Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
Sorpa hefur farið þess á leit við Úrvinnslusjóð að fá hærri greiðslur frá sjóðnum til að mæta auknum kostnaði byggðasamlagsins vegna handflokkunar drykkjarumbúða frá öðrum blönduðum pappír í fyrra.
Alls fer Sorpa fram á að fá rúmar 67 milljónir króna fyrir árið 2024 en jafnframt er farið fram á að Úrvinnslusjóður endurskoði ákvörðun sína um að hafna sams konar beiðni fyrir árið 2023. Hljóðaði sú beiðni upp á tæpar 15 milljónir króna en hún náði aðeins til hluta ársins.
Fjallað var um eldri kröfu Sorpu í Morgunblaðinu í fyrra. Þar kemur fram að þennan aukna kostnað megi rekja til þess að 1. júlí 2023 hóf Sorpa að senda blandaðan pappír til Svíþjóðar þar sem drykkjarumbúðir eru flokkaðar sérstaklega út með handvirkum hætti. Jafnframt fylgir sögunni að raunar nær þessi handflokkun til drykkjarumbúða, dagblaða og tímarita, bylgjupappa og rusls. Þetta er gert þess að draga úr kostnaði á síðari stigum í virðiskeðjunni. Jón Viggó Gunnarsson framkvæmdastjóri Sorpu lýsti þá furðu sinni á að Úrvinnslusjóður skyldi hafa hafnað beiðni Sorpu um hærri greiðslur.
Í bréfi til Úrvinnslusjóðs nú segir að forsvarsmenn Sorpu telji að um verulega annmarka á málsmeðferð sjóðsins hafi verið að ræða í svörum hans í fyrra. Enn fremur segir að ekki verði séð að synjun sjóðsins hafi samrýmst því meginsjónarmiði að fjárframlög innflytjenda og framleiðanda skuli standa í raun undir öllum kostnaði sem af viðkomandi vöru hlýst. Synjun sjóðsins hafi því ekki verið til samræmis við lög.