Ragna Steinunn Eyjólfsdóttir var fædd 8. júlí 1936. Ragna lést 21. febrúar 2025.
Útför fór fram 1. mars 2025.
Elsku mamma.
Nú ert þú búin að kveðja okkur. Það er mikill söknuður þó að við vissum hvað í stefndi. Það er huggun að vita að þú kveiðst því ekki að fara frá þessum stað því þú sagðir að það biði þín fullt af þínu fólki á næsta stað. Þú varst búin að kveðja alla þína nánustu og búin að gefa út síðustu bókina þína og mér fannst eins og þér fyndist þínu verki lokið hér.
Ég er þér og pabba innilega þakklátur fyrir að hafa alist upp hjá ykkur. Okkar bestu stundir eflaust í sveitinni en þú sagðir alltaf að ég myndi enda sem bóndi. Það fór þó ekki alveg svo þó ég hefði alveg getað hugsað mér það. Þú kenndir mér að vera alltaf góður við bæði menn og dýr og last alltaf fyrir mig á kvöldin þegar ég var lítill en það er mjög notalegt. Ég vona að ég hafi skilað þessu öllu áfram.
Ég á ótal minningar úr æsku sem er of langt mál að rekja hér en það er t.d. að það þýddi ekkert að vera með einhvern gikkshátt þegar kom að mataræði og ég er ennþá þekktur fyrir að borða allan mat. Svo var t.d. þegar þú varst að klippa mig í sveitinni, þá var ekki auðvelt að fara nýklipptur í skólann með klippingu eins og Prince Valiant. Þeir sem eru á mínum aldri vita hvernig sú klipping var en ég lifði það nú af (naumlega). Þú áttir nú ekki alltaf auðvelt líf en komst samt alltaf í gegnum það og dáist ég að þér fyrir það.
Jæja mamma mín, ég held að ég láti þetta gott heita þó að margar hugsanir fari í gegnum hugann um allt það sem við höfum átt saman í gegnum tíðina. Ég sakna þín og pabba mjög mikið og hugsa mikið til ykkar.
Þinn ástkæri sonur,
Albert (Alli).