Ólöf Fríða Gísladóttir, oftast kölluð Fríða, fæddist 30. nóvember 1927 á Ölkeldu í Staðarsveit. Hún lést á heimili sínu á Hjúkrunarheimilinu Bæjarási í Hveragerði 21. febrúar 2025.

Foreldrar hennar voru hjónin Gísli Þórðarson, f. 12.7. 1886, d. 20.9. 1962 og Vilborg Kristjánsdóttir, f. 13.5. 1893, d. 26.12. 1993.

Systkini Fríðu voru: Þórður, f. 15.7. 1916, d. 29.9. 1994, Elín Guðrún, f. 22.8. 1917, d. 25.7. 2006, Alexander, f. 1.11. 1918, d. 11.1. 1991, Kristján Hjörtur, f. 23.11. 1923, d. 7.7. 2015, Guðbjartur, f. 1.8. 1931, d. 5.6. 1984, og Lilja, f. 6.11. 1934, d. 9.2. 2025. Uppeldisbróðir var Kristján Guðbjartsson, f. 18.1. 1909, d. 10.12. 2000.

Fríða ólst upp á Ölkeldu. Hún fór í Húsmæðraskólann á Staðarfelli og síðan réð hún sig í vinnu á Bændaskólanum á Hvanneyri. Þar kynntist hún Sverri Gunnarssyni, f. 18.8. 1928, d. 23.12. 2019, sem þar var við nám og gengu þau í hjónaband 7. maí 1949 og fluttust að Hrosshaga í Biskupstungum.

Börn þeirra eru: 1) Halldór, f. 4.3. 1950, eiginkona er Gunnþórunn Jónsdóttir. Börn þeirra eru Flóki, Sólveig, og Halldór. Barnabörn og fósturbarnabörn eru sjö. 2) Gísli, f. 12.12. 1951. Sonur hans og Eddu Þorvaldsdóttur er Hjálmar. Eiginkona Gísla er Guðrún Ásta Einarsdóttir og á hún dæturnar Bryndísi Björk, Eyrúnu Ösp og Hildi Eyþórsdætur. Barnabörnin eru sjö og eitt barnabarnabarn. 3) Gunnar, f. 16.10. 1953, eiginkona Sigríður Jónína Sigurfinnsdóttir. Börn þeirra eru Henríetta Ósk, Jón Ágúst, Ásta og Sigrún. Barnabörnin eru fjórtán. 4) Margrét, f. 21.3. 1957, eiginmaður Helgi Guðmundsson. Börn þeirra eru Þórey, Ketill, Fríða, og Andri. Barnabörnin eru þrettán og barnabarnabörnin tvö. 5) Ólöf, f. 13.6. 1958. Dóttir hennar er Tara Róbertsdóttir. 6) Ingibjörg, f. 18.9. 1963, eiginmaður Óttar Ægir Baldursson. Dætur þeirra eru Adda María og Vilborg. Börn Ingibjargar og fyrri eiginmanns, Harðar Gunnarssonar, eru Nanna Dröfn og Gunnar Þórbergur. Barnabörnin eru sjö.

Fríða og Sverrir bjuggu í Hrosshaga alla sína búskapartíð utan tvö ár sem þau áttu heima í Laugarási og ráku garðyrkjustöðina Akur, sem þau stofnuðu í byrjun áttunda áratugarins. Fríða var virk í félagsmálum sveitarinnar. Hún var í Kvenfélaginu, söng í Skálholtskórnum og tók þátt í leikfélagsstarfi Ungmennafélagsins. Auk þess starfaði hún við veitingaþjónustu í Aratungu og í Skálholti. Þegar þau Sverrir höfðu hætt búskap fluttu þau í dvalarheimilið Ás í Hveragerði og byggðu í Hrosshaga sumarhús sem þau áttu um skeið. Sverrir lést í árslok 2019 og flutti Fríða þá á hjúkrunarheimilið Bæjarás.

Útför Fríðu fer fram frá Skálholtskirkju í dag, 22. mars 2025, kl. 12.

Elsku mamma kvaddi okkur að morgni 21. febrúar á Hjúkrunarheimilinu Bæjarási í Hveragerði, en þar hafði hún dvalið síðan árið 2020 eftir að pabbi dó. En pabbi lést 23. desember 2019.

Pabbi og mamma fluttu á Dvalarheimilið Ás í Hveragerði árið 2002 en þá búið í Hrosshaga frá 1949 fyrir utan tvö ár í Laugarási.

Átján ára fór mamma á húsmæðraskólann á Staðarfelli í Dölum eins og margar ungar stúlkur gerðu í þá daga. Síðan lá leið hennar að Hvanneyri sem starfsmaður og kynntist þar pabba sem var þar við nám.

Mamma sagði að pabba hefði vantað konu til að eiga börn með og svoleiðis, svo hún sló til. Hann sagðist eiga traktor og stærðarjörð í Hrosshaga. Þarna vissi mamma ekkert hvað hún var að fara út í.

Þau settu upp hringana 17. júní 1947 uppi á hólnum á Ölkeldu og giftu sig 7. maí 1949.

Það sem beið mömmu þegar hún kom í Hrosshaga var ekki alveg það sem unga konu dreymdi um; torfbær, ekkert rennandi vatn og kamar úti á haughúsi. En það sem mamma sagði að hefði bjargað sér var að Magga bjó hjá þeim. Magga (Margrét Halldórsdóttir) arfleiddi pabba að Hrosshaga og hjálpaði þeim mikið. Nú sýndi mamma hvað í henni bjó. Dugleg, jákvæð og bjartsýn og þannig var hún alla ævi.

Mamma skrifaði dagbók ásamt pabba frá 1951 og eru þetta miklar heimildir. Við að lesa þessar bækur fær maður innsýn í líf þeirra á þessum árum. Mikill gestagangur og 1950 fær mamma slæma liðagigt sem hún fékk lækningu við hjá gigtarlækni í Reykjavík árið 1954. Sagði alltaf að þetta hefði verið kraftaverk.

Úr torfhúsinu komst hún árið 1955 og var það mikil breyting. Fékk rennandi vatn og salerni.

Mamma var félagsvera og naut þess að hitta fólk. Var í kirkjukór, leikritum og kvenfélagi þar sem hún var gerð að heiðursfélaga. Elskaði blóm og gróður og hafði yndi af að sinna garðinum sínum. Prjónaði, saumaði og fór á alls konar námskeið sem kvenfélagið bauð upp á. Talaði ekki illa um aðra en henni gat sárnað þegar einhver gerði á hennar hlut. Fór að vinna utan heimilis þegar fækkaði í kotinu. Vann á haustin í sláturhúsinu í Laugarási. Við veitingar á sumrin í Aratungu, hótelinu í Skálholti og í leikskólanum.

Mamma var mikil barnakona og viljug að taka að sér barnabörnin. Örugglega oft fengið nóg af þeim. En börnunum þótti gott að koma í ömmu- og afahús.

Hún náði því að verða tvöföld langalangamma. Árið 1984 gerðum við hjónin vinnuskipti við þau. Þau fóru í Laugarás en við fluttum í Hrosshaga. Þar voru þau í tvö ár. Komu svo aftur í nýbyggt hús 1986 og þá var nú notalegt fyrir börnin okkar að hafa þau á hlaðinu.

Mamma og pabbi ferðuðust mikið jafnt innanlands sem utan. Það voru bændaferðir, sólarlandaferðir og ýmsar annars konar ferðir. En svo kom að því að þau treystu sér ekki lengur og hafði mamma orð á því að það hefði alltaf verið svo mikil tilhlökkun að vita af einhverri ferð í pöntun en nú væri ekki lengur hægt að hlakka til.

Nú hittast pabbi og mamma í sumarlandinu og verða örugglega gleðifundir.

Hvíl í Guðs friði elsku mamma.

Margrét Sverrisdóttir.

Nú er elsku mamma mín dáin 97 ára gömul. Það er skrítið að vita ekki af henni í Hveragerði þar sem alltaf var hægt að koma við og knúsa hana. Hún var kannski komin hálfa leið inn í draumalandið fyrir nokkru en alltaf fann ég fyrir kjarnanum hennar. Blíðu og mjúku móðurorkunni en mamma var líka sjálfstæð og ákveðinn á sinn hátt.

Mamma átti ekkert auðvelda ævi í Hrosshaga framan af. Hún var bóndadóttir, alin upp á Ölkeldu í Staðarsveit og þar var komið fínasta íbúðarhús, rennandi vatn og meira að segja rafmagn, þegar hún hittir pabba á Hvanneyri og fer að hokra í Hrosshaga í hálfgerðum torfbæ með engum þægindum.

Þar átti hún bræður mína og það hefur ekki verið auðvelt að vera með þrjú ung börn, með hvorki rennandi vatn né rafmagn og kamar úti, eins og þetta var þarna. Mamma segist aðallega hafa verið hrædd við rotturnar en einu sinni var rotta í vöggunni hjá elsta bróður mínum og það sat alltaf í henni.

Það hefur örugglega oft verið erfitt líka í nýja húsinu þegar við urðum fimm og svo sex og svo alltaf fullt af gestum, vinnufólki allt sumarið, aðallega. En mamma var ótrúlega þrautseig og dugleg þó stundum hafi þetta örugglega tekið á.

Mamma var yndisleg kona. Hún vildi öllum vel og hún hjálpaði mér mikið þegar ég var einstæð móðir í Reykjavík. Þegar ég fór á námskeið eða í leikferðalög þá var hún alltaf tilbúin að stökkva til og vera hjá Töru minni.

Það var mamma sem kynti undir áhuga mínum á skáldskap, söng og leik. Hún elskaði Davíð Stefánsson og þegar ég var búin með allar skáldsögur sem voru í bókahillunni rétti hún mér Svartar fjaðrir sem ég las upp til agna. Mamma var mjög músíkölsk og spilaði eftir eyranu á píanó. Ingibjörg litla systir fékk að læra á píanó og það pirraði hana stundum þegar hún var að baksa við að spila eitthvert lag eftir nótum. Þá settist mamma við píanóið og spilaði það eftir eyranu. Svo lærði mamma á gítar áður en hún flutti í Hrosshaga. Mamma tók líka þátt í leikritum og söng í Skálholtskórnum og stuðlaði að því að við Maggý færum í kórinn aðeins 10 og 11 ára gamlar. Ég var heppin að vinna með mömmu minni lítinn leikþátt og gera um hana stutta heimildarmynd. Mér fannst ég kynnast aðeins annarri hlið á konunni sem var mamma mín því þá spurði ég oft öðruvísi eða annars konar spurninga.

Ég elska þig mamma mín. Þú varst ekki fullkomin en svona næstum því. Þú varst jákvæð, umburðarlynd og falleg sál. Ég er viss um að þú nýtur þín í ljósinu. Dansandi með hinum englunum enda naustu þess að dansa. Þú kveiðst því ekki að fara yfir í Draumalandið og vissir vel yrði tekið á móti þér.

Ólöf Sverrisdóttir.

Elsku Fríða, tengdamóðir mín, lést 21. febrúar sl. 97 ára að aldri. Hún var orðin ansi týnd síðustu misserin, þekkti fólkið sitt stundum, en oft ekki. Hugurinn eflaust í þoku og líkaminn lúinn og linur undir það síðasta. Þá er gott að fá að fara.

Fríða fæddist og ólst upp á Ölkeldu í Staðarsveit á Snæfellsnesi, í stórum systkinahópi. Fríðu dreymdi dagdrauma, langaði að verða söngkona þegar hún yrði stór. Hún var listfeng og hæfileikarík, hefði eflaust viljað helga listinni líf sitt. En annað átti fyrir henni að liggja. Fór í Húsmæðraskólann á Staðarfelli og síðan lá leiðin í vinnu á Hvanneyri, þar sem hún kynntist honum Sverri sínum. Giftist honum á heimili foreldra hans í Reykjavík og flutti svo í sveitasæluna í Hrosshaga. Þar var gamall lítill burstabær, vatn í brunni og útikamar. Heima á Ölkeldu var nýlegur steinbær, rennandi vatn og vatnssalerni. Viðbrigðin voru því allmikil.

Drengirnir þrír fæddust fyrstu fjögur árin. Og Fríða var veik af liðagigt í litla kalda bænum. Til allrar hamingju batnaði henni nokkru síðar, og varð með tímanum alveg laus við gigtina. Þessi fyrstu ár voru því ansi erfið fyrir ungu húsmóðurina. En hún átti góða að. Magga gamla, sem bjó alla sína tíð í Hrosshaga, var börnunum sem besta amma. Fríða sagði síðar að hún vissi ekki hvernig hún hefði farið að ef hún hefði ekki haft hana Möggu sína. Fjölskyldan í Reykjavík og nágrannar hjálpuðu líka mikið.

Fljótlega hófu þau Sverrir að skrifa eitt og annað hjá sér í dagbækur. Til að byrja með skrifuðu þau bæði, en síðan skrifaði Fríða ein og hélt því áfram til 2016. Ómetanlegur fróðleikur fyrir okkur hin. Það er gaman að lesa um fyrstu árin, sjá hvað samheldnin á milli bæja var mikil, allir hjálpuðust að. Og t.d. á fyrstu þremur vikum 1957 hittu þau nágranna og vini alls sjö sinnum og spiluðu, ýmist fóru þau eða fengu gesti.

Undirrituð flutti í Hrosshaga 30 árum á eftir Fríðu. Þá var margt breytt. Þau Sverrir voru farin að njóta lífsins á nýjan hátt og ferðuðust mikið næstu áratugina.

Þau voru áræðin og hugrökk að skella sér í ný ævintýri. Breyta til og hætta hefðbundnum búskap. Fara alfarið í garðyrkjuna um tíma. Síðan tók við trjárækt og ýmiss konar vinna.

75 ára fluttu þau að Ási í Hveragerði og nutu lífsins þar mjög vel.

Fríða var alltaf til í fjör, var glöð og jákvæð. Hún vildi halda almennilegt partí þegar hún varð 90 ára, hún vildi hafa veislu, dans og fjör. Sem hún gerði, bauð fjölskyldunni á jólahlaðborð, þar sem var ball á eftir. Og hún dansaði og tjúttaði við afkomendur fram á kvöld. Þótt hallaði undan fæti síðustu misserin, þá var hún staðin upp og dansaði og klappaði ef heyrðist tónlist.

Fríða var einstaklega elskuleg kona og kærleiksrík. Það var gott að koma sem tengdadóttir á heimilið. Aldrei bar skugga á samskiptin og ótal ánægjustundir geymast í minningunum.

Ég kveð Fríðu með miklu þakklæti.

Sigríður J.
Sigurfinnsdóttir.

Elsku Fríða amma okkar hefur kvatt þetta líf eftir 97 ár, sex börn, og óteljandi barnabörn, barnabarnabörn og meira að segja barnabarnabarnabörn.

Við systkinin ólumst upp í Reykjavík en vorum þeirrar gæfu aðnjótandi að eiga afa, ömmu, frændur og frænkur, í sveit. Það var alltaf tilhlökkun að koma í Hrosshaga, leika við frænkur og frændur og fá að upplifa sveitastörf og dýralíf. Amma var trúuð kona, kenndi barnabörnunum að fara með bænir og gaf okkur fallegar glansmyndir af englum.

Þessi tæpa öld sem amma upplifði, lengst af með afa sem lést 2019, var sannarlega merkilegur tími. Þau fluttu sem ung hjón í Hrosshaga og hófu búskap í gömlu húsi úr timbri og torfi þar sem faðir okkar fæddist áður en nýja húsið var byggt. Og börnin urðu sex. Það hlýtur að hafa verið krefjandi líf fyrir ungu hjónin. Það er því gott til þess að hugsa að með tímanum fóru þau að geta ferðast, oftast til sólríkra landa, og njóta lífsins. Amma elskaði ferðalög og stofan hennar var skreytt með minjagripum frá suðrænum slóðum. Hún naut sín á mannamótum, þá sérstaklega ef það var dansað. Það var dásamlegt að sjá hana dansa allt kvöldið með öllu fólkinu sínu í níræðisafmælinu.

Í dag kveðjum við Fríðu ömmu, sannkallaða ættmóður. Við erum þakklát fyrir allar góðu minningarnar.

Flóki, Sólveig og Halldór
Halldórsbörn.

Fríða Gísladóttir frá Ölkeldu í Staðarsveit og síðar húsfreyja í Hrosshaga í Biskupstungum er látin í hárri elli. Í mér, persónulega, skilur þessi merka kona eftir sig yndislegar minningar – og þá sérstaklega frá þeim fjórum samfelldu sumrum sem ég fékk að vistast og þroskast sem vinnumaður í Hrosshaga. Ýkjulaust má fullyrða það að Hrosshagadvölin hafi átt stóran þátt í að kenna mér almennt verksvit, náttúruskynjun, mannlega reisn, gott siðferði og bestu leiðina til að greina á milli þess sem ungum manni er hollast að virða og meta – og hins sem getur truflað lífsgæði og góða líðan. Föðurbróðir minn, Sverrir Gunnarsson bóndi í Hrosshaga, hafði á sínum tíma verið svo heppinn að rekast á Fríðu sína þegar hann var nemi á Hvanneyri. Heppilegra gat það ekki verið. Persónuleikar elskendanna smellpössuðu saman og í áranna rás fæddust þeim sex mannvænleg börn. Í Hrosshaga kynntist maður þannig innviðum hins góða hjónabands og heppilegasta samblandinu milli gleði og alvöru. Á sumri tvö bættist við annar vinnumaður. Það var frændi minn og síðar kollega, Gunnar Rafn Jóhannesson. Hann hafði misst móður sína og þurfti sannarlega á því að halda að komast í umhverfi sem gæti hjálpað honum í sárri sorg. Og auðvitað gekk það upp í Hrosshaganum, sem er stórkostlegt dæmi um það sem homo sapiens getur áorkað í íslensku sveitinni, þar sem tilverustig okkar getur náð hæstu hæðum.

Að lokum eru Hrosshagabörnunum öllum sendar innilegar samúðarkveðjur.

Gunnar Ingi Gunnarsson.

hinsta kveðja

Elsku mamma, nú er komið að kveðjustund.

Margs er að minnast, en alltaf kemur það sama upp: Þitt endalausa æðruleysi og umburðarlyndi. Því ekki varstu eingöngu mamma, heldur líka amma barna minna. Við söknum þín öll, og eigum margar góðar minningar. Og alltaf koma upp minningar um kleinubakstur ykkar pabba.

Far þú í friði, takk fyrir allt og allt.

Þinn

Gunnar (Gunni).