Stanislaw „Hugmyndin um að læra íslensku kviknaði í Noregi, þar sem ég kynntist nokkrum Íslendingum.“
Stanislaw „Hugmyndin um að læra íslensku kviknaði í Noregi, þar sem ég kynntist nokkrum Íslendingum.“ — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég kom fyrst til Íslands fyrir 38 árum, en það stóð ekki til að setjast hér að, ég kom til að læra íslensku og ætlaði að staldra við í þrjú ár, en hér er ég enn,“ segir Stanislaw Bartoszek, málfræðingur og skjalaþýðandi, sem fæddur er og uppalinn í Póllandi

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Ég kom fyrst til Íslands fyrir 38 árum, en það stóð ekki til að setjast hér að, ég kom til að læra íslensku og ætlaði að staldra við í þrjú ár, en hér er ég enn,“ segir Stanislaw Bartoszek, málfræðingur og skjalaþýðandi, sem fæddur er og uppalinn í Póllandi. Hann segir áhuga sinn á Norðurlöndum hafa vaknað þegar hann var í framhaldsskóla og koma m.a. til af því að hann þoli illa hita og sé með frjóofnæmi. Kuldinn í norðri henti honum því vel.

„Ég hef mikinn áhuga á tungumálum og ég var með meistaragráðu í norsku þegar ég kom hingað fyrst. Ég var enskukennari um tíma í Póllandi og þar sem konan mín er þjóðháttafræðingur störfuðum við um tíma á útiminjasafni í austurhluta Póllands þar sem ég var fræðslustjóri og þýðandi. Ég fékk styrk til að kynna mér byggingalist alþýðu í Noregi og fór í framhaldi af því í nám til Noregs í þjóðfræði. Þar kynntist ég nokkrum Íslendingum sem bjuggu á sama stúdentagarði og ég, og þá vaknaði sú hugmynd hjá mér að fara til Íslands og læra íslensku, enda er ég menntaður málfræðingur. Ég kom hingað í ágúst 1987 og fór fyrst hringinn í kringum landið á puttanum, sem var mjög gaman, en settist svo á skólabekk í Háskóla Íslands og var þar við nám í þrjú ár í íslensku fyrir erlenda stúdenta. Síðan bætti ég við mig finnsku og fornensku,“ segir Stanislaw, sem lærði einnig rússnesku í grunn- og menntaskóla.

Börnunum leið vel í skólanum

Þegar hann flutti til Íslands til að fara í íslenskunámið var hann búinn að stofna fjölskyldu heima í Póllandi, átti þar konu og tvö ung börn, soninn Pawel, sem margir kannast við nú á hans fullorðinsárum, en hann situr á þingi fyrir Viðreisn, og dótturina Mörtu.

„Konan mín, Emilia Mlynska, kom sumarið 1988 með börnin, en árið 1990 fluttu þau hingað og hún fór í nám í íslensku í háskólanum. Við tókum aldrei ákvörðun um að búa á Íslandi til frambúðar, það bara þróaðist þannig, enda gekk allt vel, Pawel leið vel í grunnskólanum og Marta var ánægð í leikskólanum. Árið 1994 gat ég sótt um íslenskan ríkisborgararétt eftir að hafa búið hér í sjö ár, og það gekk vel,“ segir Stanislaw, sem vildi þá finna sér almennilegan starfsvettvang.

„Ég ætlaði ekki verða eilífðarstúdent, svo að ég fór í Tölvuháskóla VÍ, enda vantaði forritara víða og strax eftir fyrsta árið í námi fékk ég vinnu hjá Visa-Iceland, sem síðar varð Valitor. Þar starfaði ég í 25 ár, fyrst sem forritari og síðar sem sérfræðingur. Meðfram þessu öllu var ég alltaf að vinna að orðabókum og ég er búinn að gera margar gerðir af þeim, allt frá litlum vasabókum yfir í stórar skólaorðabækur, íslensk-pólskar og pólsk-íslenskar. Ég skrifaði líka kennslubók fyrir byrjendur í íslensku, fyrir Bréfaskólann, en þá bjuggu ekki eins margir Pólverjar hér og núna, en samt var þörfin fyrir hendi. Orðabókavinnan mín þróaðist smám saman og sumar bókanna voru líka gefnar út í háskóla í Póllandi. Ég var alltaf með nýjar útgáfur af orðabókum á tveggja ára fresti og fyrstu árin prentaði ég þetta heima hjá mér. Ég segi stundum að margar þessar fyrstu orðabækur hafi verið heimabrugg,“ segir Stanislaw og hlær.

Mjög glaður og ánægður

Stanislaw segir orðabækur sínar hafa stækkað smám saman yfir árin og ein af þeim hefur verið aðgengileg á heimasíðu Mörtu dóttur hans undanfarinn áratug, en hún er skjalaþýðandi í Póllandi, þýðir úr íslensku yfir á pólsku.

„Sú bók er frá árinu 2006 en hefur ekki verið í neinni þróun, hún er ekki uppfærð. Aftur á móti mun nýja Íslensk-pólska veforðabókin, sem var formlega opnuð í gær og við höfum unnið að undanfarin ár í Árnastofnun, vera í stöðugri þróun. Hún uppfærist samstundis í hvert sinn sem ég bæti við orði eða þarf að laga villur, breyta skilgreiningu eða þýðingu á orðum sem eru þar fyrir,“ segir Stanislaw, sem er ritstjóri pólska markmálsins í þeirri veforðabók, en auk hans unnu að orðabókinni Aleksandra Kieliszewska og Miroslaw Ólafur Ambroziak. Að verkinu komu einnig Emilia Mlynska skólaráðgjafi og Pawel Bartoszek sérfræðingur.

„Þessi veforðabók er bylting, í henni eru rúmlega 54 þúsund uppflettiorð ásamt fjölda dæma og orðasambanda sem öll eru þýdd á pólsku. Framburður allra íslenskra uppflettiorða er gefinn með hljóðdæmum, og tenglar eru í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls, sem er mikilvægt fyrir fólk sem er að læra íslensku og vill bæta sig í því að tala hana. Veforðabókin er öllum aðgengileg, í tölvum eða símum, og fólki að kostnaðarlausu. Stærðarmunur á nýju veforðabókinni og fyrri orðabókum mínum er verulegur, þær voru aðeins með um nítján þúsund orð. Þessi útgáfa á netinu er því stórt skref og ég er mjög glaður og ánægður með þetta allt saman.“

Slóðin á nýju veforðabókina er www.pl.is

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir