneytið hins vegar að rök væru fyrir því að skilgreina Reykjaneshrygg sem „neðansjávarhæð“ í merkingu sáttmálans og þar með stækka yfirráðasvæði Íslands á hryggnum.

Eftir umfangsmikla umfjöllun landgrunnsnefndar SÞ taldi hún ekki fullnægjandi gögn fyrir hendi til að fallast að öllu leyti á kröfur Íslands í greinargerðinni frá 2009 um landgrunn utan 350 sjómílna. Af þeim sökum var greinargerðin endurskoðuð á grundvelli viðbótarrannsókna og þróunarinnar í landgrunnsmálunum. Einnig var lagt mat á niðurstöður landgrunnsnefndarinnar í málum annarra. Var endurskoðuð greinargerð send landgrunnsnefnd SÞ í lok mars 2021.

Nú fjórum árum síðar liggur fyrir endanleg niðurstaða landgrunnsnefndarinnar um að íslensk yfirráð nái 570 mílur suður á Reykjaneshrygginn.

Efnahagslega kann þetta að reynast þjóðhagslega mjög mikilvægt fyrir Ísland til lengri tíma. Niðurstaðan frá 14. mars 2025 stækkar svæði þar sem Íslendingar ráða landgrunnsauðlindum úr um 758 þúsund ferkm (efnahagslögsagan innan 200 mílna) í töluvert meira en eina milljón ferkm.

Ekki er ljóst hvort eða hvaða auðlindir á Reykjaneshrygg eru nýtanlegar. Ólíklegt er að þar finnist olía og gas. Á hryggnum er mikill jarðvarmi og eldvirkni. Neðansjávar falla þá til ýmis fágæt jarðefni. Þekkingar- og tæknigeta þjóðarinnar ætti að eflast: verkefni á svæðinu myndu kalla á þjálfun sérfræðinga í djúpsjávarverkfræði, jarðfræði og umhverfisvöktun. Þó ber að hafa í huga að arðsemi er líklega fjarlæg.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra sagði réttilega í tilkynningu utanríkisráðuneytisins að fullveldisréttindi Íslands væru nú tryggð þarna og þá tryggði niðurstaðan að ákvarðanir um hvort ætti að nýta eða vernda auðlindir svæðisins yrðu á forræði Íslands og engra annarra.

Hér er því lýst að alþjóðalög gera smáþjóð með sterk rök að vopni kleift að auka yfirráðarétt sinn. Atburðarásin og ávinningurinn er áminning um að standa vörð um alþjóðalög og að þola ekki ofríki í krafti hervalds. Íslendingar vita nú að þeir einir eiga tilkall til auðlinda þarna. Gæsla svæðisins er vandasöm. Fullveldi Íslands þar ber að tryggja. Því yrði til dæmis afsalað með aðild að Evrópusambandinu.