[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Danski knattspyrnumaðurinn Patrick Pedersen hefur skrifað undir nýjan samning við Val sem gildir út tímabilið 2026 og inniheldur möguleika á því að framlengja til eins árs til viðbótar. Pedersen er mikil markamaskína og hefur skorað 116 mörk í 189 leikjum fyrir Val í efstu deild

Danski knattspyrnumaðurinn Patrick Pedersen hefur skrifað undir nýjan samning við Val sem gildir út tímabilið 2026 og inniheldur möguleika á því að framlengja til eins árs til viðbótar. Pedersen er mikil markamaskína og hefur skorað 116 mörk í 189 leikjum fyrir Val í efstu deild. Daninn knái er 16 mörkum frá því að verða markahæsti leikmaður efstu deildar frá upphafi en hann er í dag þriðji markahæstur í deildinni á eftir Tryggva Guðmundssyni sem skoraði 131 mark og Inga Birni Albertssyni sem skoraði 126 mörk.

Íslenska U23-ára landslið kvenna í fótbolta mætir Skotlandi í tveimur vináttulandsleikjum ytra í sumar. Þetta tilkynnti Knattspyrnusamband Íslands, KSÍ, á samfélagsmiðlum sínum en leikirnir fara fram ytra, dagana 29. maí og 2. júní. „Leikstaðir verða tilkynntir þegar þeir liggja fyrir,“ segir í tilkynningu á heimasíðu Knattspyrnusambandsins.

Matej Karlovic, leikmaður Hattar í körfuknattleik, var á fundi aga- og úrskurðarnefndar í gær úrskurðaður í tveggja leikja bann vegna háttsemi sinnar í leik gegn Þór frá Þorlákshöfn þann 6. mars síðastliðinn. Í fjórða leikhluta var dæmd sóknarvilla á Karlovic þegar hann keyrði Emil Karel Einarsson hjá Þór niður. Karlovic fleygði boltanum þá í átt að Bjarna Hlíðkvist dómara, lét hann heyra það og var vísað út úr húsi. Aðeins ein umferð er eftir af úrvalsdeildinni og Höttur er þegar fallinn niður í 1. deild og því hefur hann lokið leik á tímabilinu.

Valur hefur fest kaup á varnarmanninum Andi Hoti frá uppeldisfélagi hans Leikni úr Reykjavík. Skrifar Andi undir fimm ára samning, út tímabilið 2029. Hann er 21 árs miðvörður og hægri bakvörður sem hefur leikið tvo leiki fyrir U21-árs landslið Íslands og sjö leiki fyrir U19-ára liðið. Andi á ættir að rekja til Kósovó. Auk þess að hafa leikið með Leikni hefur hann verið lánaður til Þróttar í Reykjavík og Aftureldingar. Alls hefur Andi leikið 79 leiki fyrir liðin þrjú í 1. deild og skorað þrjú mörk.

Alisson Becker, markvörður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, fór meiddur af velli aðfaranótt föstudags þegar Brasilía lagði Kólumbíu í undankeppni HM 2026 í höfuðborginni Brasilíu. Alisson lenti í samstuði við Davinson Sánchez, varnarmann Kólumbíu, á 78. mínútu og þurfti að fara af velli vegna heilahristings. Hann hefur nú dregið sig úr brasilíska landsliðshópnum og verður því ekki með brasilíska landsliðinu þegar liðið mætir Argentínu á miðvikudaginn í næstu viku.