Sópransöngkonan Margrét Hannesdóttir og Hrönn Þráinsdóttir píanóleikari halda tónleika í dag, laugardaginn 22. mars, í Neskirkju á vegum 15:15-tónleikasyrpunnar. Á efnisskrá tónleikanna verða sönglög eftir Richard Strauss, Gabriel Faurè, Henry Duparc, Samuel Barber, Sigfús Einarsson, Helga Rafn Ingvarsson, Árna Thorsteinson og Halldór Smárason.
Margrét útskrifaðist með láði frá Westminster Choir College (WCC) í maí 2013 með MM í söng og söngkennslu. Hún hefur sungið á tónleikum víðsvegar og farið með hlutverk í óperuuppfærslum bæði hérlendis og erlendis. Hrönn stundaði framhaldsnám í píanóleik við Staatliche Hochschule für Musik í Freiburg og er menntuð í meðleik með ljóðasöng og píanókennslu. Hún hefur komið fram víða og starfar sem kennari við nokkra tónlistarskóla hér á landi.